Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:15:54 (4271)

1999-03-03 14:15:54# 123. lþ. 76.11 fundur 564. mál: #A málefni fatlaðra# (starfsmenn svæðisskrifstofu) frv. 52/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að segja fáein orð um frv.

Ég held að hérna séum við með í höndunum enn eitt dæmið um klúðursleg vinnubrögð hæstv. félmrh. Það er með ólíkindum að þetta mál þurfi að vera að þvælast hér við 1. umr. nokkrum dögum áður en þingið á að ljúka störfum samkvæmt starfsáætlun. Hér er í raun verið að koma fram með stórt mál, eða a.m.k. frv. sem er tengt mjög stóru máli, þ.e. spurningunni um flutning verkefna frá ríkisvaldinu til sveitarfélaga. Þetta mál stendur þannig, herra forseti, að búið er að samþykkja hér ótímabundna frestun á almennum flutningi málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Af hverju er það, herra forseti? Það er af því að fjölmörg sveitarfélög vítt og breitt um landið lýstu sig ekki reiðubúin til þess að halda áfram með fyrirhugaðan flutning þessa málaflokks yfir á sveitarstjórnarstigið. Það gerist m.a. vegna þess að sveitarfélögin vita að undirbúningi er áfátt. Mörg álitamál eru óleyst í sambandi við færslu á flóknum og erfiðum málaflokki eins og hér á í hlut. Það er mitt mat, herra forseti, að þar spili ekki síður inn í blendin reynsla sveitarfélaganna af nýafstöðnum flutningi grunnskólans yfir til þeirra og þá ekki síst kostnaðarhliðin í því máli.

Herra forseti. Ég held að menn ættu að fara að hægja aðeins á sér og skoða hvar þeir eru staddir í þessum efnum og meta reynsluna af því sem gert hefur verið hingað til. Er þetta endilega svona einhlítt, jákvætt eða vandræðalaust eins og menn hafa gjarnan viljað vera láta þegar þeir tala sig upp í hvað mestan hita um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga? Ég held að þar beri að skoða hvern hlut fyrir sig og kost og löst á þeim málum og að menn eigi ekki að gefa sér neitt fyrir fram í þeim efnum, t.d. að það sé sjálfgefið að um flutning málefnum fatlaðra, sem eru auðvitað ákaflega viðkvæmur og vandasamur málaflokkur, þar sem staða sveitarfélaganna getur verið mjög ólík og ýmsar aðstæður ráðið miklu um það hversu þungar byrðar lenda á herðar þeim sem við þessu tækju, að um hreinan flutning á þessum málaflokki eða þessu verkefni, þar með talið kostnaðinum yfir til sveitarfélaganna, eigi að vera að ræða. Er t.d. endilega sjálfgefið að þetta gæti ekki verið þegar upp er staðið heppilegast sem samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga? Er það? Hafa menn farið yfir það? Gæti það ekki verið þannig að eftir sem áður hefði ríkið þarna ákveðnar skyldur og ræki tilteknar sérhæfðar stofnanir sem þjónuðu landinu öllu eða mörgum sveitarfélögum í senn þó að sveitarfélögin tækjust á herðar aukin verkefni sem féllu undir almennar skyldur á þessu sviði? Ég segi eins og annar hv. þm., Svavar Gestsson, hefur stundum sagt, að hún fer orðið oft í taugarnar á mér hreintrúarstefnan í þessum efnum, að það sé æðsta boðorð að þessir aðilar megi ekki vera í samstarfi um tiltekin mál þannig að vissir málaflokkar eða viss verkefni séu ósköp einfaldlega samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.

