Landgrunnsrannsóknir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:25:05 (4293)

1999-03-03 15:25:05# 123. lþ. 77.5 fundur 539. mál: #A landgrunnsrannsóknir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Í umræðunum hefur komið fram að tvö erlend stórfyrirtæki hafa sýnt áhuga, eins og mig minnir að það hafi verið orðað af hv. fyrirspyrjanda og ítrekað af hæstv. ráðherra, að koma að olíuleit með einhverjum hætti innan íslensku efnahagslögsögunnar. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af þessu, hvers eðlis sá áhugi er. Hafa einhvers konar viðræður átt sér stað og á hvaða stigi eru þær? Í annan stað langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort íslensk stjórnvöld hafa með einhverjum hætti undirbúið einhvers konar tilkall til olíu sem kann að verða unnin utan efnahagslögsögunnar á næstu árum, á Reykjaneshrygg, þá í krafti alþjóðlegra sáttmála eins og t.d. hafréttarsáttmálans?