Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 16:36:19 (4244)

1999-03-02 16:36:19# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[16:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það efni sem við ræðum hér, þ.e. till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001, er mjög víðfeðmt. Í rauninni má segja að við séum með allt undir, atvinnulíf, menningarlíf, mannlífið yfirleitt og ég hef kosið, herra forseti, að hafa sem meginþunga í ræðu minni til hvers og hvaða árangri áætlanir af þessu tagi skila. En ég mun eigi að síður fjalla um ýmis þau mál sem mér finnst skipta máli og ég tel rétt að halda til haga í umræðunni.

Það hefur verið nokkuð almenn samstaða um að treysta bæri búsetu í landinu öllu. Menn hafa verið með mismunandi áherslur í þeim efnum, talað um stækkun byggðakjarna eða vaxtarsvæði eins og er kannski meira í tísku núna en það má samt fullyrða að nokkuð almenn samstaða hafi verið um að treysta bæri búsetu í landinu öllu. Síðan hafa menn tekist ögn á um hvað það merkti, hversu langt ætti að ganga en um rökin hafa menn þó verið nokkuð sammála, þ.e. að við viljum tryggja að ákveðinn atvinnu- og menningarlegur fjölbreytileiki sé í landinu til þess að lífið verði innihaldsríkara og skemmtilegra og til þess að landið verði áhugaverðara, bæði til búsetu og líka til heimsókna. Við erum sem sé nokkuð viss um að það Ísland sem við viljum er Ísland sem býr yfir fjölbreytileika, bæði í menningu og atvinnu og það Ísland verður ekki til nema við treystum búsetu í landinu öllu.

Stundum hefur umræðunni um byggðamál verið stillt upp þannig að um andstæður væri að ræða, annars vegar að tala um landsbyggð og hins vegar um höfuðborgarsvæði og þessu tvennu stillt upp sem andstæðum sem ættu ólíkra hagsmuna að gæta. Ég vil vegna þeirrar umræðu, herra forseti, leyfa mér að vitna í ræðu borgarstjórans í Reykjavík, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem hún flutti á landsþingi Sambands sveitarfélaga sl. vor, en þar sagði borgarstjórinn, með leyfi forseta:

,,Tilraunir stjórnvalda til að hafa áhrif á þróunina hafa einkennst af varnarbaráttu en ekki sóknarstefnu. Aðstoð hefur mest verið veitt til atvinnugreina, fyrirtækja og byggðarlaga sem eiga undir högg að sækja en minna hugsað um sóknartækifæri fyrir landsbyggðina. Ánægjulegt dæmi um slíkt er þó uppbygging Háskólans á Akureyri.

Sá öri vöxtur sem verið hefur í Reykjavík og nágrannabyggðarlögum á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugi er ekki endilega eftirsóknarverður fyrir íbúa svæðisins. Pólitísk umræða og samkeppni á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar alið á þeim hugsunarhætti að vöxtur sé til marks um gæði. Mikill vöxtur borgarsamfélags skapar ýmis vandamál, svo sem í skipulagsmálum og umferðarmálum auk þess sem spennuástandi fylgja ný félagsleg vandamál.

Það kostar mikið bæði í fjármunum og gæðum umhverfis að byggja upp nýju hverfin og að leysa umferðarvandamálin. Hin mikla áhersla sem lögð er á að byggja upp nýju svæðin og umferðaræðarnar veldur því líka að ekki er hægt að leggja eins mikið og þarf í endurgerð og endurnýtingu eldri hverfa borgarinnar. Öllu þessu fylgir svo ákveðið menningarlegt rótleysi og lítil vitund um sameiginleg menningarverðmæti. Á sama tíma nýtast mannvirkin og þjónustustofnanirnar á landsbyggðinni sífellt verr. Má þar nefna íbúðarhúsnæði, vegi, skóla, veitur og heilbrigðisstofnanir. Þessir miklu búferlaflutningar eru því þjóðinni allri mjög kostnaðarsamir.``

Ég vil halda áfram að fjalla um kostnaðinn, herra forseti, vegna þess að mér finnst það jákvætt, ég verð að orða það þannig, að auk þess að beita fyrir okkur hinum almennu rökum um atvinnu og menningarlegan fjölbreytileik sem ástæðu þess að halda landinu í byggð eða treysta búsetu í landinu, þá hefur á síðustu missirum aukist að menn tali um þann kostnað sem er þessu samfara. Mér finnst það mjög gott vegna þess að það var orðið tímabært að menn gerðu sér grein fyrir því hversu dýrt það er að fjárfesta tvisvar, ef svo má að orði komast, fyrir sama hópinn.

