Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 19:48:07 (4255)

1999-03-02 19:48:07# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[19:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessu umræðu til mikilla muna. Þar kemur margt til en þó ekki það að ég gæti ekki hugsað mér að segja ýmislegt um byggðamál á Íslandi eins og þau hafa þróast. Mér finnst sú umræða sem hér fer fram hins vegar harla tilgangslítil, svo ég segi ekki marklítil. Ég vek athygli á því, herra forseti, að hér hafa verið ákaflega þunnskipaðir bekkir. Hér hefur vart nokkur einasti ráðherra sést í allan dag og síst sá sem ber ábyrgð á þessum málaflokki, hæstv. forsrh. Mér er nær að halda að í húsinu séu þrír menn núna sem er væntanlega til marks um hve alvarlega horfir með byggðamál á Íslandi.

Ég held að sú tillaga sem hér er á ferðinni sé því miður, herra forseti, sýndarmennska að mestu leyti. Hún er talsvert samsafn af fallegum orðum á blaði en það vantar sem við á að éta. Það vantar afl til að framkvæma það sem gera skal. Í tillögunni er ekki á nokkurn hátt kveðið á um framkvæmdaáfanga, aðgerðir eða fjármagn sem auðvitað þarf að koma til ef gera á eitthvað sem munar um í byggðamálum á Íslandi.

Þetta er fallegt orðagjálfur eins og tillagan 1994 var, sem var auðvitað mjög fallegt orðagjálfur. Frægast er nú sennilega að í þeirri þáltill. um stefnu í byggðamálum sem í gildi hefur verið voru hin háleitu markmið hæstv. ríkisstjórnar um að dreifa opinberri þjónustu og starfsemi opinberra stofnana þannig að hún yrði aukin á landsbyggðinni en að sama skapi dregin saman á höfuðborgarsvæðinu. Þetta átti að gera með ýmsum hætti.

Nú vill svo vel til að nýútkomin er skýrsla um þessi markmið. Hún sýnir að aðgerðirnar hafa gjörsamlega mistekist og þróunin orðið gjörsamlega gagnstæð. Hún er þveröfug við það sem gera átti samkvæmt hinni yfirlýstu stefnu í byggðamálum og þáltill. sem unnið hefur verið eftir, sem var afgreidd í tíð fyrrv. ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl., og núverandi ríkisstjórn ætlaði að framkvæma. Hið þveröfuga hefur gerst.

Ég sagði við fyrstu umræðu um þetta mál og get vísað til þess, að ég tæki ekki mikið mark á svona orðagjálfri á meðan ekki örlaði á vilja til að taka á málinu. Ég endurtek það og vísa til þess hér. Mér finnst það tímanna tákn, herra forseti, að þannig skuli unnið að hlutunum að hv. allshn., sem án efa hefur fjallað um málið á mörgum fundum og rætt við fjölda fólks, leggur í lokin til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Er það okkur alþingismönnum til háðungar, herra forseti, eða hvað, að leggja það til að tillagan sé samþykkt óbreytt? Í inngangi tillögunnar stendur ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 1998--2001.`` Það hefur staðið á töflunni og á sjónvarpsskjánum í allan dag að við séum að ræða byggðaáætlun fyrir árin 1998--2001. Allshn. hefur ekki einu sinni séð sóma sinn í að gera a.m.k. þá breytingu að lagfæra ártalið. Eða er ætlunin sú að þáltill. verði afturvirk? Ég hafði ekki áttað mig á þeirri snilld hjá hv. allshn.

