Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 18:31:04 (4252)

1999-03-02 18:31:04# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[18:31]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem mér sýnist lýsa afstöðu ríkisstjórnarinnar til byggðamála hér í dag. Annars vegar að þetta er lagt fram núna þegar starfstíma ríkisstjórnarinnar er að ljúka. Ríkisstjórnin mun að öllum líkindum ekki þurfa að standa við þetta. Hins vegar að þessir tíu leðurstólar hér með skjaldarmerki lýðveldisins skuli hafa staðið auðir í allan dag. Áhuginn á þeim umræðum sem hér hafa farið fram um byggðamál hefur ekki verið meiri en svo hjá hæstv. ríkisstjórn.

Annað er kannski lýsandi og það er nafnið á þessari þáltill.: Tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001. Þarna er nefnilega að mörgu leyti verið að skipuleggja inn í fortíðina þannig að nafnið kemur ekki á óvart. En nú hefur verið lögð fram brtt. við þetta þannig að þessu verður væntanlega kippt í liðinn.

Í upphafi tillögunnar segir að stefnt verði að því að fólksfjölgun á landsbyggðinni verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010. Það hefur komið fram í gögnum frá Þjóðhagsstofnun að þetta sé ekki raunhæft markmið og því er greinilega mikið verk fyrir höndum. Mig langar, herra forseti, til þess að fara yfir þessa tillögu nokkurn veginn lið fyrir lið, eins og mér sýnist að flestir hafi gert hér í dag í drjúgu máli. Þetta er auðvitað mikilvægt mál og sjálfsagt að það sé rætt í þaula.

Hér segir að unnið verði markvisst að aukinni fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni. Þróunarstofur verði efldar og þannig treystur grundvöllur til nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni. Hlutverk þeirra verði meðal annars að auka samkeppnishæfni atvinnulífs á landsbyggðinni og aðstoða fyrirtæki við öflun verkefna og styrkja innan lands sem utan.

Það er sovétið sem gildir hjá hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þar sem ríkið ætlar náttúrlega að hafa full afskipti af atvinnulífinu nú sem endranær á tuttugustu öldinni. Að vísu kemur fram í 2. mgr. að lánastarfsemi Byggðastofnunar verði rekin á arðsemisgrundvelli og er það svo sem virðingarvert og ágætt markmið og vonandi að það gangi eftir ef vilji er fyrir því. En það er hætt við því kannski þegar í harðbakkann slær að þetta verði orðin tóm eins og sennilega margt annað í þessu plaggi.

Í 4. lið segir, með leyfi forseta:

,,Sköpuð verði skilyrði til þess að styðja sérstaklega aðgerðir á afmörkuðum svæðum þar sem veruleg röskun verður á atvinnuháttum og búsetu. Sérstaklega verði hugað að aðgerðum í byggðum þar sem atvinnulíf er fábreytt og útgerð á í vök að verjast.``

Það er augljóst að í stað þess að leyfa dreifbýlinu að hagræða hjá sér og koma sér í samkeppnishæfara form þá á enn að halda því í öndunarvél ríkisstyrkjanna og er það tíundað í þessu plaggi, eins og ég hef áður komið inn á.

Það eru ágætis sprettir hérna inn á milli, falleg orð og göfug markmið, t.d. í 5. lið, með leyfi forseta:

,,Forsendur traustra byggða og þar með vaxtarsvæða eru öruggar samgöngur, öflug sveitarfélög,`` --- hvorutveggja get ég verið sammála, þ.e. að öruggar samgöngur og öflug sveitarfélög séu æskilegar forsendur traustra byggða --- ,,samstarf byggðarlaga um þjónustu`` --- það er fínt --- ,,og góð skilyrði til atvinnusóknar.`` Það er spurning hvað átt er við með þessu. Ég verð að viðurkenna að ég skil þetta ekki almennilega, ,,góð skilyrði til atvinnusóknar``. Það þýðir sjálfsagt einhver ríkisafskipti af atvinnulífinu til að skapa góð skilyrði til atvinnusóknar. En nóg um það. ,,Þessi grundvöllur verði treystur með því að örva fjárfestingar í samgöngum, menntun, byggingum og fjarskiptum.``