Menn hafa talað um að það sveitarfélag sem tekur við nýjum einstaklingum þurfi að leggja út á bilinu 3--5 millj. vegna þeirra. Þá erum við að fjalla um þá grunngerð samfélagsins sem borgarstjórinn taldi upp í þeim hluta ræðunnar sem ég las. Menn hafa reiknað það út og sú tala hefur verið notuð í þessum sal að við værum þá e.t.v. að tala um upphæðir á bilinu 6--10 milljarða á ári sem væri sá kostnaður sem er samfara hinum miklu búferlaflutningum og þeim kostnaði sem þarf að leggja í vegna þeirra. Hér er þó ótalinn, herra forseti, sá kostnaður sem einstaklingarnir og fjölskyldurnar verða að bera vegna flutninga, því að í mörgum tilfellum þurfa menn að ganga frá eignum sínum nánast verðlausum og í sumum tilfellum jafnvel með skuldir vegna þeirra. Svo þurfa menn að byrja að fjárfesta á nýjan leik. Við erum því, hvernig sem á það er litið, að tala um mjög háar upphæðir sem á hverju ári fara eingöngu vegna þess að byggðaröskun er svo mikil sem raun ber vitni. Þó að það sé e.t.v. ekki það brýnasta, þá ætla ég að leyfa mér að varpa því fram að við gætum gert ýmislegt gáfulegra til að treysta búsetu í landinu ef við hefðum þó ekki væri nema brot af þeirri upphæð til að mæta þeim vanda sem víða er og menn vilja meina að sé liður í þeirri búseturöskun sem við höfum öll áhyggjur af.

Hér er til umfjöllunar till. til þál. um stefnu í byggðamálum. Tillagan er 21 grein en henni fylgja í býsna þéttri bók ýmis fylgiskjöl og eru mörg þeirra afskaplega mikilvæg inn í umræðuna. Þessi fylgiskjöl hafa verið unnin af ýmsum aðilum. Mörg þeirra hafa verið unnin af Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri og ég verð að segja það, herra forseti, að mikill fengur er að þeim upplýsingum sem þannig hafa verið dregnar saman, bæði um þróun atvinnutækifæra á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, um íþróttir, fjölmiðla og menningu, um húshitunar- og rafmagnskostnað á Íslandi og um menntamál á landsbyggðinni. Sömuleiðis skiptir verulegu máli fyrir þá umræðu sem við erum í, að teknar skuli hafa verið saman upplýsingar um upplýsingatækni og byggðaþróun vegna þess að af gefnum ákveðnum skilyrðum er ég sammála þeim sem telja að þar liggi e.t.v. sá lykill sem getur orðið okkur notadrýgstur til að hamla gegn frekari byggðaröskun.

[16:45]

Ég tók eftir því að formaður stjórnar Byggðastofnunar fjallaði áðan um það sem gerst hefur án tillögunnar. Hann fór yfir nokkur mál sem komist hafa í höfn án þess að tillagan væri samþykkt. Það er kannski eins gott, herra forseti, vegna þess að við erum að fjalla um tillögu sem átti að taka til ársins 1998. Við erum að fjalla um tillögu sem átti að taka til árs sem er þegar liðið. Ekki er vansalaust að nú á vordögum árið 1999 skuli tillagan loksins koma til efnislegrar afgreiðslu á þinginu.

Þegar við lesum byggðaáætlun af því tagi sem liggur fyrir og veltum því fyrir okkur hvers geti verið að vænta verði hún samþykkt hljótum við að byrja á því að spyrja: Hvernig sú áætlun sem áður var í gildi gafst, hver var árangur hennar? Í umræðunni hefur komið fram að í maí 1994 var afgreidd frá Alþingi þál. um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árið 1994 til og með árinu 1997. Þar voru sett fram ákveðin stefnumál og það var ekki gert að óathuguðu máli. Hún var ekki sett fram í neinum flýti eftir því sem fram kom frá formanni stjórnar Byggðastofnunar hér áðan heldur var mikið starf lagt í tillöguna að hans sögn. Menn skyldu því ætla að þar hafi þeir sem að henni stóðu og síðan samþykktu vitað hvað þeir voru að gera og hvert þeir vildu stefna.

Eigi að síður er niðurstaðan sú að tillagan hefur harla litlu skilað. Menn geta alltaf sagt hvað hefði gerst hefði hún ekki verið til staðar en það er hálfnöturlegt að horfa til þess hvernig hefur í raun verið farið með það sem var þó samþykkt og mátti kalla stefnumótandi úr þeirri tillögu. Þar átti að stefna að valddreifingu með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og forsenda fyrir því væri sameining eða samningsbundið samstarf sveitarfélaga.