Ég hefði einnig talið, herra forseti, að allshn. hefði mátt hafa fyrir því að átta sig á samhengi þessa máls við væntanlega kjördæmabreytingu og þá vinnu að byggðamálum sem þar er í gangi í sérstakri stjórnskipaðri nefnd. Það er beinlínis hlálegt að við skulum ræða þetta nokkrum dögum áður en sú nefnd á að skila áliti til hæstv. forsrh., sama ráðherra og þessi mál heyra undir. Nú vill svo til, af því að ég sit í þeirri nefnd, að mér er kunnugt um að þar er þó rætt um aðgerðir og fjármuni sem auðvitað skipta máli og hefðu þá átt erindi í þessa umræðu. Það er kolvitlaust verklag að ræða þessa almennu stefnumótunaráætlun áður en niðurstaða er fengin í það mál.

Ég geri í sjálfu sér ekkert með þessa samþykkt, herra forseti, verði hún gerð að tillögu allshn. Ég sé að vísu að formaður hv. allshn. hefur áttað sig á þessu vandamáli, með afturvirkni tillögunnar, og flytur brtt., hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, um að tillagan skuli gilda fyrir árin 1999--2001. Það er náttúrlega gífurleg framför að nefndin hafi þó seint sé áttað sig á því að ekki færi vel á hinu.

Þar til eitthvað þarna skiptir máli, herra forseti, og miðar að beinhörðum aðgerðum þá gef ég ekki mikið fyrir tillöguna.

Ég hef reyndar lagt fsp. fyrir hæstv. forsrh., herra forseti, sem ég vona að verði svarað innan skamms. Þar spyr ég út í viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessari úttekt á dreifingu opinberra starfa. Þau eru einhver mesta hneisa sem komið hefur fram í umræðum um byggðamál síðustu árin, þvert ofan í skýr markmið þál. um byggðamál. Ef ég man rétt stendur eitthvað um þetta í stjórnarsáttmálanum. Ég verð að vísu að játa að ég kann hann ekki lengur utan að, enda kannski ekki hlutskipti mitt umfram aðra að læra utan að stjórnarsáttmála Sjálfstfl. og Framsfl. Mig minnir þó að í þeim sama bleðli sé einmitt fjallað um þessi mál og þau markmið sett að dreifa þjónustu, flytja starfsemi og störf út um landið. Svo fáum við í hendur glænýja úttekt frá Byggðastofnun sem sýnir að þetta er gjörsamlega afvelta og þveröfugt. Nánast öll störf sem bætast við að þessu leyti bætast við í Reykjavík og að litlu leyti á Reykjanesi. Það er raunar áfall, herra forseti, t.d. fyrir okkur sem horfum á þessi mál frá sjónarhóli íbúa á Norðurlandi eystra og höfum talið okkur trú um að þar væri þó í gangi ákveðin uppbygging, eins og í Háskólanum á Akureyri þó vissulega sé hún talsverð þar, að í ljós kemur að meira að segja þar, á Eyjafjarðarsvæðinu og Norðurlandi eystra, fækkar opinberum störfum milli ára vegna samdráttar á öðrum sviðum. Niðurskurður í ýmsum málaflokkum vegur upp það sem er að bætast við með t.d. uppbyggingu Háskólans á Akureyri og rúmlega það. Þetta eru hrikalegar niðurstöður, herra forseti, sem ég veit að hæstv. forseti skilur og þarf ekki að hafa fleiri orð um.

Margt er líka kyndugt í þessari till. til þál. um stefnu í byggðamálum. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá að allshn. hafði ekki hugsað sér að gera neinar breytingar á tillögutextanum. Hann er að mínu mati meingallaður. Þarna veður uppi alls konar blaður sem á ekkert skylt við aðgerðir gegn undirliggjandi vandamálum og rótum búseturöskunar í landinu. Þó þetta séu að mestu falleg fyrirheit eða notalegar hugsanir um hvernig æskilegt væri að heimurinn liti út, ef hann vildi vera svo góður að vera vingjarnlegur og hlýr, þá gerist það ekki þar með. Hægt væri að óska sér þess í þáltill. að alltaf verði gott veður en það gerist ekki sjálfkrafa þar með. Það er ekki þannig.

