Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 17:32:27 (4249)

1999-03-02 17:32:27# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[17:32]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mér finnst það málefni sem hér er til umræðu vera mikilvægt og mjög áhugavert, tillaga til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001. Á undanförnum árum og reyndar áratugum hefur mikill flutningur fólks verið frá landsbyggðinni til þéttbýlissvæðisins á suðvesturhorninu og reiknast mönnum til að 12.500 einstaklingar séu brottfluttir af landsbyggðinni umfram aðflutta á undanförnum tíu árum og ef litið er lengra aftur í tímann og árabilið frá 1971 til ársins í ár skoðað, þá er þessi tala mun hærri eða tæplega 22 þús. manns. Um það deilir enginn að miklir fólksflutningar eiga sér stað. Þessi þáltill. fjallar um að snúa þessari þróun við og hér setur ríkisstjórnin fram tillögur í 21 lið um hvernig við getum borið okkur að.

Hér er ekki að finna neinar markvissar aðgerðir og ástæðan fyrir því að við sáum okkur ekki fært að skrifa undir álit meiri hluta allshn. um þessa tillögu er sú að við teljum að hér sé á ferðinni handarbaksvinna með eindæmum. Við segjum í okkar nál., sá sem hér stendur og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að taka þarf miklu fastar á málum en gert er ráð fyrir í tillögunni. Orðin ein duga ekki. Setja þarf fram áætlun með tímasetningum og kostnaðarmati um aðgerðir í samgöngumálum og fjarskiptum, í menntamálum, heilbrigðisþjónustu og annarri félagslegri þjónustu, jöfnun námskostnaðar, jöfnun orkukostnaðar o.fl. Styðja þarf markvisst við þróun fjölbreyttra atvinnukosta með hliðsjón af aðstæðum á hverjum stað og á forsendum sjálfbærrar þróunar. Fyrst og fremst þarf þó að sýna viljann til góðra hluta í verki. Það stoðar lítið að móta stefnu, gera áætlun og meta kostnað ef ákvörðun skortir um afl þeirra hluta sem gera skal. Fjármagn verður að fylgja.``

Og fjármagnið fylgir ekki þeim tillögum sem settar eru fram í þessu mikla plaggi. Markmið tillögunnar er hins vegar ágætt, að treysta búsetu á landsbyggðinni með það fyrir augum að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010. Eins og ég segi þá skortir á markvissar aðgerðir og í ræðum manna í dag hefur verið bent á ýmsar tillögur sem fram hafa verið settar af hálfu stjórnarandstöðunnar á undanförnum árum og hefðu átt að ná fram að ganga ef einhver vilji hefði verið hjá stjórnvöldum. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nefndi áðan stuðning við atvinnuleikhús á Akureyri sem dæmi um menningarstofnun sem hefði verið svipt tekjustofni. Hún nefndi líka þáltill. sem fram hefur komið frá Árna Steinari Jóhannssyni um almenningssamgöngur á Eyjafjarðarsvæðinu. Hún hefði einnig rímað við þær tillögur sem hér eru settar fram en ekki einu sinni fengið umfjöllun í nefnd.

Ég sagði að mér fyndist skipta miklu máli að reyna að snúa þessari þróun við. Ég hef skipað mér í sveit með stjórnmálaafli sem setur byggðastefnuna á oddinn. Við lítum svo á innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að það skipti mjög miklu máli að tryggja jafnvægi í byggð landsins. Við bendum á menningarleg og félagsleg rök og við bendum á efnahagsleg rök. Hin menningarlegu og félagslegu rök eru á þá lund að mannlífið á Íslandi verði ríkara og betra og frjórra ef við styrkjum byggðir landsins og jafnvægi ríkir milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hin efnahagslegu rök eru einnig margvísleg. Ef litið er á málin frá eigingjörnum sjónarhóli þéttbýlisbúans þá hefur verið bent á að það kosti þéttbýlissvæðið 3--5 millj. kr. á hvern íbúa sem hingað flyst að byggja upp þá aðstöðu og þjónustu sem þarf eða nauðsyn er á við slíka flutninga.

Í okkar ungu hreyfingu, Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, eða á hennar vegum hefur verið sett fram ítarleg stefnuskrá þar sem rækilega er tekið á byggðamálunum. Við erum með tillögur í skattamálum, samgöngumálum, varðandi jöfnun orkukostnaðar, styrkingu á velferðarkerfinu, til að efla mennta- og menningarstofnanir og tryggja fjöbreytt atvinnulíf. Það er vikið að landbúnaði, sjávarútvegi og bent á ýmsar leiðir í þeim efnum. Við höfum vakið athygli á því að ein sú versta meinsemd sem við höfum búið við er kvótakerfið í núverandi mynd, þar sem eigendur eða handhafar kvóta hafa selt hann burt úr byggðarlögum með þeim afleiðingum að fólk hefur misst atvinnuna og iðulega verið þvingað af ytri aðstæðum til að flytja á brott.

