Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 19:21:07 (4254)

1999-03-02 19:21:07# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[19:21]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þáltill. sem hæstv. forsrh. lagði fram fyrir nokkuð löngu, um stefnu í byggðamálum, er mjög brýnt mál. Því þarf að koma í gegnum þingið fyrir þingslit enda er öllum sem unna þessu landi ljóst að til þess að bregðast við miklum fólksflótta af landsbyggðinni þarf að gera eitthvað sem ekki hefur verið gert áður. Það þarf að reyna nýjar leiðir, þora að leggja út í aðrar hugmyndir en fram að þessu hafa verið reyndar. Þó erfitt sé að átta sig á þeim leiðum þá held ég að menn verði að leggjast undir feld til þess að finna þær.

Þegar rætt er um fólksflóttann og ástæður hans er að sjálfsögðu mjög margt sem kemur upp í hugann. Eitt af því er að sjálfsögðu atvinnulífið og hvernig hægt sé að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu og fjölbreytni svo fólki finnist hæfileikar þess og menntun nýtast á svæðum utan þessa stóra kjarna á Suðvesturhorninu.

Fyrsti kafli þessarar þáltill. fjallar einmitt um nýsköpun í atvinnulífinu og um að unnið verði markvisst að aukinni fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni. Þróunarstofur sem eru á þremur eða fjórum stöðum úti á landi á að efla. Spurningin er náttúrlega um hvernig þær verði efldar. Það hlýtur fyrst og fremst að vera fjárhagslega enda held ég að öllum sé ljóst að aðstæðurnar eru ekki þær sömu alls staðar, ástæðurnar fyrir fólksflóttanum. Því þarf jafnvel að bregðast mismunandi við eftir landshlutum. Aðalatriðið er reyndar að bregðast fljótt við þegar stefnir í vanda. Á undanförnum árum hafa komið upp vandamál við að halda fólki úti á landi.

Eitt af því sem lagt er til í þáltill. er að flytja lánastarfsemi Byggðastofnunar út á land þannig að lánafyrirgreiðsla hennar fari fram í eignarhaldsfélaga í landshlutunum sjálfum. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt mál og eitt af því sem þegar er farið af stað í nokkrum landshlutum, þar á meðal á Suðurnesjum. Suðurnesjamenn stofnuðu eignarhaldsfélag árið 1993 með verulegu fjármagni sem alfarið kom frá sveitarfélögunum. Það var stofnað upp úr mikilli lægð sem kom í efnahagslífið á Suðurnesjum upp úr árunum 1990--1991.

Að mínu áliti hefur stofnun þessa eignarhaldsfélags haft mikil og góð áhrif á atvinnulífið og orðið til að snúa vörn í sókn, ásamt öðrum aðgerðum aðila eins og Íslenskra aðalverktaka og Hitaveitu Suðurnesja. Allt þetta lagðist á eitt með að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný með meiri hraða en áður. Í dag erum við því í raun mjög vel settir miðað við aðra landshluta og getum vel við unað.

Ég held að eignarhaldsfélögin ættu að nýtast til að efla atvinnulífið og auka fjölbreytni þess úti á landi á sama hátt og gerðist suður með sjó. Ég held samt að stjórnvöld verði að gæta sín á því að hafa ekki skilyrðin fyrir aðild Byggðastofnunar að eignarhaldsfélögunum of ströng. Ég er hræddur um að reglugerð sú sem verið hefur í gildi, um að 20% eignarhluti í slíkum félögum verði að vera í eigu annarra en opinberra aðila, geti reynst erfitt þar sem ekki er mikið um sterk fyrirtæki. Það gæti reynst erfitt að ná þeim upphæðum inn í slíkt félag og þar með væri aðild Byggðastofnunar að því útilokuð. Ég held að menn verði að fara varlega með skilyrði fyrir þátttöku Byggðastofnunar í stofnun slíkra félaga.

Það er engin spurning um að þau muni geta gert góða hluti. Í sjálfu sér er mjög eðlilegt að heimamenn komi að lánveitingum á sínu svæði enda þekkja þeir best til og vita hvar skórinn kreppir. Einnig má búast við að þeir bregðist fljótar við og markvissar en stofnun sem er víðs fjarri vettvangi og aðstæðum. Ég held að þetta sé mjög til góða.

