Eftirlit með almennri heilsu tiltekinna aldurshópa

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:41:21 (4299)

1999-03-03 15:41:21# 123. lþ. 77.10 fundur 460. mál: #A eftirlit með almennri heilsu tiltekinna aldurshópa# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Mér fannst svör ráðherra vera nokkuð misvísandi miðað við þessar ágætu spurningar sem hér eru lagðar fram. Ég minnist þess að allt til ársins 1970 var mjög algengt að áhafnir skipa voru kallaðar til læknisskoðunar. Oftar en ekki kom í ljós að sitthvað amaði að heilsu manna sem var þá lagfært. Það var fyrirbyggjandi. Þetta var á árunum eftir berklaveikina og þegar menn sáu að hún rénaði hættu atvinnurekendur, útgerðarmenn, að láta sjómenn fara til árlegrar læknisskoðunar. Hins vegar er það mjög algengt á Norðurlöndum að þetta sé gert og hvers vegna? Vegna þess að ef menn veikjast úti á hafi þá er erfitt að leita læknis samstundis. Ég tel að þetta sé athyglisvert og eðlilegt að atvinnurekendur tækju upp þann hátt að einu sinni á ári kæmu allir starfsmenn til læknisskoðunar, þótt ekki væri verið að leita að ákveðnum sjúkdómi, heldur til að fyrirbyggja það sem viðkomandi veit kannski ekki af en kæmi í ljós við læknisskoðun.