Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 18:10:22 (4251)

1999-03-02 18:10:22# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., StB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[18:10]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Tillagan sem hér er til umfjöllunar markar að ýmsu leyti tímamót í allri umræðu og vonandi framkvæmd í byggðamálum. Tillagan hefur verið til meðferðar í hv. allshn. og er mjög merkilegt framtak. Því miður lauk umræðunni um hana ekki fyrir jól vegna málþófs stjórnarandstöðunnar og var vissulega miður að afgreiðslu hennar skyldi frestað um hálft ár vegna þess að stjórnarandstaðan vildi gefa sér svo ríkulegan tíma til að tala um önnur mál. Það varð til þess að ekki tókst að afgreiða þessa tillögu en nú er hún komin til lokaafgreiðslu.

Það fer ekki milli mála að undirbúningur þessarar tillögu, stefnumótunar í byggðamálum, er mjög vandaður. Þær mörgu umsagnir sem liggja fyrir hjá hv. allshn. um tillöguna bera þess merki, flestar eru þær jákvæðar og borið lof á þessa vinnu og allan undirbúning. Tillagan er því staðfesting þess hve mikilvægt var að taka undirbúninginn þeim tökum sem hæstv. forsrh. gerði og ekki síður stjórn Byggðastofnunar sem vann vandlega að málinu.

Það vekur vissulega athygli að í nál. stjórnarandstöðunnar er nánast skilað auðu. Lögð eru fram tvö nál. frá stjórnarandstöðunni. 1. minni hluti tekur undir margt, þar eru fulltrúar þingflokks óháðra á ferðinni. Þeir taka undir margt sem kemur fram í tillögunni en vilja samt sitja hjá og taka ekki afstöðu til hennar. Ég tel það miður. Í þeim hópi eru þingmenn sem hafa átt mjög góða spretti í umræðum um byggðamál, t.d. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég tel því mjög miður að fulltrúar óháðra í allshn. sem skila nál. skuli hafa tekið ákvörðun um að sitja hjá og skila auðu. Þeir skila auðu í byggðamálum við afgreiðslu þessarar mikilvægu tillögu. Þeir taka ekki afstöðu til þeirra mikilvægu aðgerða sem tillagan gerir ráð fyrir.

Annar minni hluti, þar sem á ferðinni er fulltrúi Samfylkingarinnar í allshn., hefur með nál. skákað sér út úr umræðum og vilja til aðgerða í byggðamálum. Tími Samfylkingarinnar virðist ekki vera kominn í byggðamálum. Það er ekki aðeins að engum brtt. við tillöguna er skilað, heldur er afstaðan í minnihlutaálitinu eingöngu geðillskulegar upphrópanir og yfirlýsingar um að betur þurfi að gera.

Auðvitað þurfum við að gera betur og það er tilgangurinn með umræðunni hér og þeim aðgerðum sem ég geri ráð fyrir að fylgi í kjölfar þessarar tillögu. Ég vil sérstaklega draga það fram, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan skilar auðu í þessu máli.

Forsendur tillögunnar eru þær staðreyndir að þróunin í byggðamálum hefur verið óæskileg. Auðvitað hefur náðst árangur en árangurinn ekki orðið sá sem við viljum sætta okkur við. Við teljum að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að byggðin raskist eins og orðið hefur.

[18:15]

Tillagan gerir ráð fyrir aðgerðum á sviði nýsköpunar í atvinnulífinu, aðgerðum á sviði menntunar, þekkingar og menningar, aðgerðum til jöfnunar lífskjara og aðgerðum til bættrar umgengni við landið. Það er auðvitað afar mikilvægt þegar við nýtum auðlindir okkar að við tryggjum að umgengnin sé sem best gagnvart auðlindum bæði til sjós og lands.

Þær tillögur sem byggðaáætlunin felur í sér eru byggðar á rannsóknum og leitast var við að fara nýjar leiðir þegar þær tillögur voru undirbúnar. Hér er ný hugsun á ferðinni, hugsun sem byggir á því að menn lögðu mikla vinnu í að rannsaka ástandið, rannsaka ástæður og reyna að gera sér grein fyrir hverjar leiðirnar eru til að bregðast við þeim vanda sem vissulega er til staðar.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, hafa borist mjög margar umsagnir um tillöguna. Langflestar eru jákvæðar, mjög jákvæðar. Og það er mjög uppörvandi fyrir stjórnarflokkana að svo jákvæðar umsagnir skuli hafa borist um þær tillögur sem við erum að fjalla um. Samt sem áður má ég til með að nefna tvær umsagnir vegna þess að þær komu mér vissulega á óvart. Annars vegar er það umsögn frá Landsvirkjun, en í einni tillögugreininni er gert ráð fyrir að leggja mjög ríka áherslu á að reyna að lækka orkukostnaðinn í landinu og jafna orkukostnaðinn þannig að hann verði ekki til þess að ýta undir óæskilega byggðaþróun. Viðbrögð Landsvirkjunar, sem koma fram í örstuttri umsögn, eru þau að allur fyrirvari er hafður á um aukna þátttöku Landsvirkjunar í kostnaði vegna niðurgreiðslu á rafhitun. Út af fyrir sig er eðlilegt að fyrirtækið hafi einhvern fyrirvara um það að ætlast verði til þátttöku þess í lækkun rafhitunarkostnaðar. En ég hefði talið eðlilegt að viðbrögð Landsvirkjunar hefðu verið að gera grein fyrir áformum fyrirtækisins um lækkun á orkukostnaði í landinu.