Síðan er spurning, eins og kemur fram í 4. lið, hvort skapa eigi sérstök skilyrði til að styðja sérstakar aðgerðir á afmörkuðum svæðum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að erlendis hika stjórnvöld ekki við að bregðast við með sértækum aðgerðum til að mæta vanda á afmörkuðum svæðum. Þá skiptir ekki öllu hvaða aðgerðir það eru ef þær stangast ekki á við reglur, t.d. Evrópusambandsins. Í því sambandi mætti nefna ýmis svæði í Evrópu þar sem ríkið hefur styrkt fyrirtæki til atvinnusköpunar með skattaívilnunum, með styrkjum til tækjakaupa eða beinum styrkjum, skattalegum fríðindum sem ekki þekkjast annars staðar í landinu. Það hefur ítrekað gerst, t.d. í hátækniiðnaði og einnig við sameiningu sveitarfélaga, að opinberir aðilar hafa gripið inn í með afgerandi hætti. Það hefur ekki verið gert hér og ég minni á að þegar sameining sveitarfélaga náðið hápunkti 1993 og fyrr, að sveitarfélögunum var lofað ýmsu í sameiningarferlinu til að mæta erfiðri fjárhagsstöðu. Þegar til átti að taka reyndist hins vegar ekki innstæða fyrir því. Í mörgum tilfellum sameinuðust fjárvana sveitarfélög í eitt stórt fjárvana sveitarfélag í þeim tilgangi en það leiddi í raun ekki til annars en að til varð eitt fjárvana sveitarfélag í staðinn fyrir mörg. Það á við sveitarfélög vestur á fjörðum sem berjast í bökkum og var fyrirséð við sameininguna að svo færi fyrr en síðar.

[19:30]

Ég held að þar hefðu opinberir aðilar átt að grípa inn í og mæta fyrirsjáanlegum og í rauninni alveg augljósum fjárhagsvanda strax þannig að ekki hefði þurft að koma til þessa mikla vanda sem þarna hefur verið og sem hefur í raun kreist líftóruna úr slíkum sveitarfélögum smám saman vegna þess að ekkert er til af peningum til að mæta þörfum um aukna þjónustu, um fjölbreyttara atvinnulíf og bætta aðstöðu íbúanna þrátt fyrir að sveitarfélögin hafi verið stækkuð. Ég held því að þarna sé þáttur sem við eigum að skoða miklu betur en við höfum gert, þ.e. að nýta sameiningu sveitarfélaganna til þess að opinberir aðilar komi inn í fjárhagsvandamál þeirra og geri þeim kleift að gera hlutina betur úr garði sameinaðir heldur en gert var fyrir sameiningu. Þetta er einn þátturinn sem mér finnst að við eigum að taka með fullri alvöru til skoðunar á næstu vikum og mánuðum.

Varðandi atvinnulífið er margt annað sem mér finnst að þurfi að koma þar að auki til skoðunar og taka til fyrirmyndar frá erlendum aðilum. Það er t.d. stofnun frísvæða og stofnun einstakra fyrirtækja með sérstaka frísvæðasamninga við skattyfirvöld þar sem ekki er verið að tala um að byggja upp svæði með gaddavírsgirðingum í kring, heldur er samið við fyrirtæki sem eru bara í atvinnuhúsnæði innan um önnur fyrirtæki sem ekki hafa slíka samninga. Við þekkjum það frá Írlandi sérstaklega hvað frísvæðauppbyggingin hefur gengið vel og leitt af sér starfsemi sem ég held að menn hefðu ekki séð fyrir sér að öðrum kosti. Þar hefur verið reistur sérstakur háskóli í kringum frísvæðið sem er mjög stór og öflugur og hef ég rætt um það hér reyndar áður í þinginu hversu framarlega þeir standa á því sviði og útskrifa úr þeim háskóla yfir 80% nemenda til þess að stunda störf í atvinnulífinu, aðeins 20% í opinbera geiranum, sem er alveg öfugt við t.d. Háskóla Íslands eða sambærilega háskóla erlendis.

Þar hefur því myndast sérstök aðstaða til að skapa eitthvað nýtt. Það hefur einnig gerst á fjármagnsmarkaðnum þar sem stofnaðar hafa verið sérstakar fjármagnsmiðstöðvar sem eru til fyrirmyndar. Írar hafa fengið heilmikinn pening fyrir að ráðleggja öðrum löndum um uppsetningu frísvæða og fyrirtækja um allt land. Ég veit að þeir hafa verið í Póllandi, í Afríkuríkjum, Asíu og vítt og breitt um heiminn við að kenna öðrum þjóðum að skipuleggja starfsemi og uppsetningu fyrirtækja og svæða með þessu móti.

