1999-03-03 15:54:03# 123. lþ. 77.6 fundur 554. mál: #A viðbrögð Landsbanka og Búnaðarbanka við úrskurði kærunefndar jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:54]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil lýsa furðu minni á svörum hæstv. viðskrh. Hér er verið að spyrja hæstv. ráðherra um viðbrögð hans við því sem kærunefndin úrskurðaði, að bankarnir hefðu brotið jafnréttislög. Hæstv. ráðherra lætur nægja að lesa upp einhver svör frá Landsbankanum og Búnaðarbankanum þar sem bankarnir fullyrða sjálfir að þeir brjóti ekki jafnréttislög og virði ákvæði jafnréttislaga og að þeir hafi skipað jafnréttisnefnd til þess að fylgja slíku eftir.

Kærunefnd jafnréttismála hefur unnið mjög vel að þessu máli í marga mánuði samkvæmt ákvæðum jafnréttislaga sem eru sett á Alþingi. Meðal annars er það hlutverk hennar að fylgjast með því hvort þessi lög séu brotin, fara yfir það hvort hlunnindagreiðslur og fleiri þættir í kjörum fólks brjóti í bága við ákvæði jafnréttislaga. Kærunefnd kemst að þeirri niðurstöðu að afgerandi munur sé á bifreiðastyrkjum til kynjanna innan Búnaðarbankans og Landsbankans sem brjóti í bága við jafnréttislög.

Hægt er að fara yfir ýmislegt í svörum sem ráðherra kom með fyrir þingið á síðasta ári sem staðfestir að um brot á jafnréttislögum sé að ræða og kærunefndin hefur staðfest í úrskurði sínum.

Maður spyr: Til hvers er kærunefnd jafnréttismála ef stofnanir innan kerfisins geta síðan bara svæft úrskurðinn og fullyrt að þær brjóti ekki jafnréttislög? Ráðherrann kemur og segir að þetta sé hluti af kjarasamningi viðkomandi starfsmanns. Þó að þetta sé hluti af kjarasamningi viðkomandi starfsmanns hafa bankarnir engan rétt til þess að brjóta jafnréttislög og mismuna fólki.

Nú þegar bankarnir ætla ekkert að gera með úrskurð kærunefndar jafnréttismála hlýtur að koma til kasta hæstv. viðskrh. í þessu efni. En hæstv. viðskrh. ætlar greinilega að hunsa jafnréttislög. Ég spyr herra forseta að því hvort það sé virkilega svo að ráðherrann ætli að láta sér nægja þessar skýringar frá Landsbanka og Búnaðarbanka og aðhafast ekkert í málinu. Ég krefst svara við því, herra forseti.