Mér finnst þessi tillaga í raun vera þannig. Hún er eins og frómar óskir manna sem orðnir eru leiðir á rigningu, vilja fá gott veður og setja inn í þáltill. að æskilegt sé að allra besta veður verði um allt land og miðin. Það hefur hins vegar ekki mikið upp á sig, herra forseti, því náttúruöflin ráða því.

Við gætum hins vegar ráðið heilmiklu um þessi byggðamál ef við vildum og tækjum á þeim, m.a. á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir og eru ítarlegar og aðgengilegar, um hvað valdi því að fólk flytur af landsbyggðinni í stórum stíl. Ég vitna hér í skýrslu Stefáns Ólafssonar, sem hann hafði forustu um að vinna fyrir Byggðastofnun. Hún heitir Búseta á Íslandi --- rannsóknir á orsökum búferlaflutninga, er gagnmerkt rit og að mínu mati það langbesta sem komið hefur út um þessi efni á íslensku enn. Vandinn er greindur mjög vel og skýrslan byggð á könnun á raunverulegum vilja eða hug fólks. Spurt er út í ástæður þess að það flytur eða hugleiðir að flytja búferlum innan lands. Þar liggur fyrir hver vandinn er og enginn vandi að taka á því sem þar stendur mest út af ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Gagnlegast væri að bæta úr aðstöðumuninum, t.d. vöruverði, aðstöðu til náms, opinberri þjónustu, félagslegri þjónustu og fleiri slíkum þáttum.

Margt, herra forseti, ætti erindi inn í þessa umræðu en gleymist ef til vill í umfjöllun um þessi mál. Ég held t.d. að menn hafi orðið of uppteknir af spurningunni um stöðu stærstu staðanna á landsbyggðinni. Ég dreg þó ekki úr því að mikilvægt sé að þeir blómgist en áhrif þess að veikustu hlekkirnir í byggðakeðjunni slitni hefur verið vanmetin. Ég held að undirrót byggðavandans sé fækkun fólks og þau vandamál sem stafa af breyttum atvinnuháttum í sveitum landsins og minni sjávarplássum. Þar byrja flutningarnir. Um tíma staðnæmdist fólkið í nærlægu þéttbýli, svo flytur það þaðan, þannig að ef menn vilja stemma þessa á að ósi þá ættu þeir að horfa á sjálfa undirrót vandans, fólksfækkun í sveitum og minni þéttbýlisstöðunum. Ef sveitirnar og minni þéttbýlisstaðir stæðu sterkari þá mundu stærri þéttbýliskjarnar og þjónustumiðstöðvar í héruðum og landshlutum að sjálfsögðu njóta góðs af og blómgast sem því næmi.

Ég vil jafnframt nefna samgöngurnar, herra forseti, þó ekki væri nema til að minna á að þegar upp er staðið eru þær stærsti einstaki þátturinn í valdi stjórnvalda til að ráða einhverju um, þ.e. til að taka á byggðamálunum. Flestir nefna þá samgöngur.

Hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn birst okkur í samgöngumálunum síðustu daga og ef við tækjum nú jarðgangagerðina, herra forseti. Kannski væri ástæða til að fara yfir það. Nú stefnir í myndarlega framgöngu hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgrh., sem er að vísu staddur í Finnlandi að ræða við jólasveininn í Rovaniemi, ef ég veit rétt. Ég veit ekki hvort þeir þurfa túlk, hæstv. samgrh. og finnski jólasveinninn, en þeir eiga núna skoðanaskipti og hæstv. ráðherra er ekki hér til að ræða við okkur um byggðamál.

Hæstv. ráðherra er nýbúinn að láta afgreiða vegáætlun og langtímaáætlun í vegagerð, á síðasta þingi, og þar var jarðgangagerð ýtt út úr vegáætluninni, sem þó hafði verið þar inni um tíma. Hvað gerist svo næst? Jú, hér kemur á borð þingmanna þáltill. frá tveimur þingmönnum Sjálfstfl. í einu kjördæmi. Þar leggja þeir til að þegar í stað verði hafist handa í jarðgangagerð á Austurlandi.