Ég vil aðeins staldra hér við, herra forseti. Ætli það hafi ekki verið á síðasta ári gildistíma þessarar áætlunar að samþykkt voru ný sveitarstjórnarlög. Nei, það var reyndar árið eftir, árið 1998. En þar var það staðfest að Alþingi Íslendinga lítur svo á að lágmarksíbúatala sveitarfélags sé 50 og þar var dregið úr vægi héraðsnefnda þannig að hið samningsbundna samstarf sveitarfélaga sem hefur verið á þeim vettvangi á nú mjög hæpna lagastoð. Ég gagnrýndi hvort tveggja í umfjöllun um það frv. sem lá þá fyrir Alþingi, bæði þetta með héraðsnefndirnar og sömuleiðis það að menn skyldu veigra sér við því að setja lágmarkið ofar, setja lágmark á íbúatölu sveitarfélaga á raunhæfan stað. En það að meiri hluti Alþingis skyldi samþykkja lögin eins og þau eru nú segir mér að menn gerðu ekkert með það sem stóð í byggðaáætluninni, nákvæmlega ekki neitt, herra forseti. Svo var um fleira.

Leggja átti fram tillögur um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga fyrir Alþingi sem fyrst. Vissulega hefur verið fjallað um verkefni og það hafa orðið til reynslusveitarfélög en það hefur líka gerst á þessu kjörtímabili að menn hafa verið að fresta verkefnum sem áttu að fara til sveitarfélaganna. Af hverju skyldi það hafa verið? Vegna þess að undirbúningur var ónógur. Það hafði einfaldlega ekki verið unnið nægjanlega markvisst í þessum málum. Þetta gerist líka á því tímabili þegar menn ætluðu sér að vinna eftir ákveðinni stefnumörkun.

Síðan átti að auka á landsbyggðinni opinbera þjónustu og starfsemi opinberra stofnana en slík störf áttu að dragast saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi. Menn vita nokkuð hvernig til tókst í þeim efnum. Það liggur fyrir skýrsla sem Byggðastofnun er búin að gefa út en er í rauninni eitt af fylgiskjölum tillögunnar þar sem í ljós kemur eins og hér segir:

,,Sé um einhverja breytingu að ræða frá árinu 1994, þegar Alþingi samþykkti í byggðaáætlun að opinberum störfum skyldi fjölgað á landsbyggðinni, hefur þróunin fremur gengið í gagnstæða átt.``

Allt er þetta heldur dapurlegt, herra forseti, og hlýtur að leiða til þess að við veltum fyrir okkur til hvers er verið að samþykkja áætlun af þessu tagi ef ekkert er með þær gert. Hver er tilgangurinn að samþykkja ágæta stefnumótun, stefnumótun sem mörg okkar geta verið sammála um að gæti leitt til þess að landsbyggðin fengi betri viðspyrnu en þegar kemur síðan að lagabreytingum inni á Alþingi bregðast menn allt öðruvísi við? Til hvers erum við þá að þessu? Getur verið að menn séu að samþykkja áætlanir af þessu tagi sem eins konar friðþægingu eða jafnvel skjól fyrir því að gera síðan ekki neitt?

Mér er ofarlega í huga að fyrr í vetur samþykkti meiri hlutinn á Alþingi að breyta leiklistarlögum á þann veg að sá styrkur sem lögboðinn var til eina atvinnuleikhússins utan höfuðborgarsvæðisins skyldi felldur út, þ.e. lögunum var breytt þannig að það er ekki lengur skylda ríkisvaldsins að styrkja þetta eina atvinnuleikhús landsbyggðarinnar. Þegar ég var að reyna að mótmæla þessu á byggðapólitískum forsendum hér í salnum var mér bent á það af hálfu hæstv. menntmrh. að atriði sem snúa að þessu væru í tillögum til byggðaáætlunar hæstv. forsrh. Það mátti taka út úr löggjöfinni þau ákvæði sem gátu verið til þess að styrkja rekstrarumhverfi þessa eina atvinnuleikhúss á landsbyggðinni, það mátti taka þau út af því að það lá fyrir þinginu till. til þál. um stefnu í byggðamálum. Því spyr ég aftur, herra forseti, getur verið að menn noti beinlínis tillögugerð af þessu tagi til þess að hafast ekkert að? Því miður hvarflar það að manni.

