1999-03-03 18:30:06# 123. lþ. 77.13 fundur 508. mál: #A tengsl heilbrigðisstétta við rekstrarleyfishafa gagnagrunns á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:30]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Í sambandi við þessar umræður um upplýst samþykki vil ég vekja athygli þingheims á svari sem fyrst nú hefur borist við fsp. sem sá sem hér stendur lagði fram fyrir jól. Í því svari kemur fram að upplýsingar eru látnar ganga úr sjúkraskrám heilbrigðisstofnana til Krabbameinsfélags Íslands og þessar upplýsingar eru nýttar til skýrslugerðar, hafa verið samkeyrðar með öðrum gagnagrunnum, svo sem ættfræðilegum grunnum. Þetta hefur alltaf verið gert án upplýsts samþykkis. Ég hvet þingmenn til þess að kynna sér þetta svar vegna þess að það varpar mjög skýru ljósi á það hvernig farið hefur verið með upplýsingar úr sjúkraskýrslum hingað til og hversu mikil hætta er á því að ef menn setja mjög ströng ákvæði um þetta, um upplýst samþykki, þá muni það einnig hefta starfsemi Krabbameinsfélagsins og annarra þeirra sem vinna úr slíkum upplýsingum.