Það er ágætt að örva fjárfestingar í samgöngum og menntun. Það er mikilvægt mál. Það er afskaplega gott líka að hafa fjarskiptin þarna inni, en ég sé ekki alveg hvað átt er við með byggingum. Helst hefur mér þótt umræðan snúast um að of mikið væri af ónýttum byggingum á landsbyggðinni þannig að ég veit ekki alveg hvað þetta er. Sennilega er verið að tala þarna um menningarhúsin eða eitthvað slíkt og er það svo sem ágætt mál. Hérna er talað um að skapa störf með fjarvinnslu og það er ágætt. Það er sjálfsagt það eina sem ríkið gæti virkilega beitt sér fyrir af einhverri alvöru. Sennilega er það eitt af fáum markmiðum sem hugsanlega gætu náðst í byggðastefnu, ef ríkið reyndi að púkka upp á eigin ,,infrastrúktúr`` í þeim tilgangi, að örva fjarvinnslu. Hv. 17. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, kom inn á það áðan að svo virðist sem ríkið sé búið að missa alla stjórn á fyrirtækinu sem það var að hlutafélagavæða fyrir skömmu, Pósti og síma eða Landssímanum eins og fyrirtækið heitir núna, og að Landssíminn sem þó er algjörlega í eigu ríkisins frábiðji sér öll afskipti af gjaldskrám. Í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hv. 6. þm. Norðurl. e., Svanfríðar Jónasdóttur, kom einnig fram að víða er pottur brotinn hvað það varðar að fullt jafnrétti hafi náðst milli landsmanna í þessum efnum enda kannski eðlilegt þar sem Landssíminn heldur að hann eigi að stunda alvörubisness og vera rekinn á arðsemisgrundvelli. En það kemur sjálfsagt í ljós þegar fram í sækir að það er mikill misskilningur.

,,Gripið verði til aðgerða til að auðvelda fólki í strjálbýli atvinnusókn og hugað að leiðum til að lækka kostnað því samfara. Til að treysta búsetu og þróun vaxtarsvæða verði stuðlað að bættum og öruggari almenningssamgöngum.``

Þetta er gott. Hins vegar þætti mér æskilegt að almenningssamgöngurnar væru að sem mestu leyti í höndum sveitarfélaganna, en sjálfsagt er verið að leggja hérna línur sem sveitarfélögin geta miðað við líka þannig að ástæðulaust er að fetta fingur út í það.

,,Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði verði meðal annars náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins.``

Menn hafa séð miklum ofsjónum yfir fjölgun opinberra starfa í höfuðborginni og er það svo sem allt í lagi að menn sjái ofsjónum yfir fjölgun opinberra starfa. Mig langar hins vegar t.d. til þess að benda á það sem hv. 2. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, sagði áðan. Hann sagði að hann hefði alltaf verið fylkjamaður. Hann kallaði það það. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en að hann væri þar að brydda upp á umræðunni um þriðja stjórnsýslustigið. Hann sagði að því hefði verið fálega tekið af þinginu hingað til. En annar þingmaður hefur einmitt vakið máls á þessu ágæta máli nokkrum sinnum hér og það er hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, sem árið 1985, þegar 1055 ár voru frá stofnun Alþingis, eins og segir á þessu plaggi, lagði fram brtt. við frv. til sveitarstjórnarlaga. Mig langar til að lesa þær brtt. til að þær verði skráðar í þingtíðindin núna árið 1999. Í brtt. við frv. til sveitarstjórnarlaga frá Hjörleifi Guttormssyni segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sett skal á fót nýtt stjórnsýslustig, héruð, milli ríkis og sveitarfélaga til að treysta byggð í landinu, koma á virku lýðræði og dreifa valdi frá ríki til landshluta.

Verkefni, sem sýslunefndum hafa verið falin með lögum, skulu falla til héraða nema sveitarfélög komi sér saman um annað.``

Svo er um héruð, með leyfi forseta:

,,Landinu skal skipt í héruð svo sem hér segir:

1. Suðurnes.

Nær yfir Gullbringusýslu, Grindavíkur-, Keflavíkur- og Njarvíkurkaupstað.

2. Kjalarnes.

Nær yfir Kjósarsýslu, Reykjavík, Hafnarfjarðar-, Seltjarnarnes-, Kópavogs- og Garðakaupstað.``

Einhver nöfn hafa breyst í tímans rás, en það er aukaatriði.

,,3. Vesturland.

Nær yfir Vesturlandskjördæmi.

4. Vestfirðir.

Nær yfir Vestfjarðakjördæmi.