Á eftir ætla ég að fara yfir ýmis ákvæði í þessari tillögu og hvernig mér hefur fundist til takast vegna þess að ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur að við gerum okkur grein fyrir því til hvers við erum að þessu og hvað við ætlumst fyrir. Þessi fyrsta byggðaáætlun fyrir 1994--1997 er gengin úr gildi án þess að skilja mikið eftir annað en vonbrigði og eins og kemur fram í nál. 2. minni hluta allshn. liggur ekki fyrir nein heildstæð úttekt á reynslunni af henni, ekkert um það hvað náðist fram og hvað brást ef undan er skilin sú skýrsla Byggðastofnunar um skiptingu útgjalda og stöðugilda hjá ríkissjóði og fyrirtækjum í meirihlutaeign ríkisins sem ég vék að áðan.

Hins vegar væri bæði heiðarlegt og gott fyrir Alþingi að menn greindu hvað það var sem brást og af hverju. Af hverju var ekkert gert með það sem stóð í þessari áætlun? Hafa menn engan áhuga á að átta sig á því þó að ekki væri nema til þess að reka sig þá ekki á það sama þegar kemur til framkvæmda þeirrar áætlunar sem við erum nú að fjalla um. Ef við mættum ekkert læra af reynslunni af fyrstu tillögunni hvernig getum við þá treyst því að sú tillaga sem við fjöllum um núna komi eitthvað frekar til framkvæmda?

Eins og ég gat um áðan er tillagan í 21 lið. Ég ætla að fara yfir nokkra þeirra vegna þess að þannig háttar til að mál eins og mál Leikfélags Akureyrar hafa verið á sveimi og hafa fengið tiltölulega litla athygli af hálfu meiri hluta Alþingis ef nokkra, en hefðu fallið svo afskaplega vel að ákvæðum tillögunnar. En kannski þurfti ekki að sýna þeim athygli af því að hér lá fyrir till. til þál. Mér er það ekki ljóst, herra forseti, en ég held a.m.k. að það sé gott að menn geri sér grein fyrir því að meiri hlutinn hefur haft fjöldann allan af tækifærum til þess að takast á við verkefni sem voru fullkomlega raunhæf og ríma ágætlega við þær tillögur sem liggja fyrir í till. til þál.

Ég ætla fyrst að nefna, herra forseti, 5. lið tillögunnar þar sem segir:

,,Forsendur traustra byggða og þar með vaxtarsvæða eru öruggar samgöngur, öflug sveitarfélög, samstarf byggðarlaga um þjónustu og góð skilyrði til atvinnusóknar. Þessi grundvöllur verði treystur með því að örva fjárfestingar í samgöngum, menntun, byggingum og fjarskiptum. Samvinna fyrirtækja við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir verði efld, erlend tengsl fyrirtækja á landsbyggðinni aukin og störf sköpuð með fjarvinnslu.

Gripið verði til aðgerða til að auðvelda fólki í strjálbýli atvinnusókn og hugað að leiðum til að lækka kostnað því samfara. Til að treysta búsetu og þróun vaxtarsvæða verði stuðlað að bættum og öruggari almenningssamgöngum.``

Hér lýkur 5. lið og allt hljómaði þetta vel. En hér hefur legið fyrir, herra forseti, till. til þál. þar sem 1. flm. er Árni Steinar Jóhannsson, um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði. Þessi tillaga hefur ekki fengið mikla athygli. Mér skilst að ekki hafi einu sinni verið fjallað um hana í hv. samgn. Sýnist mér þó að bæði sú forvinna sem hefur verið unnin, sem er býsna mikil, og efni 5. gr. þessarar þáltill. sem hér liggur fyrir, bendi sameiginlega til þess að þetta sé eiginlega tillaga sem sé enginn vandi að samþykkja af hálfu Alþingis. En það hefur ekki verið gert og mér skilst eins og ég segi að þessi tillaga hafi ekki fengið mikla athygli í hv. samgn. Þetta er annað dæmi um það, herra forseti, að við erum með texta fyrir framan okkur sem er út af fyrir sig ágætur og að mörgu leyti vel orðaður og fallega og segir hluti sem við viljum öll sjá í framkvæmd í mörgum greinum en þegar kemur til stykkisins, þegar rekur til þess að menn geta tekist á við raunveruleg mál sem skipta máli, gert samþykktir um eitthvað sem skiptir sköpum og er í samræmi við þann texta, sýna menn algert áhugaleysi eða jafnvel þvert á.

Í næsta lið tillögunnar, herra forseti, sem er sá 6., er talað um að lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna en hlutfallslega á landsbyggðinni. Þá er talað um að leitast verði við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins.