Að öllum þessum málaflokkum sem ég taldi hér upp er vissulega vikið í þessari till. til þál. En það er ekki að ástæðulausu að talsmaður meiri hluta allshn. þingsins, sem hefur haft þessa þáltill. til umfjöllunar, sagði í ræðu sinni í dag að ástæða væri til að vara við því að menn hefðu of miklar væntingar, að ástæða væri til að vara við of miklum væntingum og það skil ég mjög vel. Að minnsta kosti hef ég sjálfur ekki miklar væntingar til þessa plaggs. Hvers vegna segi ég þetta? Ég segi það vegna þess að ef snúa á þessari þróun við, snúa af þeirri óheillabraut sem við höfum gengið á undanförnum árum, þá þarf markvissar aðgerðir, þá þarf raunverulega aðgerðir. En nánast allar lagasetningar, nánast öll lög, nánast öll reglugerðarvinna, sem framkvæmd hefur verið á vegum þessarar ríkisstjórnar og reyndar einnig hinnar sem á undan sat, gengur út á það að takmarka vald framkvæmdarvaldsins, að takmarka möguleika framkvæmdarvaldsins til að grípa til aðgerða. Þetta hefur að sjálfsögðu fyrst og fremst verið gert með inngöngunni í EES eða með aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Og mér finnst, hæstv. forseti, hafa verið átakanlegt að fylgjast með vinnunni í allshn. við þessa þáltill. þar sem menn hafa kallað fyrir herdeildir sérfræðinga til að grafast fyrir um hvað okkur væri leyfilegt að gera, hvað íslenskum stjórnvöldum væri leyfilegt að gera því menn gera sér grein fyrir því að ef gengið er gegn EES-samkomulaginu, þá verða menn dregnir fyrir dóm, hinn nýja mannréttindadóm Evrópu, markaðsdómstólinn. Og það kemur á daginn að stjórnvöldum eru settar þröngar skorður í öllum sínum gjörðum. Þannig þurfa að vera fyrir hendi tilteknar aðstæður til að leyfilegt sé að grípa til markvissra aðgerða. Atvinnuleysi þarf að vera komið á mjög alvarlegt stig eða tekjur á viðkomandi svæði miklum mun lægri en gerist annars staðar í landinu, til að yfirleitt sé leyfilegt að grípa til aðgerða. Og það fylgir sögunni að menn þurfi að geta fært sönnur á sitt mál, að það dugi ekki að hafa pólitískan vilja. Pólitískur vilji skiptir engu. Lýðræðislegur vilji skiptir engu ef hinar efnislegu forsendur eru ekki fyrir hendi og síðan er það metið á vegum dómstóls hins Evrópska efnahagssvæðis hvað leyfilegt sé að gera.

Um þessar mundir fara fram umræður um það í Svíþjóð og Noregi til hvaða ráða eigi að grípa í nyrstu héruðum þessara landa til aðstoðar byggðum þar og í einhverjum tilvikum varðandi einhverjar tilteknar aðgerðir hafa Svíar verið kærðir til dómstóls í Brussel fyrir aðgerðir í byggðamálum. Það er þetta sem íslensk stjórnvöld þurfa jafnan að hafa í huga, þ.e. hvað sé leyfilegt að gera og hvað ekki. Síðasta dæmið sem við höfum hér á landi er ákvörðun stjórnvalda um að smíða varðskip hér á landi. Það þótti stríða gegn EES-reglum og voru sett sérstök lög rétt fyrir hátíðarnar, ef ég man rétt, um smíði þessa skips til að reyna að komast fram hjá EES-reglunum. Þetta tek ég sem dæmi um lög, reglugerðir og samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert á liðnum árum sem takmarka mjög frelsi okkar til aðgerða í byggðamálum.