5. Norðurland vestra.

Nær yfir Norðurlandskjördæmi vestra.

6. Norðurland eystra.

Nær yfir Norðurlandskjördæmi eystra.

7. Austurland.

Nær yfir Austurlandskjördæmi.

8. Suðurland.

Nær yfir Suðurlandskjördæmi.``

Hér er augljóslega byggt í grófum dráttum á kjördæmaskipaninni eins og hún hefur verið undanfarið og er það ágætt, þó svo að vel mætti hugsa sér, ef farið yrði út eitthvað svona í framtíðinni, að byggt væri meira á hinum fornu fjórðungum, landsfjórðungum, en það er önnur saga.

Svo segir, með leyfi forseta:

,,Héruð taka við svæðisbundnum verkefnum frá ríkinu eftir því sem fjármagn og tekjustofnar leyfa og Alþingi og viðkomandi héraðsþing samþykkja. Einnig geta sveitarfélög innan héraða falið þeim stjórn eða umsjá sameiginlegra mála að fengnu samþykki héraðsþinga.

Færa skal frá ríki til héraða hið fyrsta m.a. eftirtalda málaflokka að því er varðar svæðisbundin verkefni:

húsnæðismál,

almannatryggingar,

skipulagsmál,

byggðamál,

menntamál,

þjóðminjavernd,

heilbrigðismál,

vegamál,

orkumál,

opinbert eftirlit (með rafmagni, heilbrigði, öryggi og annarri hliðstæðri starfsemi),

ráðgjöf í atvinnumálum.

Samhliða slíkri tilfærslu verkefna frá ríkinu til héraða skal dregið úr umsvifum stjórnarráðsins og ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu.``

Herra forseti. Ég ætla ekki að lesa meira af þessari brtt. við frv. til sveitarstjórnarlaga frá því árið 1985. Þó svo að ýmsar forsendur hafi breyst og margt hérna eigi kannski ekki við nú en mætti færa til betri vegar þá verð ég eiginlega að lýsa mig sammála anda þessarar brtt. og tel að þetta gæti orðið afar öflugt skref í byggðastefnu, í byggðamálum, þ.e. að veita héruðunum meira sjálfræði og byggja þar á þessari grundvallarreglu um dreifræðið sem t.d. hefur verið afar mikilvægt atriði innan Evrópusambandsins. Ég tel að mjög æskilegt sé að fólk hafi sem mest áhrif á sitt nánasta umhverfi og ég held að það væri vel ef opinber þjónusta væri á þennan hátt færð nær þegnunum í landinu, en ekki bara opinber þjónusta heldur einnig stjórnsýslan sjálf. Fólk hefði með höndum tæki til þess að bregðast við þeim vandamálum sem upp koma í hinum ýmsu landshlutum og þyrfti ekki ávallt að fara bónarveg til Reykjavíkur, eins og það hefur stundum verið kallað, þegar grípa þarf inn í og menn telja það þurfa. Þá hefðu héruðin náttúrlega víðtækt umboð til skattheimtu í eigin þágu og til að eyða tekjum sínum eins og þau helst kysu. Ég held að það væri gott ef dálítil umræða um þetta gæti skapast einhvern tíma á næstunni og vona að þeir þingmenn sem sitja á næsta þingi taki þetta mál upp. Þá er alveg kjörið að dusta rykið af þessu ágæta plaggi Hjörleifs Guttormssonar, hv. 4. þm. Austurl.

[18:45]

Hér segir áfram, svo við snúum okkur aftur að stefnunni í byggðamálum fyrir árið 1998--2001:

,,Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.``

Ég vona að ég hafi leyfi forseta til þess að lesa frjálslega upp úr þessu plaggi án þess að biðja um leyfi í hvert skipti.

Eins og ég talaði um áðan er gott að menn nefna upplýsingingatæknina því að hún verður sjálfsagt það sem mun renna hvað styrkustum stoðum undir hinar dreifðu byggðir landsins á næstu öld.

Í 7. lið segir: ,,Nýjum stóriðjuverkefnum verði fundinn staður utan athafnasvæða höfuðborgarinnar og þannig stuðlað að varanlegri fólksfjölgun og fjölbreyttara framboði atvinnutækifæra þar.``

Ekkert við þetta athuga ef eigendur stóriðjunnar, sem hér eru að fjárfesta, sætta sig við það. Eðlilegt að Alþingi og ríkisstjórn Íslands hafi um það að segja hvar slík starfsemi á að vera á landinu og er það svo sem ágætt mál ef menn geta komið þeim fyrir þar sem þeir telja að helst sé þörf fyrir slíkt. Einnig er tekið fram að umhverfissjónarmiða verði gætt í hvívetna og er æskilegt að hafa það alltaf með.