Eina leiðin til að skapa þá stöðu úti á landi að fyrirtæki geti borgað hærri laun en borguð eru á höfuðborgarsvæðinu er að gera þeim það kleift í gegnum skattkerfið og með styrkjum. Í rauninni er mjög erfitt að nota skattkerfið til að ívilna einstaklingunum sjálfum, t.d. með lægri skattprósentu úti á landi, með lægri virðisaukaskatti eða einhverjum álíka aðgerðum eða með lægri prósentum á atvinnulífið ef ekki væru sérstakir frísvæðasamningar, því það stangaðist í raun á við reglur innan Evrópusambandsins og er því ekki það tæki sem sumir hverjir halda að gagnist til að halda fólki úti á landi, þ.e. að lækka skattana á einstaklingunum. Það mundi ekki verða samþykkt af ESA og er í rauninni ólöglegt. Gagnvart fyrirtækjum í samkeppnisiðnaði yrði líka ólöglegt að mismuna þeim skattalega eftir því hvar fyrirtækin væru staðsett.

Aftur á móti bannar ekkert beina styrki til þessara sömu fyrirtækja. Persónubundnir styrkir sem við þekkjum hér á landi eru líka leyfilegir. Þeir styrkir eiga t.d. við um húshitun þar sem fólk er styrkt til að greiða niður húshitunarkostnað. Segja má að hluti sjómannaafsláttar geti kallast slíkur byggðastyrkur eða landsbyggðarstyrkur því að um 60% af þeim 2 milljörðum sem eru felld niður af sköttum á sjómenn fara út á land meðan 40%, skulum við segja, fara á höfuðborgarsvæðið. Þannig fara 1,2 milljarðar kr. til sjómanna utan höfuðborgarsvæðisins. Það er náttúrlega verulega há upphæð og hlutfallslega mjög há þegar litið er á það hve miklu færra fólk býr úti á landi.

Að þessu leyti er því hægt að halda slíkum aðgerðum áfram og ég held að það væri óráð fyrir okkur að fella niður sjómannaafsláttinn til að mæta gagnrýni sem uppi hefur verið á það kerfi. Teldi ég það mikið glapræði. Það yrði einungis til þess að ekki væri fýsilegra að búa úti á landi en nú er.

Til að auka fjölbreytnina hefur mikið verið lagt upp úr því að undanförnu að setja upp stóriðju og hefur mikið verið lagt undir í þeirri umræðu að stóriðja, t.d. á Austfjörðum, væri sá kostur sem mundi bjarga svæðinu og auka þannig fjölbreytni atvinnulífsins og fólk mundi frekar vilja eiga heima á Austfjörðum en ella, þ.e. eftir stóriðjuuppbyggingu. Ég efast ekki um að ef reist yrði stóriðja á Austfjörðum, á Norðurlandi eða Vestfjörðum mundi það tvímælalaust auka möguleikana og gera svæðið í heild sinni sterkara atvinnulega séð. Ég er samt dálítið hræddur um að þessir stóru álrisar úti í heimi hafi, þegar upp er staðið, ekki mikinn áhuga á að byggja upp svo dýr fyrirtæki fjarri þéttbýli landsins og að þess vegna verði þetta aldrei annað en óljósar yfirlýsingar vegna þeirrar áhættu sem felst í því að byggja milljónatuga verksmiðjur langt frá mannabyggðum. Á svo fámennum svæðum er erfitt að halda rekstri slíkrar starfsemi gangandi bæði hvað varðar tækni og þjónustu. Ég ætla samt ekki að segja að menn eigi ekki að reyna að fá erlenda aðila til þessa. Ég er einfaldlega að segja að ég óttast að menn geri sér of miklar vonir þegar kemur að því að fá starfsemi eins og stóriðju til þessara svæða.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda mjög langa ræðu en ég held, eins og ég hef sagt hér fyrr, að ekki sé margt annað sýnilegra en að auka fjölbreytni atvinnulífsins sem gæti orðið til þess að stöðva fólksstrauminn til höfuðborgarsvæðisins. Það á reyndar eftir að laga vegakerfið þannig að vegirnir verði akfærir, eða við skulum segja að þeir séu ekki þannig að bílar stórskemmist eftir hverja ferð. Nú hillir undir það að allt vegakerfi landsmanna, hringvegurinn og helstu þjóðvegir verði malbikaðir. Einnig hillir undir það að leiðir verði styttar þannig að við erum að sjá fyrir endann á þeim vandamálum.

