Eftirlit með almennri heilsu tiltekinna aldurshópa

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:35:22 (4297)

1999-03-03 15:35:22# 123. lþ. 77.10 fundur 460. mál: #A eftirlit með almennri heilsu tiltekinna aldurshópa# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnirnar eru athyglisverðar. Fyrst er spurt: ,,Telur ráðherra að til greina komi að boða alla einstaklinga tiltekins aldurshóps (t.d. 40 ára) til almenns eftirlits með heilsufari?``

Í byrjun 6. áratugarins kom fram mikill áhugi meðal lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna á því að boða fólk reglulega í heilbrigðiseftirlit. Reynsla og vísindalegar rannsóknir sýndu hins vegar að gagnsemi þess fyrir einstaklinginn sjálfan var takmörkuð. Meðal annars var talin hætta á að vekja ástæðulausan ótta gagnvart ákveðnum áhættuþáttum. Hópskoðanir af þessu tagi hafa hins vegar ákveðið vísindalegt gildi þar sem niðurstöður nýtast fyrst og fremst til ákvarðanatöku á landsvísu.

Mjög umfangsmiklar rannsóknir hafa farið fram á gagnsemi kembileitar og ákveðnar leiðbeiningar liggja fyrir um framkvæmd slíkrar leitar hjá einkennalausum einstaklingum. Þær leiðbeiningar hafa m.a. verið mótaðar af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Viðmiðanir stofnunarinnar byggja m.a. á að meta gagnsemi almennrar sjúkdómsleitar annars vegar og meðferðar eftir að einkenni eru komin fram hins vegar. Jafnframt er litið til þess hvort til sé meðferð við þeim sjúkdómi sem leitað er að og hvort siðferðilega og fjárhagslega sé réttlætanlegt að beita slíkri hópleit.

Þessar viðmiðanir hafa verið hafðar að leiðarljósi hér á landi og þær hópskoðanir sem hér eru viðhafðar byggja á leiðbeiningum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni og niðurstöðum vísindamanna. Reynsla og rannsóknir, m.a. á Íslandi, hafa sýnt að yfir 90% allra íbúa landsins leita til lækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna einhvern tíma á tveggja ára tímabili. Slíkar heimsóknir gefa mjög gott tækifæri til heilsuverndar, t.d. mælinga á blóðþrýstingi og blóðfitu. Þessi mikla aðsókn fer nærri því að samsvara skipulagðri innköllun. M.a. af þeirri ástæðu er ekki talið rétt að kalla ákveðna aldurshópa kerfisbundið inn til að fylgjast með heilsufari þeirra.

Þingmaðurinn spyr hver kostnaður yrði við þetta. Ekki hefur farið fram nákvæm rannsókn á kostnaði við slíka kembileit sem hann ýjaði hér að. Hv. þm. spyr einnig hverjir gætu annast slíkt eftirlit. Framkvæmd hópleita fer í dag aðallega fram á vegum heilsugæslustöðva um land allt en einnig á sérhæfðum leitarstöðvum og göngudeildum, t.d. hjá Krabbameinsfélagi Íslands og hjá Hjartavernd svo eitthvað sé nefnt. Verði ákveðið að koma á fót nýjum hópleitum að sjúkdómum má gera ráð fyrir að sömu eða hliðstæðir aðilar mundu annast þær.

Virðulegi forseti. Að lokum spyr hv. þm. hvort ráðherra telji að sparnaður hlytist af slíkum aðgerðum til lengri tíma. Heilbrrn. hefur fylgst náið með allri alþjóðlegri umræðu um hópleitir, bæði í einstökum löndum sem og á vettvangi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Rannsóknir sem gefa marktækt til kynna gagnsemi og sparnað vegna hópleita hjá einkennalausum þarf oft að gera hjá mjög stórum hópum og hafa því íslensk heilbrigðisyfirvöld tekið mið af alþjóðlegum leiðbeiningum um þessi mál. Árangur af ofangreindum hópleitum, þ.e. leit að legháls- og brjóstakrabbameini og ungbarna- og mæðravernd, er óumdeildur og vandlega er fylgst með nýjustu rannsóknum á þessum sviðum.