Í 8. gr. segir: ,,Fram fari greining á möguleikum einstakra landshluta, meðal annars með tilliti til auðlindanýtingar, iðnaðar- og verslunar, fiskveiða- og vinnslu, samgangna og þjónustustarfsemi.``

Þetta er líka góðra gjalda vert. Ágætt að greina landsvæðin svolítið og vita hverjir eru styrkleikar og veikleikar þeirra og má alveg færa rök fyrir því að það sé hlutverk stjórnsýslunnar að láta vinna eitthvað slíkt fyrir sig, væntanlega þá af háskólanum eða háskólafólki á Akureyri eða hér eða öðrum þeim háskólastigum sem til kunna að vera.

En síðan kemur sovétið aftur þegar sagt er: ,,Opinberar aðgerðir miðist við að nýta styrkleika hvers svæðis til atvinnusköpunar.``

Kannski er óþarflega djúpt í árinni tekið hjá mér að segja að þetta sé sovétið en þó er ákveðin hætta við þessar endalausu yfirlýsingar. Þetta getur náttúrlega líka átt við staðsetningu, um að ríkisvaldið eða Alþingi hlutist til um staðsetningu stóriðju. Eins og ég lýsti yfir áðan tel ég svo sem ekkert athugavert við það.

Hérna er enn talað um upplýsingatæknina: ,,Nýjar lausnir í upplýsingatækni verði nýttar til að skapa störf í hátæknigreinum án tillits til búsetu.``

Jú, það er gott. Hins vegar er annað sem má benda á í þessu sambandi sem kemur þessari umræðu beint við og það eru jákvæð hliðaráhrif eða ,,spillover effects`` eins og þau hafa verið kölluð. Á það hefur verið bent að hagkvæmast sé að hafa allan hátækniiðnað á sama stað, að safna saman menntuðu fólki í hátækni á sama stað svo að það eigi tök á því að hitta hvert annað, skiptast á skoðunum, velta upp ýmsum hugmyndum, sem það sjálft er kannski ekki tilbúið til þess að framkvæma á einhverri stundu en annar getur þá tekið upp og framkvæmt. Þetta hefur einmitt verið sú dýnamík sem hefur verið að baki, ég nefni í kísildalnum í Kaliforníu og á ákveðnu svæði við Boston, sem ég kann nú ekki að nefna en kennt er við einhvern þjóðveg, sem hefur einnig verið afar stórt í uppbyggingu hátækniiðnaðar og þar hafa menn verið að skiptast á hugmyndum. Þetta hefur meira að segja gengið svo langt að ríki í austanverðri Asíu hafa tekið upp þessa háttu og sett upp tækniþorp, eins og þetta er kallað, komið tækniiðnaðinum sínum fyrir á ákveðnum stöðum. Ekki þarf að leita lengra en til Írlands til þess að sjá einnig svipaða hluti en eins og menn vita hafa Írar verið duglegir í því að tileinka sér hátæknina og að ná til sín fjárfestingum í hátækniiðnaði. Þeir hafa komið flestallri þessari fjárfestingu fyrir á ákveðnum stað á vesturströnd Írlands þar sem nú er eins konar ,,sílikon-nes`` eða hvað sem það kallast --- kísillandsvæði eru víða til í dag.

Jafnvel er æskilegt að slíku væri fundinn staður utan höfuðborgarsvæðisins þó svo að í sjálfu sér mætti færa rök fyrir því að Reykjavík sé ekki það stór að menn í sama geira hittist ekki mjög oft ef því er að skipta. Eins og ég segi er þetta hugmynd sem ég varpa inn í umræðuna og vert er að taka til skoðunar. Við ætlum okkur stóra hluti í upplýsingatæknimálum og þá er um að gera að leita fyrirmynda þar sem slíkt hefur tekist.

Þá erum við komin að athyglisverðasta kaflanum sem er menntun, þekking, menning. Í 9. lið segir:

,,Menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega hvað varðar verklegar greinar tengdar atvinnulífinu og tölvunám.`` Jú, jú, þetta er fínt. ,,Menntun á landsbyggðinni verði stórefld``. Ég held að þetta sé einmitt kjarni málsins.

