Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 19:04:11 (4253)

1999-03-02 19:04:11# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[19:04]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi þáltill. skuli vera komin til síðari umræðu og lokaafgreiðslu og ég tek undir það sem kemur fram í nál. meiri hluta allshn. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn telur ljóst að það verður landsbyggðinni til verulegra hagsbóta ef vel tekst til með þær fjölþættu ráðstafanir sem tillagan felur í sér.``

Ég er sannfærður um að þegar farið verður að vinna eftir ýmsu því sem hér er lagt til til úrbóta þá muni það bæta hag landsbyggðarinnar. Við höfum stöðu til þess því að um þessar mundir gengur okkur flest í haginn og markvissar aðgerðir stjórnvalda hafa gjörbreytt stöðu ríkissjóðs sem nú er rekinn með afgangi og erlend lán greidd niður í stað þess að auka þau sífellt eins og áður var árvisst. Sá stöðugleiki sem ríkt hefur í efnahagsmálunum hefur gjörbreytt rekstrarumhverfi atvinnulífsins og atvinnuleysi er nánast ekkert. Tekjuskattur hefur verið snarlækkaður og kaupmáttur hefur aukist meira en áður hefur þekkst. Allt þetta leiðir til þess að við erum betur í stakk búin en oftast áður að efla hag landsbyggðarinnar og það held ég að verði helsta viðfangsefni stjórnvalda á næstunni. Þær tillögur sem hér eru gerðar eru tvímælalaust góð leiðsögn varðandi það verkefni.

Sú íbúaþróun sem við er að glíma, þ.e. að stöðugt fjölgar á höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðarinnar, er ekki ný af nálinni. Slík þróun hefur átt sér stað á hverju einasta ári síðan 1980. Fjöldi brottfluttra umfram aðflutta á landsbyggðinni hefur á þessu tímabili verið frá 500 og upp í 1.800 manns á ári. Þá þróun verður að stöðva. Landsbyggðin verður að ná þeirri stöðu að hún standist sogkraft höfuðborgarsvæðisins sem er ótrúlega sterkur og sést best á því að fólk flytur ekki síður frá þeim byggðarlögum þar sem mikill uppgangur hefur verið í atvinnulífinu á undanförnum árum og allt virðist vera í blóma.

Þegar Byggðastofnun hóf að undirbúa tillögur til úrbóta var þess vegna ráðist í mjög ítarlegar kannanir á orsökunum, hvað orsaki þennan mikla búferlaflutning af landsbyggðinni, jafnt þaðan sem atvinnulíf er öflugt og þaðan sem það stendur veikari fótum. Að þessu verkefnu unnu, auk starfsmanna og stjórnar Byggðastofnunar, m.a. Stefán Ólafsson prófessor, Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur og Háskólinn á Akureyri. Trúlega hefur vandinn aldrei verið greindur jafnmarkvisst og því eru þessar tillögur sem byggðar eru m.a. á þessum rannsóknum og hér eru til umræðu, að mínu viti raunhæfar og líklegar til að bera árangur.

Þær kannanir sem ég nefndi leiða í ljós að það sem ræður hvað mestu um brottflutning fólks af landsbyggðinni er einhæfni atvinnulífsins, menntunaraðstæður og húshitunarkostnaður, svo og almenn lífsgæði. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það hvernig brugðist er við þeim þáttum í tillögunni sem hér er til umræðu.

Varðandi einhæfni atvinnulífsins er lögð áhersla á að efla þróunarstofur á landsbyggðinni og treysta þannig grundvöll til nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni. Stjórn Byggðastofnunar hefur einmitt farið inn á þessa braut að undanförnu með góðum árangri. Gerðir hafa verið samningar um atvinnuráðgjöf í öllum landsbyggðarkjördæmunum og er sú starfsemi alfarið á forræði heimamanna. Byggðastofnun hefur varið um 9 millj. kr. til þessa verkefnis í hverju kjördæmi á ári og ég er ekki í vafa um að sú starfsemi mun skila miklum árangri og leiða til aukinnar fjölbreytni og fjölgunar starfa á landsbyggðinni.

