Ofbeldi gegn gömlu fólki

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:42:55 (4331)

1999-03-03 18:42:55# 123. lþ. 77.14 fundur 518. mál: #A ofbeldi gegn gömlu fólki# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:42]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseta. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þær spurningar sem hún lagði fram. Í framhaldi af því sem hv. 16. þm. Reykv. kom inn á varðandi ofbeldi, þá getur það legið í fjölmörgu öðru en því sem ætla má að hér sé verið tala um, þ.e. líkamlegt ofbeldi eða andlegt. Kem ég þá kannski að því að ég hef í nokkur ár flutt þáltill. um umboðsmann aldraðra, en til hans gæti leitað starfsfólk öldrunarstofnana vegna ofbeldis sem kannski felst í því að krafist er eignaumskipta, ef ættingjar krefjast jafnvel umráðaréttar yfir fjármunum. Þess eru jafnvel dæmi að leitað hafi verið til starfsfólks á öldrunarheimilum eða hjúkrunarheimilum og það beðið um vottun á gögn vegna fjármála eða vegna eignaskipta. Málið er umfangsmikið, mjög flókið og mjög erfitt en vissulega er full ástæða til þess að ráðuneytið og hæstv. heilbrrh. taki á því og leggi nokkra vinnu í það að greiða úr þessu vandamáli sem er mjög víðfeðmt.