Hérna segir t.d. í sama lið, með leyfi forseta:

,,Menntun á háskólastigi verði tekin upp þar sem kostur er, meðal annars með samningum milli framhalds- og háskóla.``

Þetta er dálítið skemmtileg hugmynd. Það mætti alveg hugsa sér að einhverjir framhaldsskólar tækju jafnvel að sér BA-nám í einhverjum greinum og dettur mér í hug að t.d. Menntaskólinn á Ísafirði gæti tekið upp BA-nám í einhverjum greinum sem hann teldi sig hafa einhverja hlutfallslega yfirburði í. Þá er ég ekki að tala um algjöra yfirburði heldur hlutfallslega yfirburði sem menn þekkja væntanlega skil á.

,,Tekin verði upp kennsla á háskólastigi í byggðamálum með stofnun sérstakrar námsbrautar eða sem hluti af kennslu við námsbraut sem fyrir er.`` Þetta vakti athygli mína. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þetta er, hvort þarna er átt við skipulagsfræði eða hvað. Ég hef a.m.k. ekki heyrt minnst á þessa háskólagrein áður en það getur vel verið að þetta sé til einhvers staðar. Talað er um að háskólanám verði í boði svo fljótt sem verða má á Vestfjörðum og dettur mér einmitt í hug að nýta þær skólabyggingar eða þann skóla-infrastrúktúr sem er til á Vestfjörðum til að koma þessu á koppinn.

Í 10. lið er sagt: ,,Auknu fé verði varið til hvers konar menningarstarfsemi. Menningararfur verði varðveittur innan héraðs eftir því sem tök eru á og verði sýnilegur innlendum og erlendum ferðamönnum. Bókasöfnum á landsbyggðinni verði gert kleift að notfæra sér upplýsingatækni með því að efla tækjakost. Sérstakt átak verði gert til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa á landsbyggðinni.``

Þessa grein líst mér afskaplega vel á og þetta tel ég einmitt vera hlutverk hins opinbera, að veita fé í menningarstarfsemi og að varðveita menningararf þjóðarinnar. Það er alveg dagljóst að ef hann er ekki varðveittur og menningin er ekki nærð sem skyldi verður ekki búið hér mjög lengi til frambúðar því að nú er svo komið að Íslendingar eiga afar auðvelt með að flytjast til útlanda. Sjálfsagt verður okkar helsta verkefni á 21. öldinni að keppa við umheiminn um vinnuafl, skulum við bara segja, því að auðvitað er allt vinnuafl framleiðið ef því er veitt á réttar brautir.

Það er ýmislegt hérna sem vert er að tala um. Ég vek athygli á að hér er talað um að:

,,Verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs. Heimilt verði að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu rafhitunar í fimm ár til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla þannig að aukinni notkun á jarðvarma til húshitunar.``

Tryggja þarf ódýrari virkjunarkosti á landsbyggðinni til þess að fólk geti þegar fram í sækir keypt orku á markaðsverði og að hún sé á einhverju sambærilegu verði hringinn í kringum landið.

Hér segir: ,,Áhersla verði lögð á að upplýsa þá sem nota mikla orku til að hita hús sín um leiðir til að draga úr orkunotkun, meðal annars með fræðslu og ráðgjöf.`` Þetta er hið besta mál. Þetta getur ekki verið annað en afar gott. Hér er talað um bættar samgöngur, ég hef talað um það áður og þarf ekki að ræða það meir. Einnig er rætt um flutning grunnskólans til sveitarfélaga og að stefnt verði að því að auka hlut sveitarfélaga í opinberum rekstri. Þetta kemur inn á umræðuna um þriðja stjórnsýslustigið sem fór áðan fram.

En í 16. lið segir: ,,Lagt verði mat á kostnað samfélagsins vegna þeirrar búsetuþróunar sem orðið hefur frá árinu 1986.``

Þetta orðalag er einhliða vegna þess að yfirleitt er talað um kostnað og hag, þ.e. ,,cost benefit analysis``. Fátt er svo ömurlegt að ekki séu neinir kostir við það. Ég held að ástæða væri til þess að nefna það einnig, það hljóta að vera einhverjir kostir við það. Það er ekki bara kostnaður heldur líka hugsanlega einhver hagnaður á móti þannig að það er um að gera að meta hvort tveggja, annað er náttúrlega bara pólitík og einhliða skoðun á vandamálinu eða málinu.