Hérna er annað sem er nánast átakanlegt að lesa um ásetning og góðan vilja manna, um jöfnun orkukostnaðar. Menn tala um að það þurfi að styrkja hin miklu kerfi sem við höfum komið okkur upp á þeim sviðum. Í Evrópu fara menn allt aðrar brautir. Í Evrópu eru menn að markaðsvæða orkugeirann. Það er næst á dagskrá í Evrópu. Það er byrjað á því að aðgreina orkuöflun og dreifingu á orku. Það er fyrsta skrefið sem stigið er og síðan skal þetta allt saman markaðsvætt. Hér eru menn enn að fabúlera í einhverjar allt aðrar áttir, en skuldbinda sig á sama tíma til markaðsvæðingar og til aðgerða sem takmarka möguleika okkar til að grípa til aðgerða. Og þannig er þetta á fjölmörgum öðrum sviðum.

[17:45]

Menn tala t.d. um það í tillögunni að það þurfi að bæta samgöngur og gott ef ekki er einhvers staðar vikið að póst- og símaþjónustu. Hvað skyldu menn hafa gert á því sviði á þessu kjörtímabili? Jú, það sem menn gerðu var að taka póstinn og símann, Landssíma Íslands, og gera hann að hlutafélagi. Nú er næst á dagskrá að koma honum á markað og úr höndum og eigu þjóðarinnar. En það þarf ekki að koma honum úr höndum þjóðarinnar til þess að fá þann tón sem allshn. fékk frá þessari stofnun því að hún talar þannig til fulltrúa þjóðarinnar eftir að síminn var gerður að hlutafélagi að engu er líkara en hún telji að okkur komi ekki við hvernig haldið er á málum. Hér segir í bréfi frá Landssímanum, með leyfi forseta:

,,Landssíminn telur óeðlilegt og óþarft að þingið hlutist með þessum hætti til um innri málefni einstakra fyrirtækja.`` --- Það er verið að tala um símgjöldin í landinu.

Og síðan segir hér áfram:

,,Landssíminn hlýtur að benda á að hann er sjálfstætt hlutafélag og á ekki að þurfa að sæta íhlutun Alþingis í gjaldskrá sína. Gjaldskrár Landssímans fyrir leigulínur til flutnings sjónvars- og útvarpsefnis og til annarra nota eru háð reglum Evrópska efnahagssvæðisins, þar með talið tilskipun nr. 92/44/EBE (OMP) og reglugerð nr. 608/1996 [þetta er tungumálið sem farið er að tala] um aðgang að leigulínum á almenna fjarskiptanetinu. Í þessum reglum kemur fram að gjaldtaka skuli taka mið af raunkostnaði við veitingu þjónustu. Gjaldskrá fyrirtækisins sætir jafnframt eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar, lögum samkvæmt.``

Með öðrum orðum, ykkur kemur þetta ekki við. Þetta er svar við tillögu til þál. frá ríkisstjórn Íslands þar sem verið er að tala um leiðir til að jafna aðstöðumun fólks á landinu og þar á meðal er vikið að gjaldskrá Pósts og síma. Þetta eru svörin. Þetta eru svörin sem við erum þegar farin að fá.

Þess vegna skýtur skökku við að ríkisstjórn sem grípur til hverrar ráðstöfunar af þessu tagi á fætur annarri, þar sem hún einkavæðir, þar sem hún þrengir möguleika sína til aðgerða, skuli leyfa sér að setja fram plagg af þessu tagi. Þetta er nánast eins og brandari. Brandari í 21 lið.

Við gætum tekið önnur áþekk dæmi um þetta. Við gætum t.d. tekið einkavæðingu bankanna. Við getum tekið þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera Landsbankann og Búnaðarbankann að hlutafélögum og koma þeim síðan á markað. Það er náttúrlega markmiðið að selja þá. Eitt af því sem talsmenn landsbyggðarinnar höfðu áhyggjur af við þá breytingu var að einmitt þetta kæmi til með að koma sérstaklega niður á landsbyggðinni. Lokað yrði útibúum í fámennum byggðarlögum, sama sjónarmið og var reyndar uppi þegar Landssíminn og Íslandspóstur voru gerð að hlutafélagi og sett á markað. Þá höfðu menn áhyggjur af því að lítil útibú yrðu fyrst fyrir skurðarhnífnum. Þar yrði fyrst skorið niður enda hefur reyndin orðið sú. Reyndin hefur orðið þessi.

Það er sitt hvað orð og athöfn. Allt stangast á í þessum efnum. Mér finnst hér vera að mörgu leyti á ferðinni ágætur ásetningur og ég get tekið undir það meginmarkmið sem hér er sett fram, að reyna að sporna gegn byggðaröskun, þeirri byggðaröskun sem við höfum búið við á undanförnum árum og gera þar myndarlegt átak. En ég legg áherslu á að það verður ekki gert meðan þessi ríkisstjórn situr.