Lífeyrissjóður bænda

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 14:32:00 (4232)

1999-03-02 14:32:00# 123. lþ. 75.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv. 12/1999, GHall
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[14:32]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. hefur oft og einatt komið hér upp í ræðustól og talað um lífeyrissjóðina og þá óreglu sem þar ríkir í annars ágætri reglu. (PHB: Það sagði ég aldrei.)

Þegar talað er um hvernig eigi að kjósa í stjórnir sjóðanna þá finnst mér hv. þm. oft fara nokkuð geyst og um víðan völl og ekki eru þá kannski allar hugmyndir sem fram eru settar með þeim rökum að hægt sé að standa að málinu. T.d. eins og hér segir í brtt. við 8. gr.:

,,Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins. Heimild til að sitja félagsfund hafa sjóðfélagar eða umboðsmenn þeirra.``

Ég verð nú að segja, virðulegi forseti, að ég reikna með því að sjálfsagt mundu margir bændur nýta sér þennan rétt og senda umboðsmenn sína til þess að stjórna sjóðnum. Og þá fer nú kannski að kárna gamanið ef meiri hluti mættra fundarmanna á aðalfundi Lífeyrissjóðs bænda eru umboðsmenn þeirra.

Það sem mér finnst alverst í þessari brtt. er --- og ég er hissa á því, jafnfélagsvanur maður og hv. 10. þm. Reykv. er, auk þess sem hann hefur starfað við lífeyrissjóði líklega á annan áratug --- að engin ákvæði eru um það hvernig með skuli fara þegar atkvæðagreiðsla er haldin, þ.e. þess vegna gætu fimm verið mættir á aðalfund Lífeyrissjóðs bænda og ráðið þar öllu. Og það gæti orðið alvarlegt ef það væru eingöngu þeir sem hefðu fengið umboð frá bændum. Það gæti vel verið að þessir fimm sem mættu með umboð frá bændum á aðalfundinn væru kannski fulltrúar einhverra peningastofnana.

Mér finnst því að hv. flutningsmenn, Pétur H. Blöndal og Gunnlaugur M. Sigmundsson, hafi ekki áttað sig á því að það er eðlilegt að varðandi slíka félagsfundi þar sem farið er með jafnmikið fjármagn og hv. þm. ber hér mikla umhyggju fyrir, skuli ekki a.m.k. vera ákvæði um það hver skuli vera lágmarksfjöldi sjóðfélaganna, enn fremur hvernig með skuli fara ef meiri hluti fundarmanna mætir með umboð frá öðrum, þeir ættu ekki einu sinni sjóðinn. Þá finnst mér að umræðan um þetta mál sem hér er verið að flytja sé nú heldur betur komin í hring.

Síðan er talað um það að vísu að á ársfundi skuli taka fyrir skýrslu stjórnar, ársreikninga, tryggingafræðilega úttekt, fjárfestingarstefnu, laun stjórnar og tillögu stjórnar eða félagsmanna um breytingar á samþykktum sjóðsins. Til breytinga á samþykktum sjóðsins þarf tvo þriðju hluta atkvæða. Atkvæða hverra? Þeirra sem eru á fundinum? Er það meiningin? Eða tvo þriðju atkvæða þeirra sem eru virkir sjóðfélagar? Mér finnst nokkuð vont mál þegar fram kemur á Alþingi brtt. um jafnmerkilegan sjóð og Lífeyrissjóð bænda sem virðist vera þess eðlis að lagt er upp án þess að sjá hvorki til hafs né lands.