Hér hefur farið fram umræða, herra forseti, um að það skipti líka máli að varðveita þau störf sem eru úti á landi. Skýrslan sem liggur fyrir leiðir í ljós að opinberum störfum hefur verið að fækka mjög úti á landi. Þessi störf, sem hefur verið að fækka, eru auðvitað jafndýrmæt og þau nýju störf sem menn eru síðan að setja niður á blað að þeir vilji gjarnan koma út á land. Einhvern veginn finnst manni ekki alveg að það heyri allt upp á sama daginn þegar annars vegar er verið að fækka störfum úti á landi eins og gerðist með því að leggja niður bæði Ísafjarðarradíó og Siglufjarðarradíó, svo að ég taki dæmi, og flytja þau störf hingað suður. Mér finnst, herra forseti, að menn verði að vita nokkurn veginn hvert þeir eru að stefna þegar verið er að fækka störfum með þeim hætti vegna þess að slík störf eru jafnmikilvæg og hugsanlega ný störf sem mættu verða til úti um landið.

Ég nefni þetta sem dæmi, herra forseti, vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að það komi fram að við á hv. Alþingi höfum fylgst með og tekið til umræðu þá þróun sem hefur orðið í þessum efnum, reynt að andæfa og hafa hér áhrif án þess að við hefðum árangur.

[17:00]

Næst vil ég, herra forseti, nefna 8. lið áætlunarinnar. Þar er talað um að fram fari greining á möguleikum einstakra landshluta og um að menn skoði í heild þá möguleika sem einstaka landshlutar búa yfir. Ég vil tengja þetta 9. liðnum þar sem rætt er um að menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega í verklegum greinum sem tengjast atvinnulífinu. Ég vil í þessu sambandi nefna dæmi. Ég tel skipta máli að við nefnum hér dæmi um það sem okkur finnst miður hafa farið, ekki síst ef þau ganga beinlínis gegn því sem segir í þessum tillögugreinum.

Ætli það hafi ekki verið fyrir ári síðan að gefið var út að skipstjórnarnám, þ.e. fagnámið, ætti einungis að fara fram við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Þetta var í tengslum við þær breytingar sem ákveðið var að gera á slíku námi. Eftir nokkra baráttu fékkst reyndar sú niðurstaða að námið gæti jafnframt haldið áfram úti á landi ef næg þátttaka fengist. Hins vegar þurfti ekki, herra forseti, að taka það fram þegar um námið hér í Reykjavík var að ræða. Þá þurfti ekki að vera næg þátttaka. Sú krafa var einungis gerð ef námið færi fram annars staðar.

Náttúrlega ætti þetta nám býsna vel heima annars staðar en í Reykjavík. Það á t.d. vel heima á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem kraftmikil útgerð er til staðar eins og menn vita og aðilar sem væru til þess búnir að standa með opinberum aðilum að uppbyggingu námsins. Eigi að síður má landsbyggðin sæta því að sá fyrirvari sé gerður að aðsókn ráði námi þar á meðan slík krafa er ekki gerð í Reykjavík.

Hvað hefur þetta í för með sér, herra forseti? Jú, menn átta sig fljótlega á því að öryggi námsins er í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hér verður námið starfrækt og því heppilegra að taka undirbúningsárin hér vegna þess að verra þykir að þurfa að skipta um skóla í miðju kafi. Þess vegna, herra forseti, er aðsókn í aðfararnám að fagnáminu mest í Reykjavík. Á endanum sýnist mér, miðað við það hvernig að þessu hefur verið staðið, það leiða til þess að fagnám til skipstjórnar fari einungis fram í Reykjavík. Nú vil ég ekki vera svartsýn í þessum efnum, langt í frá, en ég nefni þetta sem dæmi um það hvernig menn ganga gegn því sem þeir hafa annars staðar sett fram sem æskileg markmið.

Vegna 9. liðar, herra forseti, vil ég jafnframt fjalla um möguleika fjarkennslu og þá menntun á háskólastigi. Ég er sammála því að það nám sé mikilvægt fyrir landsbyggðina en þar er ýmislegt sem hefði verið hægt að breyta fyrr án þess að nokkuð hafi verið gert. Í 11. lið þáltill. er t.d. talað um að aðstaða til miðlunar og útsendinga fjölmiðla verði jöfnuð og verði hin sama um land allt, meðal annars með breytingum á gjaldskrá Landssíma Íslands hf. Ég ætla að víkja aðeins að því, herra forseti.

