Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:40:43 (4277)

1999-03-03 14:40:43# 123. lþ. 77.2 fundur 437. mál: #A framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[14:40]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fyrsta spurningin var: ,,Er hafin könnun á áhrifum atvinnu- og þjóðfélagsbreytinga á stöðu kvenna á landsbyggðinni, sbr. lið 1.3 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna? Ef svo er, hvenær er áætlað að niðurstöður liggi fyrir?``

Á síðasta ári voru unnar ýmsar athuganir þar sem staða kvenna á landsbyggðinni er sérstaklega tekin til meðferðar. Þar kemur fram mismunandi staða og viðhorf kvenna. Hér er m.a. um að ræða nefndarstarf á vegum iðn.- og viðskrn. um stöðu kvenna í atvinnurekstri. Í annan stað könnun sem Stefán Ólafsson gerði fyrir Byggðastofnun um orsakir búferlaflutninga, en þar eru viðhorf greind eftir kyni, m.a. í umfjöllun um áform búferlaflutninga og annað sem því tengist. Ráðuneytið hefur haft til athugunar að hve miklu leyti sú vinna geti skapað undirstöðu fyrir þá athugun sem nefnd var í spurningum fyrirspyrjandans. Við teljum að sú vinna geti komið að miklu gagni, en sú athugun mun verða framkvæmd á yfirstandandi ári.

Í öðru lagi er spurt: ,,Er hafin könnun á stöðu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu og hjá þeim stofnunum sem undir það heyra? Ef svo er, hvað hefur hún leitt í ljós, sbr. lið 1.5 í framkvæmdaáætluninni?``

Staða kvenna í forsrn. er nokkuð sterk. Af 19 starfsmönnum ráðuneytisins eru sjö karlar og 12 konur. Annar af tveimur skrifstofustjórum er kona. Tveir af fimm deildarstjórum eru konur og þrír af fjórum sérfræðingum eru konur. Áhersla hefur verið á að fjölga konum í ábyrgðarstörfum í ráðuneytinu. Ekki liggur fyrir hvernig staða jafnréttismála er hjá stofnunum ráðuneytisins. Gagnvart þeim stofnunum hefur ráðuneytið lagt áherslu á að jafna stöðu kynjanna við ráðningar í öll störf. Ég vek athygli á því í þessu sambandi að ráðherrann ræður ekki í störf hjá undirstofnunum ráðuneytisins, eingöngu forstjórann eða forstöðumanninn. Nú nýlega var ákveðið að framvegis mundi forsrh. ráða forstjóra Byggðastofnunar, áður var það á hendi stjórnar. Í Þjóðhagsstofnun er þjóðhagsstofustjóri ráðinn af forsrh. Ráðherrann hefur engin afskipti um mannaráðningum í þessum stofnunum að öðru leyti.

Þá er spurt: ,,Hvað líður gerð áætlana um jafna stöðu kynjanna innan ráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir það heyra, sbr. lið 1.5 í framkvæmdaáætluninni?``

Ekki hefur verið gerð sérstök áætlun um jafna stöðu kynjanna innan ráðuneytisins, sem er lítið og fámennt, umfram það sem getið er að framan og hlýtur að teljast í a.m.k. þokkalegu jafnvægi, þ.e. að leggja áherslu á að fjölga konum í ábyrgðarstöðum innan ráðuneytisins.