1999-03-03 15:49:13# 123. lþ. 77.6 fundur 554. mál: #A viðbrögð Landsbanka og Búnaðarbanka við úrskurði kærunefndar jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi: ,,Hvað hafa stjórnendur Landsbanka og Búnaðarbanka gert til að framfylgja úrskurði kærunefndar jafnréttismála frá 30. desember sl. þess efnis að sá afgerandi munur sem væri á bifreiðastyrkjum til kynjanna innan bankanna bryti í bága við jafnréttislög og þeim tilmælum að viðunandi lausn yrði fundin á málinu?``

Svörin eru mismunandi en byggja á upplýsingum frá hvorum banka um sig. Stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hafa farið vandlega yfir fyrrnefndar úrskurð kærunefndar. Sérstaklega hefur verið kannað hvernig launagreiðslur bankans í dag falla að úrskurði nefndarinnar sem fjallaði um greiðslur ársins 1997. Stjórnendur bankans leggja áherslu á að öll ákvæði jafnréttislaga séu virt í starfsemi bankans og fylgjast með að svo verði gert áfram.

Í svörum bankans til kærunefndar jafnréttismála vegna þessa máls var lögð áhersla á að svara öllum spurningum nefndarinnar sem frekast var kostur án þess að trúnaður við starfsmenn væri brotinn og þær skýru reglur sem fylgt er við ákvörðun bifreiðastyrks.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er ákvörðun um greiðslu bifreiðastyrks hluti af kjarasamningi viðkomandi starfsmanns. Til viðmiðunar eru hafðir þættir eins og eðli og mikilvægi viðkomandi starfs. Skýrar reglur eru í bankanum um hvaða starfsmenn fái slíkar greiðslur og hversu háar.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum var það trú forsvarsmanna Landsbankans að gefnar hefðu verið fullnægjandi skýringar til kærunefndar jafnréttismála og að þar hefði komið fram að fjárhæð bifreiðastyrks réðist alfarið af eðli starfs viðkomandi en hefði ekki áhrif hvort karl eða kona gegndi því starfi.

Í Landsbankanum hefur nú verið skipuð jafnréttisnefnd og samþykkt hefur verið jafnréttisáætlun sem unnin var af fulltrúum stjórnenda bankans og stjórnar Félags starfsmanna Landsbanka Íslands hf. Í jafnréttisáætluninni eru sett ýmis töluleg markmið, svo sem markmið um að jafna stöðu kynjanna í stjórnunarstöðum. Mun nefndin hafa aðgang að öllum gögnum sem hún telur nauðsynleg í starfi sínu.

Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarbankanum hefur stjórn bankans farið yfir úrskurð kærunefndar jafnréttismála. Jafnframt hefur verið skoðað sérstaklega hvernig þessum greiðslum er háttað í dag. Bankinn leggur áherslu á að jafnréttislögum sé fylgt og að í bankanum sé í gildi jafnréttisáætlun sem unnin var í samvinnu við stjórn starfsmannafélagsins.

Í svörum bankans til Skrifstofu jafnréttismála vegna umrædds máls var lögð áhersla á að skýra fyrirkomulag fastra bifreiðastyrkja hjá bankanum án þess þó að trúnaður um launakjör viðkomandi starfsmanna væri brotinn. Í upplýsingum bankans til Skrifstofu jafnréttismála kom fram að regla bankans við greiðslu bifreiðastyrkja væri að fastur bifreiðastyrkur væri eftir starfsheitum, stöðu og eðli starfs. Kynferði hefði engin áhrif á þessar greiðslur né önnur launakjör.

Það var trú bankans að fullnægjandi upplýsingar hefðu verið gefnar til að skýra stöðu þessara mála hjá bankanum. Taldi bankinn að upplýsingum hefði verið komið skýrt á framfæri og að bifreiðastyrkir væru greiddir starfsmönnum án tillits til kynferðis.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum kom niðurstaða kærunefndar stjórn bankans í opna skjöldu og af þeim sökum hefur bankinn tekið saman viðbótarskýringar, studdar enn ítarlegri gögnum þar sem bifreiðagreiðslur til starfsmanna eru enn á ný raktar. Bankinn telur að ákvæðum jafnréttislaga sé framfylgt innan bankans og fullyrðir nú sem fyrr að ekki sé gerður greinarmunur á kynjum við ákvörðun fastra bifreiðastyrkja né annarra launakjara.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hvernig hyggst ráðherra tryggja að þessi launamismunur verði leiðréttur, sbr. 5. og 6. gr. jafnréttislaga?``

Hvað varðar aðra spurningu vísa ég til svars bankans við fyrstu spurningunni. Bankarnir sjálfir hafa gripið til aðgerða í því augnamiði að framfylgja úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Báðir bankarnir telja að ákvæði jafnréttislaga séu ekki brotin í starfsemi þeirra.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Telur ráðherra í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu að þörf sé á að mótaðar verði reglur í bönkum og öðrum innlánsstofnunum sem tryggi að ákvarðanir um bílastyrki og önnur hlunnindi byggist á hlutlausum og gegnsæjum viðmiðunum og komi þannig í veg fyrir að starfsmönnum sé mismunað eftir kynferði?``

Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum byggja ákvarðanir um bílastyrki og önnur hlunnindi á hlutlausum gegnsæjum viðmiðunum, þ.e. atriðum er lúta að starfi viðkomandi starfsmanns. Í því sambandi skiptir ekki máli hvort um er að ræða konu eða karlmann. Það hlýtur ætíð að teljast til bóta þegar reglur um launagreiðslur og önnur hlunnindi byggja á hlutlausum og gegnsæjum viðmiðunum. Slíkt tryggir jafnræði. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um bankana.