Til þess að sjónvarpa beint utan af landi þurfa menn að leggja í svo mikinn kostnað að það er ekki gert nema í algjörum undantekningartilfellum. Það er ódýrara fyrir menn að fljúga norður, taka upp og fljúga suður með spóluna. Það er gert. Þannig er þetta gert. Fréttamennirnir úti á landi taka upp viðburði sem ættu að vera í beinni útsendingu. Ef þeir væru það mundu þeir vekja meiri athygli á því sem er að gerast. En af því að það er svo dýrt þá er það tekið upp á band. Síðan er hlaupið í næstu flugvél með bandið og það sent á viðkomandi sjónvarpsstöð sem síðan sendir efnið út þegar hentar. Um þetta hefur oft verið rætt hér en einhverra hluta vegna hefur alltaf tekist að leiða umræðuna í tæknilegt þvarg sem enginn hefur skilið, enda hefur sú umræða engum árangri skilað.

Svo bölvanlega vill til, herra forseti, að þetta er ekki bara svona í sambandi við fjölmiðlun. Þetta á líka við menntunina. Nú eftir áramótin hófst fjarkennsla eða fjarnám réttara sagt, fjarkennslubúnaðurinn er ekki þannig að nemendur séu kallaðir á einn stað heldur eru nemendurnir úti um allt land þannig að við skulum kannski kalla það fjarnám. Verkefnið hófst á vegum Samvinnuháskólans á Bifröst núna um áramót. Sá skóli kaupir ákveðið rými á notendalínu til að koma því efni sem hann þarf á framfæri við sína nemendur. Skólinn kaupir ekki eins mikið rými og hann þyrfti á að halda. Hann kaupir einungis 1/3 af því rými sem hann vildi hafa vegna þess að þetta er svo dýrt. Svo dýrt er það að ef þessi skóli væri staddur hér, nær símstöð ef má orða það þannig, og þannig er það, þá væri kostnaðurinn á aðra milljón lægri. Ef skólinn tæki það rými sem hann telur sig þurfa þá værum við að tala um þrefaldan þann kostnað.

Herra forseti. Þetta er mismunun. Þetta er hrein og klár mismunun. Í raun er fráleitt að þessu skuli ekki hafa verið breytt. Málið hefur margoft verið til umræðu hér. Hér er rætt um þetta í tillögunni. Ég spyr: Af hverju var ekki hægt að breyta þessu eða færa til betri vegar þó að tillagan væri ekki samþykkt? Formaður stjórnar Byggðastofnunar taldi ýmislegt upp, aðallega um fjármál, sem hann mat svo að hefði verið samþykkt vegna tillögunnar, þrátt fyrir að hún hafi ekki verið endanlega rædd og samþykkt á Alþingi.

Ég held að málið sé miklu stærra en ráða mætti af umræðunni. Það segi ég m.a. vegna þess, herra forseti, að þegar menn hafa komið með fyrirspurnir til hæstv. samgrh. þá hefur Landssíminn nestað hann með svör, þess eðlis að ekki hefur verið hægt að taka þátt í umræðunni. Hann hefur komið með tæknileg svör við pólitískum spurningum. Það er slæmt, herra forseti, vegna þess að ef meiri hlutanum á Alþingi er alvara með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir þá er þetta eitt af þeim málum sem menn hefðu getað verið búnir að kippa í liðinn. Þessu þarf því að kippa í liðinn hið fyrsta, bæði því sem snýr að fjölmiðlunum og hinu sem snýr að skólunum eða fjarnáminu. Þetta er ekki vansalaust.

Ég ætla ekki að tína til fleiri atriði, herra forseti, þó hægt væri. T.d. væri freistandi að fara yfir 14. liðinn þar sem fjallað er um félagslegt íbúðarhúsnæði. Talað er um að breyta eigi lögum þannig að heimilt verði að selja húsnæðið í áföngum á almennum markaði. Við vitum að miðað við þau fjárlög sem við búum við voru settar 50 milljónir í að ríkið gæti mætt sveitarfélögunum í að takast á við muninn sem yrði á markaðsverði í viðkomandi sveitarfélagi og uppreiknuðu raunvirði. Við vitum að 50 milljónir duga ekki langt í þeim efnum. Við hljótum því að efast um að mikið gerist í sölu á félagslegu húsnæði úti á landi, enda segir í 14. lið, með leyfi forseta:

,,Þar sem félagslegt íbúðarhúsnæði er meira en þörf er á vegna fólksfækkunar, og það veldur erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaga, verði heimilt að selja þetta húsnæði í áföngum á almennum markaði. Ríkissjóður og sveitarfélög beri sameiginlega þann kostnað sem af þessu kann að hljótast.``