Þessi starfsemi fór fyrst af stað á Suðurlandi og í bréfi sem forstöðumaður Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands sendi stjórn Byggðastofnunar á síðasta ári kom það fram að fyrstu 20 mánuðina sem þessi sjóður starfaði hafi árangur starfsins verið mikill. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Á vormánuðum 1996 var undirritaður nýr samningur við Byggðastofnun um atvinnuráðgjöf. Samningurinn var sá fyrsti í röð atvinnuþróunarsamninga sem stofnunin hefur gert á undanförnum missirum. Með samningnum var lögð áhersla á að svæðisbundin atvinnuþróun gerðist með virkari þátttöku heimamanna en verið hafði áður. Samningurinn skuldbindur Byggðastofnun til að auka árlegt rekstrarframlag til sjóðsins um liðlega 6 millj. kr., úr tæplega 3 millj. kr. í tæplega 9 millj. kr. og gerir sjóðnum á þann hátt kleift að stórefla alla ráðgjöf. Samningurinn er forsenda þess að sjóðurinn hefur getað haldið úti öflugu ráðgjafarstarfi með þremur ráðgjöfum en fyrir gildistöku hans miðaðist öll starfsemi sjóðsins við einn ráðgjafa.

Frá undirritun samningsins við Byggðastofnun hefur sjóðurinn beint eða óbeint staðið að stofnun liðlega þrjátíu nýrra fyrirtækja, auk þess að sjá um fjölda annarra verkefna sem styrkt hafa fjárhagsstöðu sunnlenskra fyrirtækja. Með starfsemi sjóðsins á þessu tímabili hafa skapast á annað hundrað ný störf á Suðurlandi og fjárfesting á svæðinu vegna þessara fyrirtækja er talin vera liðlega 600 millj. kr. Þennan árangur má að verulegu leyti þakka því nána samstarfi sem náðst hefur við Byggðastofnun í kjölfar samningsins, þar sem þátttaka þessara stofnana í ýmsum málum hér á Suðurlandi er samræmd.``

Þessi lýsing sýnir glöggt að sú aðferð að efla atvinnuþróunarstarfið í kjördæmunum og fela forræðið alfarið í hendur heimamönnum ber árangur. Þess vegna tel ég það rétta áherslu að efla þá starfsemi enn eins og lagt er til í þessari þáltill.

Þá er lagt til að komið verði á fót eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni með aðild Byggðastofnunar og að til þess skuli varið allt að 300 millj. kr. á fjárlögum hvers árs næstu fjögur árin á móti framlögum heimamanna. Á fjárlögum þessa árs er einmitt gert ráð fyrir þessum 300 millj. þannig að þetta fer strax að virka. Gert er ráð fyrir að þátttaka Byggðastofnunar verði 40% í þessum félögum, sveitarfélaga 40% og atvinnulífsins 20% þannig að árlega hafa þessi eignarhaldsfélög því 750 millj. kr. til ráðstöfunar til að stofna til nýrrar atvinnustarfsemi. Ekki er vafi á því að þetta á eftir að skila miklum árangri hvað varðar fjölbreytni í atvinnulífinu á landsbyggðinni, sem er nauðsynlegt því að spá Háskólans á Akureyri er sú að á næstu árum haldi störfum í helstu atvinnugreinum landsbyggðarinnar áfram að fækka verulega. En þessar spár telja líklegt að störfum við fiskvinnslu fækki um 30% á næstu fimm árum og í landbúnaði um 5--10% á sama tíma.

