Vísindasiðanefnd

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:17:52 (4318)

1999-03-03 18:17:52# 123. lþ. 77.12 fundur 507. mál: #A vísindasiðanefnd# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að þingheimur hafi gert sér ljóst hvað hér kom fram hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra hefur skipað sem formann vísindasiðanefndar, einstakling sem jafnframt á sæti í vísindaráði Íslenskrar erfðagreiningar. Þarna er um að ræða virtan yfirlækni við Landspítalann, Guðmund Þorgeirsson, og ætla ég honum ekkert misjafnt þó að þessi staðreynd sé dregin hér fram enda ábyrgðin á hendi hæstv. ráðherra sem skipar viðkomandi formann.

Í ljósi þess sem kom fram hjá ráðherra tel ég að haldið hafi verið gersamlega óhæfilega á þessu máli. Hér er verið að skipa formann vísindasiðanefndar sem hefur hlutverki að gegna, mjög mikilvægu hlutverki, í sambandi við lögin um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði, sem ætlað er að vera vöktunaraðili þess að allt fari fram eftir settum reglum og kröfum um rétta siðu, að siðfræðilegra viðhorfa sé gætt. Og þá er sama aðilanum og á sæti í vísindalegu ráði deCODE Genetics eða Íslenskrar erfðagreiningar ætlað að fjalla sem formaður vísindasiðanefndar um þau fjölmörgu atriði sem hljóta að koma inn á borð nefndarinnar frá deCODE Genetics.

Þetta eru slíkir starfshættir af hálfu hæstv. ráðherra að ég á satt að segja engin orð yfir það að hæstv. ráðherra skuli koma hér og verja þessa gjörð sína í staðinn fyrir að lýsa því yfir að þessi gjörningur verði leiðréttur við fyrsta tækifæri á einhvern þann hátt sem viðunandi getur talist, einmitt í ljósi þeirra sjálfsögðu reglna sem hæstv. ráðherra nefndi í lok svars síns.