Nú er það svo að Landsvirkjun sér nær eingöngu um að virkja, það er einungis lítill hluti af vatnsaflsvirkjunum í landinu sem ekki er starfræktur af Landsvirkjun. Þess vegna er eðlilegt að við gerum kröfu til þess að Landsvirkjun leggi á ráðin um hvernig landsmenn nái sem hagkvæmastri nýtingu út úr vatnsaflsvirkjunum og leitað verði allra leiða til að lækka raforkukostnaðinn. Það kemur hvergi fram í þessari umsögn og ég vil vekja athygli á því og tel það mjög miður. Við verðum að gera þá kröfu til Landsvirkjunar að það fyrirtæki leggi sig allt fram um að lækka raforkuverðið í landinu og ég vona, þrátt fyrir þessa umsögn, að þar á bæ sé leitast við það.

Hin neikvæða umsögnin sem ég vil draga fram er frá Sambandi ísl. viðskiptabanka. Þar er gerð athugasemd við það að gert sé ráð fyrir að Byggðastofnun líti fram hjá þeirri áhættu, eins og segir í umsögninni, sem óhjákvæmilega fylgir staðsetningu, þ.e. staðsetningu fyrirtækja og þá væntanlega úti á landi.

Komið hefur fram í skýrslu sem nýlega var gefin út að afskriftakostnaður lánastofnana hefur stórkostlega aukist á höfuðborgarsvæðinu. Afskriftir lánastofnana hafa ekki verið að vaxa á landsbyggðinni. Þannig að þetta mat Sambands ísl. viðskiptabanka og viðvaranir um að óeðlilegt sé að ekki sé tekið tillit til meiri afskriftaþarfar úti á landi byggir ekki á raunveruleikanum eins og hann hefur verið að gerast síðustu árin. Afskriftir hafa verið að aukast á höfuðborgarsvæðinu, því miður. Það er því ekki lengur svo að aðalvandinn gagnvart lánastofnunum sé úti á landsbyggðinni. Þetta vil ég nefna sérstaklega.

En aðrar umsagnir eru mjög jákvæðar um tillöguna. Það eru umsagnir frá Þjóðahagsstofnun og ASÍ. Að vísu finnst mér umsögnin frá ASÍ heldur þunn í roðinu, ég bjóst við því að þeir legðu meira upp úr að veita öfluga umsögn um þessa byggðaáætlun. Engu að síður er hún heldur jákvæð og ber að fagna því. Sama er um umsögn Bændasamtakanna og Rafmagnsveitna ríkisins. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða skrifar alveg sérstaklega öfluga og vandaða umsögn um áætlunina. Það ber að fagna því hvernig þeir aðilar taka á þessari vinnu, enda brennur þar mjög á og ekki fer á milli mála að forsvarsmenn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hafa lagt mjög mikla og vandaða vinnu í að skoða þessi mál og það er mikilvægt innlegg í umræðuna og ekki síður mikilvægt innlegg í þá vinnu og það starf sem fram undan er, að framfylgja þessari áætlun.

Sama er að segja um Háskólann á Akureyri, það er mjög vönduð umsögn, og svo mætti lengi telja. Samband ísl. sveitarfélaga fjallar í umsögn um tillöguna og þar kemur fram að þeir telja mjög mikilvægt að koma á öflugu samstarfi milli ríkisins og sveitarfélaganna til þess að taka á þessum málum og því ber að fagna.

En auðvitað er þessi áætlun sett fram vegna þess að við viljum bregðast við ástandi. Við teljum að þróunin, byggðaþróunin hafi verið þjóðhagslega óhagkvæm og þess vegna þurfi að bregðast við.

En forsendurnar til þess að hægt sé að vinna að úrbótum er bættur efnahagur þjóðarinnar. Það er mikið rætt um góðærið. Ég vil í því sambandi minna á það sérstaklega að góðærið hefur út af fyrir sig ekki staðið lengi. Það eru öll merki um bættan hag þjóðarinnar og það er ekkert sem bendir til annars en að við getum búist við því áfram næstu missiri. En við megum ekki gleyma því engu að síður að mjög stuttur tími er liðinn síðan okkur tókst að lækka skuldir ríkissjóðs, sem skipti auðvitað mjög miklu máli, og ekki mörg ár sem við höfum rekið ríkissjóð án halla, því það er auðvitað mjög alvarlegt að reka hann með halla árum saman eins og því miður var á kreppuárunum fyrri hluta þessa áratugar.