Eins og ég nefndi var aðstaða til menntunar einn þeirra þriggja þátta sem mestu réðu um brottflutning fólks af landsbyggðinni samkvæmt könnun Stefáns Ólafssonar, en talsverður hluti fólks á landsbyggðinni býr við það að þurfa að senda börn sínu burtu til framhaldsnáms með miklum tilkostnaði. Er þar oft nefnd talan 400--500 þús. á ári fyrir hvert barn. Það er auðvitað gríðarlegur skattur á þá foreldra sem við það þurfa að búa og leiðir mjög oft til þess að fólk tekur sig upp og flytur með fjölskyldu sína þangað sem framhaldsskólar eru starfræktir og þá oftar en ekki til höfuðborgarsvæðisins. Í þáltill. er lögð áhersla á að bæta skilyrði þess fólks sem sækja verður nám utan heimabyggðar sinnar. Reyndar hefur verið stigið fyrsta skrefið í þá átt með samþykkt sem gerð var á Alþingi fyrir síðustu jól þar sem dreifbýlisstyrkir voru auknir verulega. Þá er lögð áhersla á að menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega hvað varðar verklegar greinar tengdar atvinnulífinu og tölvunám, svo og aukna námsráðgjöf. Einnig að komið verði á samstarfi atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni um endur- og símenntun og stuðlað að því að allir eigi tækifæri á að afla sér nýrrar þekkingar, m.a. í samræmi við breytingar í atvinnuháttum og áhersla er lögð á að möguleikar fjarkennslu verði að fullu nýttir. Þar eru tvímælalaust mikil tækifæri fyrir fólk í hinum dreifðu byggðum og enginn vafi leikur á því að fjarkennsla á eftir að stóraukast á næstu árum.

Þriðji stóri óánægjuþátturinn í könnun Stefáns Ólafssonar er húshitunarkostnaðurinn og skal engan undra. Húshitunarkostnaður er gífurlega misjafn eftir byggðarlögum og það jafnvel svo að þeir sem búa við dýrustu hitunina þurfa að eyða allt að einum nettómánaðarlaunum meira á ári í ljós og hita en þeir sem búa á ódýrustu svæðunum. Margir kaupa þessa orku af fyrirtækjum í eigu ríkisins og það er því á forræði stjórnvalda að bregðast við þessu vandamáli. Það er einmitt gert mjög afgerandi í þessari tillögu þar sem segir að verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs.

Reyndar tel ég að þegar þetta kemur til framkvæmda þurfi það einnig að ná til hitunar atvinnuhúsnæðis því að fyrirtæki á landsbyggðinni búa við mjög erfið samkeppnisskilyrði þar sem hitunarkostnaður er margfaldur á við það sem gerist víða annars staðar.

Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir mjög marga landsbyggðarbúa og einnig það að hér er gert ráð fyrir að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu rafhitunar í fimm ár til að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla þannig að aukinni notkun á jarðvarma til húshitunar. Á fjárlögum þessa árs er einmitt varið fé til að stíga fyrstu skrefin á þessari braut og stjórnvöld hafa að undanförnu hvatt mjög til aukinnar hitaveituvæðingar, m.a. með verkefni sem að standa Byggðastofnun, Orkusjóður og iðnrn., þar sem kannað verður til hlítar hvort jarðhita er að finna á þeim svæðum sem ekki búa við hitaveitur í dag, en um 15% landsmanna hafa ekki aðgang að hitaveitum.

Þetta niðurgreiðslufé getur skipt sköpum fyrir þau byggðarlög sem hyggja á hitaveituframkvæmdir. Auðvitað er þetta einnig hagsmunamál fyrir ríkissjóð sem þá losnar undan þessum niðurgreiðslum eftir fimm ár.

[19:15]

Þó ég hafi nefnt það þrennt í búsetuskilyrðunum sem mest óánægja var með í könnun Stefáns Ólafssonar brennur margt fleira á fólki á landsbyggðinni. Það kemur fram í þessari könnun og í viðtölum við fólk í hinum dreifðu byggðum. Samgöngumálin eru þar ofarlega á blaði og í nútímasamfélagi skipta þau gríðarlega miklu. Þar bíða mörg verkefni. Á síðasta ári var langtímaáætlun í vegagerð samþykkt á Alþingi. Þar var gert var ráð fyrir samgönguframkvæmdum fyrir á annað hundrað milljarða kr. á næstu árum. Fram hefur komið að nefndin sem er að ganga frá tillögum, tengdum væntanlegri kjördæmabreytingu, mun leggja til aukið fé til samgöngumála. Þessi málaflokkur er tvímælalaust einn sá allra mikilvægasti fyrir landsbyggðina.