Menntunarmöguleikar á landsbyggðinni eru að opnast miklu hraðar en áður með fjarkennslu sem ég held að menn ættu að leggja mjög ríka áherslu á og þá um leið gætum við hugsanlega náð niður þeim mikla kostnaði sem felst í því fyrir fólk að fara á milli landshluta til að sækja sér menntun. Það er eitt af því sem hefur reynst erfitt fyrir landsbyggðarfólk að kljúfa, þ.e. að senda börn, jafnvel mörg frá sama heimilinu, til náms á höfuðborgarsvæðinu og borga allan þann kostnað sem því fylgir, 400--500 þús. kr. á einstakling. Ég held því að þetta eigi eftir að leysast að einhverju leyti á næstu mánuðum og það er þegar farið að gera það.

Herra forseti. Ég fagna því að þessi umræða hafi farið fram. Það er nauðsynlegt að við áttum okkur á því að mjög mikilvægt er fyrir þjóðina að halda öllu landinu í byggð. Eins og staðan er í dag verðum við kannski að nýta okkur aðferðir sem ekki hafa alveg rúmast innan stefnu í fiskveiðimálum þjóðarinnar, þ.e. að passa upp á það að smábátaflotinn úti á landi verði ekki verkefnalaus. Við höfum séð að kvóti hefur færst frá smábátum og vertíðarbátum í mjög miklum mæli til fullvinnsluskipa. Það hefur síðan orðið til þess að fiskvinnslufyrirtækin á þessum stöðum hafa orðið verkefnalítil.

Ýmsar aðgerðir í fiskveiðistjórnarkerfinu hafa líka orðið til þess að fyrirtæki úti á landi hafa misst tekjupósta sem hafa reynst þeim drjúg á síðustu nokkrum árum. Á ég þar við leigukvóta. Fyrir rétt um ári var lögum um stjórn fiskveiða breytt þannig að veiðiskylda skipa var aukin um helming. Það þýðir að sjálfsögðu að miklu minni fiskur er á leigumarkaðnum í dag en var fyrir aðeins rúmu hálfu ári vegna þess að þetta kerfi tók gildi 1. september sl. Það magn sem fer í gegnum Kvótaþing er talið vera frá 60--80% minna en á síðasta ári. Verð á leigukvóta hefur hækkað um 30% á einu ári og allt er þetta í þessum dúr.

[19:45]

Þeir sem hafa leigt út í þessu tilfelli hafa reyndar haft miklar tekjur af þessum leigumarkaði. Þær nema háum upphæðum. Þar er fyrst og fremst um að ræða fyrirtæki á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Þessi fyrirtæki leigðu frá sér um 25 þús. þorskígildi á ári og fengu fyrir það örugglega á bilinu 1--1,5 milljarða. Þessar tekjur eru að mestu horfnar og skip þessara fyrirtækja eru nú að skaka á heimamiðum og ná í kvóta sinn, sem getur út af fyrir sig verið eðlilegt en fjarlæg mið eru vanrækt á sama tíma. Tekjurnar sem þetta skapaði fyrirtækjunum á þessum þremur svæðum er nú horfnar og mörg af þessum fyrirtækja hafa stórlega dregið úr rekstri sínum, eru jafnvel hætt rekstri og önnur í miklum erfiðleikum. Sumt af því sem að undanförnu hefur verið gert í þeim tilgangi að treysta byggðina hefur virkað þveröfugt. Þegar landsbyggðarfólk hefur krafist þess að allur kvóti á þessum svæðum væri veiddur á því svæði, hefur það ekki skilað sér inn í betri hag eða sterkari fyrirtækjum. Það hefur þvert á móti orðið til þess að fjárhagur þessara fyrirtækja hefur versnað.

Staðreyndin var sú að kvóti þessara svæða var nægjanlega mikill. Nú treysta margar af þessum byggðum nánast eingöngu á smábáta og fyrirtækin eru mörg hver orðin það veik að þau geta ekki haldið áfram rekstri og verða að selja frá sér kvótann. Hann safnast þar sem peningar eru fyrir, væntanlega á suðvesturhorninu og hjá fullvinnsluskipum sem vinna aflann um borð. Þetta er þróun sem við höfum reynt að sporna gegn en aðgerðir hafa samt þróast, vegna kröfugerðar frá verkalýðshreyfingunni eða sjómannaforustunni á þeim tíma, í þveröfuga átt við það sem að var stefnt.

Ég vil að lokum, herra forseti, lýsa yfir ánægju minni með þessa þáltill. og umræðuna sem fram hefur farið um hana.