Herra forseti. Eins og ég segi væri ýmislegt hægt að segja um þetta mál en ég ætla nú ekki að fara frekar út í það. Ég ætla hins vegar að víkja almennt að þeim málum sem menn hafa kallað byggðamál en eru í sjálfu sér ekki annað sú almenna atvinnu- og félagsumgjörð sem við viljum búa fólkinu í landinu hvort sem það er í Reykjavík eða annars staðar. Ég tel ljóst, af þeim rannsóknum sem liggja fyrir, reynslu frá öðrum löndum og þeim kröfum sem menn gera orðið til þjónustu og kosta á nútímalegum lifnaðarháttum, eins og það er orðað í skýrslu Stefáns Ólafssonar, að stærð byggðarkjarnanna er lykilatriði til að útskýra búferlaflutninga. Í ljós kemur að íbúar lítilla sveitarfélaga, í sveitarfélögum eða þéttbýliskjörnum á bilinu 200--1.000, eru hvað óánægðastir með stöðu sína. Kannski má segja að þar geri þéttbýlið kröfu um annars konar lifnaðarhætti en í dreifbýli en fámennið er samt það mikið að ekki er hægt að verða við nema hluta af þeim kröfum um þjónustu, menningu og afþreyingu sem íbúarnir gera.

Það er líka staðreynd að atvinnulífið hefur tekið stakkaskiptum á síðustu þremur áratugum, breytingar hafa verið mjög miklar og þær hafa leitt til fækkunar í landbúnaði og sjávarútvegi. Við höfum ekki enn séð fyrir endann á þessum breytingum. Því er spáð, herra forseti, að ársverkum í landbúnaði fækki um 300--600 á næstu fimm árum og ársverkum í sjávarútvegi, bæði í veiðum og vinnslu, muni fækka um 4.200 á sama tíma. Við erum að tala um, herra forseti, að störfum í landbúnaði og sjávarútvegi muni á næstu fimm árum fækka um u.þ.b. 5.000.

[17:15]

Hvar mun þessarar fækkunar gæta? Jú, hennar mun fyrst og fremst gæta úti á landi, þ.e. hinnar beinu fækkunar og þess vegna er svo mikilvægt að menn gangi rösklega til þess verks að efla menntun, efla skólana, mæta þörfum fyrir sí- og endurmenntun og efli í rauninni þá þætti sem við getum horft til að séu í vexti í stað þess að setja peninga eða orku í að viðhalda því sem ljóst er að er á undanhaldi. Það er ljóst að menntamálin hafa gríðarmikla þýðingu fyrir þróun byggðar í landinu. Það hefur komið fram að yfir 80% þeirra nemenda sem brautskrást frá Háskólanum á Akureyri búa og starfa á landsbyggðinni. Þar höfum við augljósa og mjög ákveðna vísbendingu um að efling háskólastofnana sé einhver skilvirkasta aðgerðin sem stjórnvöld geti gripið til vegna þess að það er alveg ljóst að á sama tíma og þeim störfum fækkar sem við höfum núna í landbúnaði og sjávarútvegi, þá þurfum við að bjóða fólki upp á menntun til að það geti átt betri viðspyrnu gagnvart því ástandi sem myndast í kjölfarið. Við þurfum þá að gera það kleift að menn geti nýtt fjarskipti og upplýsingatækni til að nýta möguleikana til að veita menntun út í hinar dreifðu byggðir til að menn geti treyst því að stjórnvöld búi þannig um hnúta að t.d. gjaldskrá Landssímans sé ekki þrándur í götu þess að menn geti nýtt sér þá möguleika sem liggja í fjarskiptum og upplýsingatækni.

Herra forseti. Það þarf að fjölga ársverkum fyrir vel menntað fólk á vegum hins opinbera úti á landi. Það er ekkert öðruvísi og til þessa verða menn að ganga á einn eða annan hátt. Menn verða líka að átta sig á því að efla þarf þá þætti sem eru í vexti, t.d. ýmsa þjónustuþætti og ýmislegt sem snýr að menningu og afþreyingu. Reiknað er með að á næstu árum verði fjölgunin fyrst og fremst á þessum sviðum. Enda þótt menn geti reiknað sig niður til þeirrar staðreyndar að ekki þurfi nema kvartstarf, eða hálft starf eða brot úr starfi í þessum efnum víða úti um land, þá er ekki öllu lengur hægt að ætlast til þess að úti um landið vinni fólk við menningar- og afþreyingarstörf, ef það má orða það þannig, meira og minna launalaust vegna þess að menn gefast upp á slíku. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að menningin kostar líka peninga úti á landi. Hún kostar ekki bara peninga hér. Hún kostar líka peninga úti á landi og það þarf að setja í hana peninga.