Hérna er einnig minnst á ,,langtímaáhrif stofnvega á miðhálendinu með tilliti til umhverfis, hagkvæmni, ferðaþjónustu, atvinnumála og búsetu.`` Það gæti stytt vegalengdir á milli helstu þéttbýliskjarna landsins umtalsvert ef ráðist yrði í einhverjar slíkar framkvæmdir, þó svo að vissulega verði að skoða þar umhverfisáhrifin af slíkum framkvæmdum afar vandlega og meta það í því ljósi þegar þar að kemur.

Herra forseti. Mig langar til þess að vitna örlítið í hið ágæta blað Dag. Á miðopnu í dag, þriðjudag, er fjallað um spástefnu sem haldin var á Sauðárkróki sl. föstudag um alþjóðabyggðaþróun. Þar segir einn af framsögumönnunum, Fríður Finna Sigurðardóttir, nemi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, með leyfi forseta:

,,,,Föst í vítahring fábreytni. Við hér á Norðurlandi vestra höfum verið föst í vítahring fábreytts og brothætts atvinnulífs og lítillar almennrar menntunar og því er það okkur mjög mikilvægt að efla menntun á svæðinu. Hún hefur sífellt verið að auka gildi sitt sem ein mikilvægasta undirstaða framþróunar og bættra lífskjara og í heimi aukinna samskipta og tölvunotkunar á hún eftir að verða enn mikilvægari í framtíðinni,`` sagði Fríður Finna Sigurðardóttir, nemi við Fjölbrautskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki í sinni framsögu. ,,Með aukinni menntun og fjölbreyttara atvinnulífi getur þróun dagsins í dag breyst og dæmið snúist við. Unga fólkið getur komið til baka frá námi og orðið hluti af vaxandi sveitarfélagi.````

Herra forseti. Því miður hefur það verið svo að byggðastefna 20. aldarinnar hefur oft falist í því að styðja við bakið á gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtækjum. Það hefur skapað fjölda láglaunastarfa á landsbyggðinni sem í dag nýtast helst pólsku verkafólki. Íslenskt menntafólk flýr landsbyggðina og sest að á höfuðborgarsvæðinu þar sem það finnur sér störf við hæfi. Þetta hefur auðvitað vakið athygli heimamanna og ráðamanna og nú keppast menn um að tala um hve mikið af opinberum störfum hafi orðið til í Reykjavík undanfarin ár eins og lausnin felist í því að flytja ríkisstofnanir sem víðast út um landið.

Ég tel að verið sé að ráðast að einkennum vandans en ekki rót hans. Rótin er auðvitað það los sem kemst á fólk þegar það ungt að árum þarf að flytja til Reykjavíkur til að afla sér menntunar. Það hefur án efa vakið athygli Íslendinga sem hafa numið við erlenda háskóla að þeir eru oft staðsettir úti í sveit í kyrrlátu, friðsælu umhverfi, þar sem gott er að hugsa og stunda fræðistörf. Margfeldisáhrif þessara háskóla geta svo verið ófyrirsjáanleg.

Á miðöldum voru hér á landi að störfum öflugir fræðimenn sem skrifuðu einhverjar helstu perlur vestrænna miðaldabókmennta. Íslendingar voru þekktir fyrir vandaða fræðimennsku og urðu sagnaritarar allra Norðurlanda. Þarna er arfleifð sem við eigum að nýta okkur til hins ýtrasta. Þetta getum við gert með því að koma okkur upp háskólum tengdum þessum menningarafrekum og á grunni fornra frægðarsetra. Í þessu sambandi má nefna þrjá staði helsta, Skálholt, Hóla í Hjaltadal og Reykholt.

[19:00]

Herra forseti. Ég hef áður tjáð mig í ræðu á Alþingi um Skálholt. Í Skálholti var komið á fót skóla upp úr miðri 11. öld. Þar hélst skólahald með nokkrum hléum allt til ársins 1785 að ákveðið var með konungsúrskurði að flytja skólann til Reykjavíkur. Um Hóla í Hjaltadal gilda sömu rök. Skóli var stofnaður á Hólum 1106 og þar var reist fyrsta skólahús sem vitað er um á Íslandi. Skólahald hélst á Hólum með svipuðum formerkjum og í Skálholti til 1802 þegar hann var sameinaður Latínuskólanum í Reykjavík. Þeir eru ekki margir skólarnir í heiminum sem eiga sér jafnlanga arfleifð og djúpar rætur og þessir skólastaðir.

