Landgrunnsrannsóknir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:28:34 (4295)

1999-03-03 15:28:34# 123. lþ. 77.5 fundur 539. mál: #A landgrunnsrannsóknir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Sem svar við þeim fyrirspurnum sem hafa komið fram í þeim athugasemdum sem hv. þm. hafa gert er í fyrsta lagi spurt um hvernig sá áhugi lýsir sér hjá þeim erlendu fyrirtækjum sem hafa sýnt áhuga. Eins og ég sagði í svari mínu hafa tvö erlend fyrirtæki látið áhuga í ljós á því að fá að koma hingað og kanna svæðið sem er ótvírætt innan íslenskrar efnahagslögsögu. Annað þessara fyrirtækja hefur komið hingað til lands til að kynna sér gögn og er í stöðugu sambandi við þá aðila sem fara með þessi mál. Hitt fyrirtækið hefur sýnt minni áhuga en lætur öðru hverju til sín heyra í þessum efnum.

Mjög mikilvægur þáttur í þessu er að mínu viti sá að þeim fyrirspurnum sem fram hafa komið í þessum efnum á undanförnum árum hefur ekki verið mætt nægilega skýrt og markvisst af hálfu okkar. Til þess hefur skort að einhverju leyti ákveðinn samráðsvettvang þar sem þessi mál eru ekki bara á sviði eins ráðuneytis, þau snerta svið nokkurra ráðuneyta. Get ég nefnt utanrrn., iðnrn. í þessu tilfelli sem fer með orkumálin og Orkustofnun, af þeirri ástæðu að þarna er líka um það að ræða að við höfum verið þátttakendur í rannsóknaverkefnum á undangengnum árum í samstarfi við aðrar þjóðir. Þar af leiðandi þurfum við að hafa rétt til að opinbera gögn sem snúa að þeim svæðum sem við erum ekki beinir aðilar að eða deila er um að við hugsanlega eigum rétt á. Þetta tengist líka alþjóðasamningum um hve langt við getum gengið í slíkri leit. Þessi samráðsvettvangur Orkustofnunar, iðnrn. og utanrrn. er því mjög mikilvægur vettvangur til að erlendir aðilar sem sýna áhuga geti haft beinan aðgang og komist í samband við íslensk stjórnvöld.

Ég skil að hv. þm. er vonbrigði að ekki skuli hafa verið settir meiri peningar í málið en þessar 2 millj. kr. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hvort sem eru 2 millj. eða 50 millj. séu það svo litlir peningar miðað við það sem við þurfum til að geta farið af stað með rannsóknir að ekki skipti höfuðmáli hvor upphæðin sé. (Forseti hringir.) Ég sé fram á að, því miður, með leyfi forseta, örstutt, tvö orð til viðbótar, hæstv. forseti.

(Forseti (ÓE): Tvö orð.)

Að við Íslendingar munum ekki geta staðið undir þessum rannsóknum. Við þurfum að leita samstarfs við erlend olíufyrirtæki á þessu sviði ef við ætlum að ná verulegum árangri og það verður hlutverk þessa samráðsvettvangs að leita slíks samstarfs.