Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 14:03:29 (4229)

1999-03-02 14:03:29# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[14:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil minna hv. sjálfstæðismenn sem hér hafa talað á það að eftir að sjálfstæðismenn stjórnuðu á tímabilinu 1983--1987 voru húsnæðismálin skilin eftir í algerri rúst og grípa þurfti til neyðaraðstoðar og koma upp greiðsluerfiðleikakerfi til þess að bjarga þúsundum heimila í landinu sem var gert á árunum frá 1987--1990. Það sem er staðreynd þessa máls er að sjálfstæðismönnum er alveg sama um láglaunafólk í landinu og hafa þegar þeir komast til valda gert allt sem þeir geta til að slá af félagslega aðstoð.

Það er ótrúlegt að hæstv. ráðherra geti staðið í þessum ræðustól gersamlega blygðunarlaus og sagt framan í fólk, einstæða foreldra, öryrkja og barnafjölskyldur sem hundruðum saman bíða eftir íbúð og margir hverjir á götunni að allt sé í lagi í húsnæðismálum. Ég ætla að draga til vitnis Þjóðhagsstofnun um þetta mál vegna þess að hæstv. ráðherra leitaði ekki til Þjóðhagsstofnunar um nýja greiðslumatið eða nýja húsnæðislánakerfið. Hvað segir Þjóðhagsstofnun um þetta í nýjum gögnum sem ég hef fengið um þetta kerfi? Sagt er að þennan nýja framfærslukostnað og viðmiðun sem ráðherra notar sé einungis hægt að nota sem lágmarksframfærslu, sem algert lágmark sem fólk geti búið við í skamman tíma. En hér er verið að byggja á greiðslumati til 40 ára, og þar stendur að rýmra greiðslumat ráðherrans muni leiða til þess að margir muni reisa sér hurðarás um öxl. Og einnig stendur hér að rýmkað greiðslumat verði notað til þess að fjármagna aðra neyslu og rýmkun greiðslumats sé ekki skynsamleg ráðstöfun við núverandi efnahagsskilyrði og það hefur Seðlabankinn líka tekið undir í gögnum sem ég hef undir höndum. Þar stendur líka að áhrifin á fjármagnsmarkaði af þessu nýja kerfi ráðherrans og þessu greiðslumati muni leiða til aukins þrýstings á vaxtastig í landinu og hækka verð á íbúðarhúsnæði verulega. Ég dreg Þjóðhagsstofnun fram hér til vitnis og Seðlabankann sem ráðherrann hefur ekki leitað til varðandi húsnæðiskerfið.

Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ráðherra á því neyðarástandi sem nú ríkir á leigumarkaðnum og á því að verið er að stefna fjölda fólks og heimila í gjaldþrot á næstu mánuðum og missirum. Ég segi eins og Ögmundur Jónasson: Guði sé lof að það eru að koma kosningar svo hægt sé að koma þessum ráðherra frá.