Reykholt er svo auðvitað staður Snorra Sturlusonar, hins nafntogaða rithöfundar og stjórnmálamanns. Þar hefur verið skólahald bróðurpart þessarar aldar og er staðurinn kjörinn fyrir háskóla-,,campus``. Nafn Snorra er vel þekkt á Norðurlöndum og væri án efa margur Norðmaðurinn til í að nema bókmenntir eða sagnfræði á þessum fræga stað. Það gæti að auki orðið liður í því að sporna við tilhneigingum Norðmanna til að eigna sér Snorra að starfandi væri háskóli sem gæti jafnvel borið nafn hans, þess vegna Snorraskóli -- Háskólinn í Reykholti.

Einn stað vil ég nefna til viðbótar þó nafn hans tengist ekki mér vitandi sagnaritun eða skólahaldi til forna en það eru Eiðar í hinu veðursæla og fagra Fljótsdalshéraði. Egilsstaðir eru sennilega einhver lífvænlegasti byggðakjarni á landinu utan höfuðborgarsvæðisins. Til marks um það er hin ótrúlega fólksfjölgun þar á síðari helmingi þessarar aldar. Fljótsdalshérað hefur að mínu mati upp á alla þá landkosti að bjóða til að geta keppt við jafnvel Akureyri á næstu öld um þann sess að verða fjölmennasta þéttbýli á landinu utan höfuðborgarinnar. Á Eiðum standa nú ónotaðar skólabyggingar sem menn virðast ekki hafa komið sér saman um hvernig eigi að nýta. Á Egilsstöðum er að auki alþjóðaflugvöllur og stutt er í góðar hafnir í nágrannabæjunum.

Á þessum fjórum stöðum mætti hugsa sér að komið yrði á fót háskólum. Þessir háskólar þyrftu ekkert endilega að vera ríkisskólar ef einhverjir aðrir innlendir eða erlendir fengjust til að taka að sér verkið. Þeir yrðu hins vegar að bjóða upp á háskólagreinar sem nemendur flykkjast í og færri komast að en vilja, eins og lögfræði, tölvunarfræði, viðskiptafræði og jafnvel læknisfræði. Þeir mundu innheimta skólagjöld fyrir rekstri sem lánað yrði fyrir á sama hátt og lánað er fyrir skólagjöldum erlendis. Þetta þyrfti ekki að bitna á jafnrétti til náms þar eð Háskóli Íslands yrði áfram til og sinnti hlutverki sínu. Einnig má hugsa sér að sveitarfélög í nágrenni háskólanna styrktu efnilega nemendur í gegnum þessa skóla til að freista þess að halda þeim í héraði. Þetta mætti tengja gagngerri endurskoðun á námslánakerfinu þar sem komið yrði í ríkari mæli á styrkjakerfi og endurgreiðslubyrði námslána yrði létt enn frekar.

Ekki er hægt að leggja þetta til á Alþingi, herra forseti, öðruvísi en að lofa það sem vel er gert. Í Bifröst er nú vinsæll viðskiptaháskóli og á Akureyri hefur háskóli náð að dafna nokkuð vel undanfarin ár.

Herra forseti. Háskóli hefur mikil margfeldisáhrif út í atvinnulífið. Við háskóla þarf hámenntað fólk til að halda úti kennslu, skrifstofufólk og stjórnendur, garðyrkjumenn og smiði, ræstingafólk og bílstjóra. Þetta yrði verulegt átak í menntamálum þjóðarinnar og talsverðan vilja þyrfti til að hrinda þessu í framkvæmd. En þetta yrði arðbært framtak, framtak sem skapaði þjóð okkar enn meiri mannauð sem skilaði okkur aftur auðlegð til framtíðar. Þetta er önnur hugsun en sú sem verið hefur í byggðastefnu 20. aldarinnar þar sem reynt hefur verið að draga andlát dauðvona atvinnugreina, dæla skattpeningum inn í gjaldþrota fyrirtæki og flytja til ríkisstofnanir.

Auk þess sem þarna væri menningararfi okkar loks sá sómi sýndur sem hann á skilið þá væri með þessu verið að skjóta niður frjóöngum sem gætu vaxið og orðið að voldugum eikum, Íslandi öllu til heilla.