Það er skortur á háskólamenntuðu fólki úti á landi, herra forseti, og auðvitað þarf að búa þannig um hnúta að eftirsóknarvert verði eiga þar heima. Mér finnst áhugaverð umræðan um skatta og mismunandi skattlagningu. Sú umræða er hins vegar mjög skammt á veg komin og lítið annað en upphrópanir enn sem komið er og e.t.v. er sú aðferð ekki nothæf fyrir okkur. Við skulum horfast í augu við það. Hugsanlega þurfum við að horfa til allt annarra þátta.

Herra forseti. Það er líka mjög mikilvægt að umræðan um landsbyggðina taki ekki bara svip af þeim erfiðleikum og því neikvæða sem oft og einatt er efst á baugi í umfjöllun um þessi mál, heldur séu menn jafnduglegir að leiða fram hið jákvæða við að búa úti á landi. Það er nefnilega rétt sem hér hefur komið fram fyrr í umræðunni að ýmsum þjónustuþáttum í tilteknum sveitarfélögum er mun betur sinnt en á höfuðborgarsvæðinu. Það er nokkuð ljóst að fólk með börn er mun betur sett víða úti á landi hvað varðar þjónustu eins og þá að fá leikskólarými eða að koma barninu fyrir í góðum grunnskóla, ódýrum tónlistarskóla, ég tala nú ekki um aðgengi að tómstundum og íþróttum ýmis konar. Þessu eigum við auðvitað að halda á lofti. Við þurfum líka að segja frá því sem vel er gert og því sem er betra. Það skiptir máli að fólki sem býr úti á landi sé blásinn kjarkur í brjóst, a.m.k. verðum við ekki til þess endalaust að hamra það inn að það sé svo miklu betra að eiga heima í Reykjavík. En stundum finnst mér umræðan vera dálítið á þann veg. Menn taka það sem þeim hentar úr borgarlífinu og stilla því upp sem hinu eftirsóknarverða og þá hlýtur hitt að blikna í samanburði sem menn eru að gera víða úti um landið. Ég held að hér sé algerlega öfugt í hlutina farið, herra forseti. Við getum allt eins snúið þessu við og dregið upp mynd af því fjölbreytilega mannlífi sem þrífst um allt land og sýnt bæði okkur sjálfum sem þar eigum heima og öðrum, fram á það hversu eftirsóknarvert og mikilvægt það er að við höldum þeim fjölbreytileika sem felst í mismunandi menningu og atvinnulífi um landið allt.

Herra forseti. Hvað þessa till. til þál. varðar þá eru góð orð, og orð yfirleitt, til alls fyrst. Ég hef rætt þessa tillögu þannig að í henni sé ýmislegt áhugavert og ýmislegt sem horfi til framtíðar. Einkum og sér í lagi hef ég vitnað til þeirra fylgiskjala sem með fylgja og eru hluti af þessari bók, eins og ég gerði hér áðan, vegna þess að þar er náma upplýsinga fyrir okkur sem tökum þátt í þessari umræðu um hin aðskiljanlegustu mál. En ég verð að segja, herra forseti, að eftir að vera annars vegar búin að fara yfir og ræða um örlög þeirrar tillögu sem var í gildi á árunum 1994--1997 og fara síðan yfir nokkra af þeim þáttum sem hér liggja fyrir og hvernig mál sem fallið hafa að þeim þáttum hafa síðan verið meðhöndluð á Alþingi af meiri hlutanum, þá hef ég ekki brennandi trú á því að allt í einu muni allt breytast nú, a.m.k. hef ég ekki trú á að sú ríkisstjórn sem nú situr muni hafa mikla tilburði í þeim efnum að fylgja eftir þeim ákvæðum sem hér eru á blað sett. Ég hef sem sé vantrú á því að þessi orð, þótt góð séu, verði framkvæmd. Ég þarf ekki að endurtaka af hverju, herra forseti. Ég er búin að fara hér yfir bæði fyrri tillögu og eins ákvæði þessarar og sýna fram á hvernig í rauninni því hefur verið sýnt algert áhugaleysi að ákveða þau atriði sem hafa mátt verða til bóta og hafa í raun líka fallið að ákvæðum tillögunnar.

Ég vil svo segja það í lokin, herra forseti, að mér finnst sú staðreynd að við skulum nú loks, vorið 1999, fjalla um tillögu fyrir árin 1998--2001, að við skulum nú loksins fjalla um tillögu sem á að gilda fyrir árið sem liðið er og hluta af þessu ári, e.t.v. sýna best viðhorf þessarar ríkisstjórnar til byggðamála og til mikilvægis þeirra ákvæða sem skráð eru á þennan pappír.