Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 16:28:08 (4240)

1999-03-02 16:28:08# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[16:28]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Um leið og ég þakka hv. þm. Agli Jónssyni þá góðu varðstöðu gagnvart landsbyggðinni og miklu baráttu sem hann hefur sinnt sem þingmaður og formaður Byggðastofnunar, þá tek ég undir margt sem kom fram í máli hans og tel auðvitað að sú þáltill. sem hér er til umræðu muni marka einhver tímamót. Samt sem áður langar mig að reifa smáviðhorf við hv. þm. sem hefur kynnt sér og legið yfir byggðamálum meira en aðrir menn, að mér finnst kannski að enn vanti sálina í málið til að snúa því við. Ég hef sannfærst um það á síðustu missirum um leið og ég hef skoðað þessi mál, að snúa þarf þróuninni við og það verður ekki gert öðruvísi en að verkefnið snúi beint að fólki og fjölskyldum. Ég hef lagt fram tillögu um lægri skatta og margvíslegar aðgerðir sem viðgangast í öðrum löndum. Ég er líka þeirrar skoðunar að menn þurfi að gera fiskvinnsluna á Íslandi eftirsóknarverðari vinnustað með einhverjum aðgerðum. Landsbyggðin mun njóta þess ef það verður gert og ég held það verði ekki gert með öðru en þessu. Síðan hef ég, hæstv. forseti, kynnt mér það og hugleitt í byggðamálum að margar þjóðir eru með sérstök byggðamálaráðuneyti og byggðamálaráðherra sem glíma við nánast engan byggðavanda miðað við okkur, þannig að ég hef sannfærst um að mikilvægt er að koma upp byggðamálaráðuneyti. Forsrh. fer nú með þetta verkefni hér. Hann er auðvitað önnum kafinn með lítið ráðuneyti á bak við sig og margvísleg önnur verkefni þannig að hann getur ekki haldið jafnfast á svona verkefni og byggðamálaráðherra með sterkt byggðamálaráðuneyti á bak við sig mundi hins vegar geta gert. (Gripið fram í.) Mig langar að spyrja hv. þm. hver viðhorf hans eru í þessu efni.