Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:10:16 (4288)

1999-03-03 15:10:16# 123. lþ. 77.4 fundur 355. mál: #A fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:10]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hef ekki séð hv. 2. þm. Austurl. jafnbrugðið og í þessari umræðu. Hann kvartar sáran undan því að samstarfsmenn hans í ríkisstjórn standi ekki í lappirnar í málinu.

Það þarf talsvert mikið til að endurreisa trú á drauminn um álbræðslu á Reyðarfirði eins og málum er komið. Ég skil sannarlega áhyggjur hv. þm. Af hálfu hæstv. iðnrh. hefur það í raun verið staðfest hér í máli hans að það eru engir fætur undir þessu máli. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. fyrirspyrjanda þegar hún segir að þessi óvissa sé mjög alvarlegt mál fyrir atvinnuþróun á Austurlandi. Þetta er búið að vera eins og fallöxi þar yfir mönnum frá því að tilkynning um þetta kom frá 1. þm. Austurl., hæstv. utanrrh., í ágúst 1997.

Ég held að það sé jafngott að stjórnarliðar geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi þennan blekkingarleik, noti tímann og setji virkjunina, sem menn hafa ætlað að reisa, í lögformlegt umhverfismat.