Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:58:50 (4283)

1999-03-03 14:58:50# 123. lþ. 77.4 fundur 355. mál: #A fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Þó nokkuð sé um liðið síðan ég lagði fram þá fyrirspurn sem hér er til umræðu þá virðist hún því miður eiga jafn vel við og þegar hún var fyrst lögð fram. Mikil nauðsyn er á því að skýra umræður um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Kynningarblað SSA sem gefið var út nú um helgina fyllir þó nokkuð út í myndina, en meira þarf til.

Enn og aftur hafa borist fréttir af því að hik sé á Norsk Hydro varðandi samninga um álver á Austurlandi. Á haustdögum, þegar ég lagði fram þá fyrirspurn sem nú er verið að svara, höfðu þær fréttir borist að Norsk Hydro hygðist festa kaup á álbræðslu Norðuráls á Grundartanga. Nú berast þær fréttir á öldum ljósvakans að mikið samdráttarskeið herji á Norsk Hydro og ákvörðunartöku sé ekki að vænta þaðan á næstunni. Þó er ekki sama hver túlkar fréttaflutninginn. Menn hafa vægast sagt farið út um holt og grundir í þeirri túlkun eftir því hvar menn hafa skipað sér í flokk, á með eða á móti.

Það fólk sem mest mun finna fyrir því ef samið verður um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi eru Austfirðingar. Austfirðingar koma hins vegar einnig til með að finna fyrir því ef ekki verður samið um stóriðjuframkvæmdir. Það segir sig sjálft að sú óvissa sem ríkir um fyrirhugaðar framkvæmdir er mjög óheppileg fyrir atvinnu- og byggðaumræðu á Austurlandi hvernig sem litið er á málið. Yfirlýsingar hafa verið gefnar um tímasetningar ákvarðana allt frá því í ágúst 1997. Þá átti að liggja fyrir ákvörðun um frekara framhald viðræðna í byrjun árs 1998. Við vitum að enn hefur lítið gerst. Sá fréttaflutningur sem við höfum orðið vitni að að undanförnu hefur enn aukið á þá óvissu sem Austfirðingar búa við.

[15:00]

Það er alveg ljóst að Austfirðingar eru orðnir langeygir eftir að sjá hvernig þær auðlindir sem þeir eiga í formi vatnsorku koma til með að nýtast þeim í nánustu framtíð. Því er nauðsynlegt að fram komi hver sé stefna stjórnvalda varðandi orkufrekan iðnað í landinu og hvort öll eggin eru í einni samningakörfu hjá Norsk Hydro, eða hvort við eigum egg í öðrum samningakörfum.

Í ljósi þessa hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. iðnrh.:

,,1. Ef kemur til nýrrar stóriðju hér á landi, hvar verður hún staðsett?

2. Hvernig standa samningar við Norsk Hydro um byggingu álvers við Reyðarfjörð?

3. Hvaða aðrar framkvæmdir eru áformaðar náist ekki samkomulag við Norsk Hydro og á hvaða stigi eru þeir samningar?``