Ég hef sagt hér áður og endurtek það, herra forseti, við þessa umræðu að ég hef fullan fyrirvara á um að styðja einhverja almenna tilfærslu málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaganna sisvona. Ég geri það með vísan til þess hvaða málaflokkur á í hlut. Ég geri það með vísan til blendinnar reynslu af verkefnaflutningi á undanförnum árum. Ég geri það með vísan til þess að fjárhagur sveitarfélaganna í landinu hefur farið stórlega versnandi á sama tíma og ríkissjóður hefur braggast. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að menn staldri við og spyrji: Erum við fyrst og fremst að flytja hallann sem áður var á ríkissjóði yfir í sveitafélögin? Og þegar það bætist við að landsfeðurnir rjúka upp og skamma sveitarfélögin ef þau ætla að hækka hjá sér tekjurnar, t.d. með því að fullnýta útsvarið eins og kunnugt er, þá er orðið úr vöndu að ráða. Það á að dæla verkefnum í sveitarfélögin og skamma þau svo blóðugum skömmum, eins og hæstv. fjmrh. hefur gert og hæstv. félmrh. hefur gert, fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum. Þá verða menn fyrst vitlausir ef þeir ætla svo að bæta úr því með því að hækka útsvörin eins og kunnugt er. Hæstv. forsrh. fór mikinn þegar nokkur sveitarfélög leyfðu sér að bæta lítillega við útsvarsprósentuna fyrir síðustu áramót.

Herra forseti. Menn eru að vísu fastir í þessum farvegi að nokkur sveitarfélög hafa verið að undirbúa og jafnvel taka við þessum málaflokki á einhvers konar reynslugrundvelli, á grundvelli reynslufyrirkomulags. Þessi hugmyndafræði um reynslusveitarfélögin hljómaði auðvitað að mörgu leyti vel, að tiltekin sveitarfélög gætu til reynslu tekið við ákveðnum málefnum og þá fengist á það reynsla hvernig þeim gengi að leysa þau verkefni.

En þegar betur er að gáð, þá vakna líka spurningar í sambandi við svona fyrirkomulag. Er það endilega mjög heppilegt að nokkur sveitarfélög verði komin með þennan málaflokk ef niðurstaðan yrði svo kannski sú að menn féllu frá þessum flutningi á almennum forsendum? Er einhver hér sem getur lofað því eða fullyrt að það verði endilega niðurstaðan að lokum að málefni fatlaðra verði öll flutt yfir til sveitarfélaganna? Ég spyr. Er ekki hik á neinum í ljósi þess hvernig sveitarfélögin hafa farið að endurskoða sína stöðu í þessum efnum? Það er a.m.k. ljóst að núverandi ríkisstjórn og það Alþingi sem nú situr hefur það mál ekki í hendi sér því búið er að fresta því ótímasett að málaflokkurinn sem slíkur færist þarna yfir. Það væri ekki góð staða ef menn sætu svo uppi með það til frambúðar að sum sveitarfélög sem upphaflega tóku við málaflokknum á grundvelli einhvers reynslufyrirkomulags sætu uppi með hann því að ég held að erfitt sé að snúa við. Það skapar líka vandamál og er ekki mjög praktískt hvort heldur á í hlut heilsugæslan, málefni fatlaðra eða eitthvað annað. Herra forseti. Ég get ekki neitað því að ég hef af því nokkrar áhyggjur hvernig þessi mál hafa verið að þróast á síðustu missirum. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að þau séu að öllu leyti í góðum farvegi.

Vel kann að vera að ekki sé um annað að ræða vegna ástands sem þegar er komið upp. Hér er vitnað í þegar gerða samninga sem m.a. hæstv. félmrh. sjálfur hefur gert við sveitarfélögin í sínu kjördæmi á Norðurl. v. um að þau taki á grundvelli 13. gr. við málefnunum, hafi gert þar um vissan samning og þess vegna þurfi þessa lagabreytingu. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það og er ekki að lýsa því yfir hér að ég geti ekki stuðlað að því að frv. fái brautargengi ef það er óhjákvæmilegt. Ef það verður að gerast til þess að bjarga einhverju vandræðaástandi sem tengist réttarstöðu starfsfólks, þá það, þá er best að líta á það og þingnefnd gerir það sjálfsagt.

Ég hlaut að nota tækifærið, herra forseti, til þess að koma almennum fyrirvörum mínum á framfæri hvað varðar stöðu þessara mála eins og þau standa um þessar mundir.