Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:23:57 (4272)

1999-03-03 14:23:57# 123. lþ. 76.11 fundur 564. mál: #A málefni fatlaðra# (starfsmenn svæðisskrifstofu) frv. 52/1999, JónK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 123. lþ.

[14:23]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það sem hér um ræðir snertir flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga og þá samninga sem hafa verið gerðir í tilraunaskyni í þessum efnum. Ég ætla ekki að fjalla ítarlega um málið efnislega og er ekki undir það búinn. Hins vegar hefur í umræðunni verið komið almennt inn á spurninguna um flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Það er rétt að því máli hefur verið frestað. Eigi að síður vil ég að það komi fram í þessari umræðu að það er mjög almenn skoðun, eftir því sem ég hef komist næst og eftir þeim viðræðum sem ég hef átt við sveitarstjórnarmenn víða, að þessi málaflokkur eigi að vera hjá sveitarfélögunum og það sé eðlilegt vegna annarrar starfsemi þeirra og þjónustu við þá sem þar búa.

Það er alveg rétt að ekki er rétt að flana að þessum flutningi. Það er ljóst að ekki er búið að undirbúa hann nægilega vel fjárhagslega. Í ýmsum umdæmum vantar töluvert mikið upp á. Við síðustu fjárlagagerð var tekið skref í þessum efnum og fjármunir settir í að koma til móts við þörfina á höfuðborgarsvæðinu þar sem biðraðirnar eru mestar og erfiðleikarnir mestir. Því starfi þarf að halda áfram áður en flutningurinn fer endanlega fram. En ég held að menn megi ekki missa sjónir af því takmarki að eðlilegt sé að þessi málaflokkur sé þar. Í viðræðum við fagfólk hefur komið fram að þetta sé eðlileg skipan mála. En ég tek undir það að þetta er viðkvæmur málaflokkur. Það er ekki rétt að flana að þessum flutningi og það verður að búa vel um hann fjárhagslega áður en hann fer fram. Ég held að ekki sé ástæða til að leggja stein í götu tilraunaverkefna á þessu sviði. Og um það fjallar einmitt þetta frv. og það er til að greiða fyrir þessu. Þess vegna tel ég að frv. þurfi að fá framgang.