Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:07:23 (4286)

1999-03-03 15:07:23# 123. lþ. 77.4 fundur 355. mál: #A fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er augljóst mál að það er ekki á færi hæstv. iðnrh. að ráða fyrir um það hvort Norsk Hydro kemur hingað til að setja niður stóriðju. En það er aftur á móti á hans færi að vinna að þessum málum hér á landi og það er hans embættisskylda.

Ég var satt að segja furðu lostinn yfir því svari sem hann lagði hér fram og ég vil sérstaklega ganga eftir því við hæstv. ráðherra að hann tali skýrar um það hvort ekki séu hafnar viðræður við neina aðra aðila en Norsk Hydro. Ef hann staðfestir það nú þá liggur alveg ljóst fyrir að þetta mál er í enn verri farvegi en áður lá fyrir.