Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 13:56:42 (4226)

1999-03-02 13:56:42# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[13:56]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Allir sem tóku þátt í breytingum á lögum um Húsnæðisstofnun á síðasta þingi og hafa starfað við sveitarstjórnir muna að félagslega íbúðakerfið var að gera sveitarfélög úti um land gjaldþrota. Nauðsynlegt var að grípa þar inn í og koma ábyrgðum sveitarfélaga í eðlilegt horf svo ekki söfnuðust upp meiri ábyrgðir en þegar höfðu safnast. Semja þurfti að nýju um leiguíbúðakerfið og koma í það horf sem það er í í dag. Leiguíbúðakerfið var nánast ekki barn í brók, ef svo mætti taka til orða. Að sjálfsögðu er í dag unnið mjög faglega að því að meta greiðslustöðu einstaklinga og fjölskyldna þannig að staðið verði undir þeim íbúðarkaupum sem í er ráðist.

Mér ofbýður, herra forseti, að hlusta á fyrrv. félmrh., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar hún gerir lítið úr störfum núv. hæstv. félmrh., Páls Péturssonar, og annarra sem tengjast Framsfl. Þó á hún að vita að í hennar tíð sátu einstaklingar og fjölskyldur uppi með milljónir, hver fjölskylda, í afföllum á bakinu. Þær eru jafnvel enn að basla við að komast út úr þeim vandamálum sem komu upp þegar hún var hér félmrh. Ég veit að hundruð fjölskyldna fóru á hausinn vegna aðgerða hennar eða aðgerðaleysis réttara sagt. Ég held að hún ætti að rifja það oftar upp hvernig fólk var skilið eftir á köldum klakanum vegna ráðaleysis hennar.