En hvað um það, efnahagsstaðan er betri og þess vegna eru betri færi til þess nú að taka á byggðamálunum en áður. Í ljósi þess að við viljum fara nýjar leiðir ætti að vera meiri trygging fyrir árangri og því að þeir fjármunir sem við leggjum í aðgerðir í byggðamálum nýtist og komi að gagni til lengri tíma.

Hér hefur verið spurt um það og sagt að fjármagn verði að fylgja þessum aðgerðum. Vissulega er það rétt. Því miður var tillagan ekki samþykkt á síðasta ári en engu að síður var við það miðað við afgreiðslu fjárlaga þessa árs að taka tillit til þeirra tillagna í aðalatriðum sem hér eru settar fram í byggðaáætluninni.

Byggðastofnun, samkvæmt fjárlögum þessa árs, fær 300 millj. kr. til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni sem ég tel að sé afar mikilvæg aðgerð. Með því viljum við undirstrika að okkur er mikil alvara að ná fram árangri. Og með fjölmörgum öðrum aðgerðum sem fylgja fjárlögum, og ég vil nefna hér, er undirstrikað að við ætlum okkur að vinna ákveðið eftir þeim tillögum sem hér er verið að fjalla um.

Ég nefndi í fyrsta lagi þessi framlög, 300 millj. til Byggðastofnunar. Í öðru lagi vil ég nefna framlög til fjarkennslu, sem ég held að skipti mjög miklu máli fyrir landsbyggðina og auðveldi bæði endurmenntun og margs konar framhaldsnám, en til fjarkennslu voru veittar 7 millj. til Háskólans á Akureyri alveg sérstaklega. Kennaraháskólinn, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri fengu 32 millj. kr. til sérstakra aðgerða eða verkefna sem koma landsbyggðinni mjög til góða. Hin ýmsu landshlutasamtök á sviði símenntunar og endurmenntunar fengu 35 millj. til að vinna þessi verk og síðan var sérstök fjárveiting til að efla framhaldsskólana og gera nýja samninga við þá sem auðvitað skipta mjög miklu máli.

Í þriðja lagi vil ég nefna jöfnun námskostnaðar en það er mjög rækilega undirstrikað í byggðaáætluninni að jafna þurfi námskostnaðinn. Í fjárlögum þessa árs eru framlög til jöfnunar á námskostnaði hækkuð um 65 millj. kr. Árið 1991, þegar sú vinstri stjórn sem þá var við völd fór frá, voru í fjárlögum 89 millj. til jöfnunar á námskostnaði, en í fjárlögum þessa árs eru 259 millj. kr. áætlaðar til jöfnunar námskostnaðar. Þarna er því um að ræða umtalsverðar hækkanir sem skipta mjög miklu máli og fram kemur rækilega í greinargerðinni með byggðaáætluninni að er mikilvægur þáttur í því að vinna gegn röskun byggða.

Fjárhæðir til margs konar menningarmála eru í fjárlögum til þess að efla menningarstarfsemi úti um land og allt tengist þetta þeirri hugmyndafræði og þeim hugmyndum og tillögum sem byggðaáætlun gerir ráð fyrir.

Þá vil ég nefna orkumálin. Það er alveg sérstaklega tekið á þeim málum í þáltill. og sérstaklega talað um lækkun á húshitunarkostnaði. Í fjárlögum eru niðurgreiðslur til húshitunar hækkaðar um 100 millj. kr., sem leiddi til 10% lækkunar á húshitunarkostnaði auk þess sem sérstök fjárveiting er til þess að auka rannsóknir og styðja uppbyggingu hitaveitna þar sem það er hagkvæmt á hinum köldu svæðum, auk þess sem Rafmagnsveitur ríkisins fengu aukna fjármuni til að stunda rannsóknir og þróunarstarf.

Allt þetta skiptir mjög miklu máli og er tengt þeim hugmyndum sem eru í byggðaáætluninni og var auðvitað eðlilegt að taka tillit til við afgreiðslu fjárlaganna þrátt fyrir að byggðaáætlunin væri ekki samþykkt. En með samþykkt hennar verður auðveldara að taka á þessum málum og það fer ekki á milli mála að ríkur vilji er til þess hjá stjórnarflokkunum sem standa að þessari tillögu að það gerist.

Herra forseti. Ég vil undirstrika það sérstaklega við þessa umræðu að við afgreiðslu fjárlaga á þessu ári var tekið tillit til þessara tillagna. Ég vænti þess að þegar tillagan liggur fyrir sem ályktun Alþingis verði unnið á grundvelli hennar og það komi rækilega fram við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár þegar þar að kemur vegna þess að það skiptir mjög miklu máli að við látum verkin tala í framhaldi af samþykkt þessarar byggðaáætlunar.