Þá veldur læknaskortur á landsbyggðinni miklu óöryggi í einstökum byggðarlögum. Auðvitað er óviðunandi að heilu byggðarlögin skuli búa við það mánuðum saman og jafnvel ár eftir ár, að hafa ekki fasta lækna. Á þessu verður að finnast lausn. Fólk getur alls ekki sætt sig ástandið eins og það er á sumum stöðum á landsbyggðinni í dag. Þar eru kannski fullkomnar heilsugæslustöðvar en læknir fæst ekki til starfa.

Í þessari tillögu er kveðið á um að ríkisfjölmiðlar efli starfsemina á landsbyggðinni, m.a. með aukinni dagskrárgerð og útsendingum frá starfsstöðvum Ríkisútvarpsins þar. Einnig er rætt um að aðstaða til miðlunar og útsendingar fjölmiðla verði jöfnuð, verði hin sama um allt land, m.a. með breytingu á gjaldskrá Landssímans. Ég held að þetta skipti landsbyggðina talsverðu máli. Vönduð umfjöllun um málefni landsbyggðarinnar í fjölmiðlum skiptir máli og minnir á að víðar séu gerðir góðir hlutir en á höfuðborgarsvæðinu. Því miður sinna ríkisfjölmiðlarnir þessu illa þó vissulega sé það misjafnt eftir landshlutum. Víða sinna þeir því mjög illa.

Í umræðunum í dag hefur nokkuð verið rætt um niðurstöður skýrslu sem unnin var fyrir stjórn Byggðastofnunar um það hvernig stöðugildi hjá ríkissjóði hafi skipst milli landsbyggðar og höfuðborgar á undanförnum árum og hvernig fjöldi þeirra hafi þróast. Fram kemur að á árunum 1994--1997 fjölgaði stöðugildum ríkisins í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi um 455 en fækkaði á sama tíma um 31 í öðrum kjördæmum. Þetta eru ekki uppörvandi tölur og eðlilegt að menn hrökkvi við þegar þær sjást. Ég held þó reyndar að eftir 1997, en þessi skýrsla nær til 1997, hafi þetta breyst nokkuð og að stöðugildum hafi fjölgað talsvert á landsbyggðinni síðan. Ég minni t.d. á að á síðasta ári hafa landmælingar verið fluttar til Akraness, hluti starfsemi Byggðastofnunar og Íbúðalánasjóðs til Sauðárkróks. Tugir starfa hjá Landssímanum, við upplýsingaþjónustu í símanúmerinu 118, þ.e. hjá símaskránni, hafa verið flutt frá Reykjavík. Framleiðnisjóður er á leið í Borgarnes, Lánasjóður landbúnaðarins á leið til Selfoss og fleira er í pípunum. Ég held að hvað þetta varðar hafi sem betur fer orðið nokkur hugarfarsbreyting á síðasta ári.

Í tillögunni er lögð áhersla á að opinberum störfum fjölgi ekki hlutfallslega minna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði á m.a. að ná með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins og skilgreina eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem geri meðal annars ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.

Mér finnst þetta nokkuð skynsamleg tillaga þar sem erfitt og átakamikið hefur reynst að flytja stofnanir í heilu lagi. Þetta er trúlega raunhæfara markmið. Mér finnst mjög eðlilegt að einstaka ráðuneytum verði gert að skila skýrslu um hvaða möguleika þau sjá á þessu sviði. Ég tel að þetta eigi eftir að skila árangri.

Herra forseti. Markmið þeirrar stefnumótunar sem hér er sett fram er að treysta búsetu á landsbyggðinni. Stefnt er að því að fólksfjölgun verði þar ekki undir landsmeðaltali og verði 10% til ársins 2010. Þetta kann að þykja bjartsýni en mikilvægar forsendur traustrar búsetu eru í mun betra horfi nú en verið hefur eins og glögg grein er gerð fyrir í athugasemdum með tillögunni á bls. 5.

Ég vil að lokum taka undir það sem hæstv. forsrh. sagði á Alþingi fyrr í vetur, að byggðamál eru ekkert afmarkað verkefni. Byggðamál tengjast nánast öllu því sem við fáumst við frá degi til dags í þinginu þó málin heiti ekki endilega byggðamál. Þetta verða hv. þingmenn að hafa í huga við umfjöllun og afgreiðslu margra mála á Alþingi.