Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:37:01 (4275)

1999-03-03 14:37:01# 123. lþ. 77.1 fundur 373. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi GÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. svör hans sem voru í léttum dúr en þó full af þeirri meiningu sem skiptir máli, að hann muni annaðhvort leysa þessa öldruðu og sinnulausu nefnd frá störfum ellegar skipa nýja, sem ég held að væri betri kostur. Í ljósi þess að málefni þeirra fullorðnu eru nú í öðrum og betri farvegi, þar er mikið félagsstarf og mikið verið unnið í þeim málaflokki á þessum tíu árum býst ég við að þar séu margir vaskir og vakandi menn sem taka mundu þessu verkefni fegins hendi. Þess vegna skora ég á hæstv. forsrh. að vera ekkert að spjalla við þá sem í nefndinni voru heldur leysa þá frá störfum með þakklæti og fela nýjum vakandi mönnum að vinna þetta verkefni inn í nýja öld.

Ég tel jafnmikilvægt og fyrr að móta þessar reglur, að fólk geti fyrr hætt störfum en það hefur gert í dag og geti enn fremur unnið lengur, kannski hálfan dag eftir sjötugt í nokkur ár eins og hugmynd tillögunnar var. Þessi tillaga sneri að mörgum atriðum sem skipta miklu máli til að sætta fullorðið fólk við þær staðreyndir sem blasa þá við. Ég er hæstv. forsrh. þakklátur fyrir svör hans og treysti því að nú fái þetta mál fljúgandi ferð.