Landgrunnsrannsóknir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:26:10 (4294)

1999-03-03 15:26:10# 123. lþ. 77.5 fundur 539. mál: #A landgrunnsrannsóknir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Það kemur fram í skýrslu starfshópsins að hann telur líkur á að annaðhvort gas eða olíur hafi myndast vera um 12%. Meiri líkur eru á gasi en olíu, það eru 9,6% á móti 2,4%. Líkurnar eru byggðar á útreikningum Anthony G. Doré sérfræðings hjá norska olíufélaginu Statoil en hann starfaði fyrir þennan hóp. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það eru mér veruleg vonbrigði að aðeins skuli sett í þetta mál núna 2 millj. kr. andstætt við það sem hópurinn gerði ráð fyrir að á næstu þremur árum yrðu settar 30--50 millj. kr. í þetta verk. Enn fremur eru nú orðin nokkuð mörg ár síðan borað var í Flatey á Skjálfanda til að gera þessar rannsóknir og þar þóttu menn nokkuð kenna að möguleiki væri á. Ég tel að full ástæða sé til þess að vinna betur heimaverkefnin áður en við fáum fleiri erlenda aðila til að koma hér að. Það þarf eitthvað meira til til að þeir sýni þessu áhuga. Það þarf frekari rannsóknir og það þarf að liggja nokkuð ljósara fyrir fyrir þessa erlendu aðila hvernig botnlögum er háttað og endurkastsmælingarnar eins og hópurinn gerði ráð fyrir. Því vænti ég þess, hæstv. iðnrh., að sett verði aukafjárveiting í þetta mál og farið að tillögum hópsins sem gerði ráð fyrir því að á þessu ári yrðu a.m.k. 7 millj. settar í verkefnið. Allt of langur tími hefur liðið og við höfum verið allt of lengi í óvissunni um hvað er raunverulega að gerast, hvernig eru setlög við Norðurlandið, hvað er þar undir. Þau eru a.m.k. nógu þykk. Talið var að ef þau væru einn metri eða þykkari væri full ástæða til að hefja frekari rannsóknir á olíu en komið hefur í ljós að þarna er allt upp í þriggja til fjögurra metra þykk setlög þannig að full ástæða er til að taka málið föstum tökum og kynna það fyrir erlendum aðilum, fá þá í samstarf með okkur og eyða óvissunni.