[20:00]

Nokkrum vikum síðar fer hæstv. samgrh. norður á Siglufjörð og lofar íbúunum þar jarðgöngum. Nú sé um að gera að hefja jarðgangagerð í hvelli og það frá Siglufirði yfir í Ólafsfjörð sem er auðvitað hið besta mál. En það kúnstuga við allan tillöguflutninginn er að þetta eru stjórnarþingmenn og tilheyra ríkisstjórn, stóðu að afgreiðslu vegáætlunar og langtímaáætlunar í vegamálum í tólf ár þar sem jarðgöng eru hvergi á blaði.

Herra forseti. Svona skrípaleikur er mönnum til skammar. Það á ekki að láta menn komast upp með að reyna að slá keilur með svona ódýrum hætti.

Hæstv. samgrh. Halldór Blöndal og hv. þingmenn Egill Jónsson og Arnbjörg Sveinsdóttir verða að horfast í augu við að þau eru aðilar að ríkisstjórninni, styðja hana eða sitja í henni, og hljóta þar af leiðandi að teljast bera einhverja pólitíska ábyrgð á þeirri áætlanagerð í samgöngumálum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Það er ódýrt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríða svo heim í hérað og ætla að slá þar keilur á marklausum tillöguflutningi um jarðgangagerð sem er hvergi inni í áætlunum. Það er ódýrt.

Til að kóróna þetta leggja nokkrir hv. þingmenn stjórnarliðsins, undir forustu hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, Jóns Kristjánssonar, Árna Johnsens, Einars Odds Kristjánssonar og fleiri stórmenna fram tillögu um langtímaáætlun í jarðgangagerð. Þá spyr ég: Hvar voru þessir menn þegar vegáætlun var afgreidd í fyrra? Hvar voru þeir þá?

Sama mætti segja um tillöguflutning stjórnarþingmanna hér, fjögurra þingmanna Framsfl., sem kemur á borðið í nánast sömu andrá og við erum að ræða stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Um hvað er þessi tillaga frá hv. þm. Guðna Ágústssyni og fleirum? Hún er um jöfnun lífskjara og aðstöðumun eftir búsetu. Hún á að taka á byggðavandanum og búseturöskuninni. Hvar var hv. þm. Guðni Ágústsson þegar stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum var sett niður í þessa þáltill.? Af hverju er þetta ekki hér, af hverju er ekki tekið á þessu hér?

Nei, niðurstaðan er ósköp einföld, herra forseti. Ríkisstjórnin, sem ber auðvitað fulla ábyrgð á þeirri geigvænlegu byggðaröskun sem hér hefur verið í gangi og er sú mesta á síðari áratugum, hefur vaxið ár frá ári frá 1993, nema kannski staðið í stað núna milli áranna 1997 og 1998, er í raun og veru ekki með neitt til að leggja fyrir okkur, hvorki í stefnu sinni né tillöguflutningi og málflutningi einstakra stjórnarþingmanna, nema helbera sýndarmennsku. Og það er ömurlegt.

Ég hef sagt það áður og get endurtekið það að ég er orðinn hundleiður á þessu blaðri. Á meðan menn tala og tala en gera ekki neitt er náttúrlega ekki von á góðu. Á meðan er ekki tekið á byggðaröskuninni, sem er af skilgreindum og útskýranlegum ástæðum, hún stafar af ýmiss konar ójafnvægi og misrétti sem er í gangi, aðstöðumun sem fólk býr við, og því er ekki von á því að úr rætist. Það snýst um aðgerðir, það snýst um beinharðar ákvarðanir og það snýst um fjármuni en ekki endalaust blaður og þykkar tillögur og marklausar yfirlýsingar út í loftið.

Fleira hef ég ekki að segja um málið að svo stöddu, herra forseti.