Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:06:03 (4285)

1999-03-03 15:06:03# 123. lþ. 77.4 fundur 355. mál: #A fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Leyfist mér að óska hæstv. iðnrh. til hamingju með að vera eini maðurinn sem er eftir í öllum heiminum sem hefur trú á að Norsk Hydro ætli að koma hingað til að reisa þetta stóriðjuver? Leyfist mér líka að óska honum til hamingju með að vera eini maðurinn í heiminum sem trúir því að um mitt ár hyggist Norsk Hydro undirrita þennan samning? Hefur hæstv. iðnrh. ekki fylgst með fréttum af þessu máli og fylgst með því hvað talsmenn þessarar samsteypu hafa verið að segja? Meira að segja hv. fyrirspyrjandi leggur greinilega engan trúnað á að þetta sé í bígerð og þess vegna er fsp. fram komin.

Herra forseti. Í tilefni þess að ljóst er, eins og kemur fram með rökstuðningi fyrirspyrjanda, að Norsk Hydro mun ekki koma hingað, a.m.k. ekki í bráð, til að gera samning um að reisa þetta stóriðjuver, má ég þá spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann sé ekki tilbúinn til að staðfesta það hér sökum þess að tíminn sem gefst til undirbúnings er greinilega miklu meiri en áður, að hann muni beita sér fyrir því að Fljótsdalsvirkjun muni fara í lögformlegt umhverfismat. Þessari spurningu hef ég áður kastað fram til hæstv. iðnrh. og hann hefur ekki enn treyst sér til þess að svara henni. En getur hann gert það hér og nú?