Vísindasiðanefnd

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:14:31 (4317)

1999-03-03 18:14:31# 123. lþ. 77.12 fundur 507. mál: #A vísindasiðanefnd# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:14]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spyr um vísindasiðanefnd. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. er formaður vísindasiðanefndar, sem starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, Guðmundur Þorgeirsson, dósent og yfirlæknir á Landspítalanum. Hann á einnig sæti í vísindalegri ráðgjafarnefnd Íslenskrar erfðagreiningar.

[18:15]

Með fsp. virðist gefið til kynna að seta í vísindalegri ráðgjafarnefnd Íslenskrar erfðagreiningar samræmist ekki setu í vísindasiðanefnd. Það er að mínu mati röng túlkun. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 449/1997, er heilbr.- og trmrh. ætlað að skipa sjö manna vísindasiðanefnd til fjögurra ára í senn til að fjalla um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Sex nefndarmanna eru skipaðir eftir tilnefningu og varamenn tilnefndir af sömu aðilum. Með tilnefningu er ætlunin að tryggja að þeir sem sæti eigi í vísindasiðanefnd hafi tengsl við þær stofnanir sem stunda rannsóknir á heilbrigðissviði hér á landi og þekki vel til þeirrar starfsemi sem þar fer fram.

Hv. þm. taldi sjálfur upp hverjir tilnefna í þessa sex manna nefnd og ég ætla ekki að endurtaka það. Það er augljóslega talinn kostur að þeir sem sæti eiga í vísindasiðanefnd hafi víðtæka þekkingu á rannsóknarviðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar og njóti virðingar og trausts til þess að koma þar víða að verki. Þær hæfu einstaklingar sem skipa vísindasiðanefnd eru flestir virkir í vísindastörfum og hafa þannig mjög sterk tengsl við vísindasamfélagið í landinu. Það er mjög mikilvægt og á engan hátt til þess fallið að draga úr hæfni þeirra að skipa nefndina.

Samkvæmt upplýsingum frá vísindasiðanefnd koma flestar umsóknir til nefndarinnar frá aðilum sem starfa eða stunda nám við Háskóla Íslands og stóru sjúkrahúsin og er það í fullu samræmi við það sem búist var við þegar vísindasiðanefnd var skipuð á grundvelli laganna um réttindi sjúklinga. Við alla meðferð umsókna, sama frá hverjum þær berast, gilda að sjálfsögðu hæfisreglur stjórnsýslunnar. Og það skiptir auðvitað mestu máli að farið sé eftir þeim reglum, sama um hvaða nefndarmann eða umsækjanda er að ræða. Þannig taki nefndarmaður ekki þátt í afgreiðslu umsókna sem viðkomandi á einhvern hlut í.

Ég vona að þetta svar fullnægi þeirri spurningu sem lögð var fram.