Lífeyrissjóður bænda

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 14:39:11 (4235)

1999-03-02 14:39:11# 123. lþ. 75.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv. 12/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er iðulega svo að lagatexti gefur ákveðna stefnu en síðan er ætlunin að fylla upp í hann með reglugerðum. Í þessu frv. er einmitt gert ráð fyrir því í 22. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Setja skal nánari reglur um skipulag sjóðsins og starfsemi auk frekari ákvæða um lífeyri, svo sem fjárhæðir og útreikning lífeyris og skilyrði fyrir greiðslum, í samþykktir sem fjármálaráðherra staðfestir að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.``

Þarna er tekið á því hvernig eigi með þetta að fara. Það er mjög algengt í lagasetningu að þessi leið sé farin.

Herra forseti. Við erum jafnframt að fjalla um Lífeyrissjóð sjómanna. Það verður gaman að sjá hver afstaða hv. þm. verður til þess frv., hvort hann treysti sjómönnum sem fullgildum fjárráða borgurum til þess að fara með stjórn síns sjóðs, þ.e. með ráðstöfun og ávöxtun þess fjár sem ætlað er að standa undir ellilífeyri þeirra.