Ofbeldi gegn gömlu fólki

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:44:32 (4332)

1999-03-03 18:44:32# 123. lþ. 77.14 fundur 518. mál: #A ofbeldi gegn gömlu fólki# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:44]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Um leið og ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin vil ég segja að auðvitað er það rétt sem hér hefur komið fram að ofbeldi gagnvart gömlu fólki getur verið mjög víðtækt. Ég man sjálf eftir að hafa heyrt um dæmi af þeim toga sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, þar sem gömul kona hafði verið þvinguð til að selja eignir sínar og þar átti sonur hennar í hlut. Það vill oft verða svo að völdin eru einfaldlega tekin af gömlu fólki. En það sem ég er fyrst og fremst að fiska eftir og finnst að þurfi að skoða sérstaklega er ekki síst líkamlegt og andlegt ofbeldi sem einkum nánustu ættingjar beita gamalt fólk. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að það þarf að fræða fólk um þetta, það þarf að finna leiðir til að kanna þetta því að það er ábyggilega mjög erfitt að nálgast þetta mál. Eftir því sem norsk kona sem var að rannsaka þetta sagði mér þá var eitt einkennið einfaldlega þegar börn viðkomandi hreinlega misstu stjórn á sér gagnvart foreldri sínu sem var svo erfitt, gamalmenni sem var mjög erfitt viðureignar. Það eru því ákaflega margar hliðar á þessu.

Síðan eru líka til önnur dæmi um börn sem kúga fé af foreldrum sínum og beita þau líkamlegu ofbeldi, t.d. þegar sonur eða dóttir býr með fullorðnu foreldri. Þetta þarf allt að kanna mjög rækilega. Þarna er einfaldlega um að ræða enn eina myndina af ofbeldi sem þrífst í samfélaginu og sem maður hefði ekki ímyndað sér fyrir nokkrum árum að væri til. Þetta þurfum við að kanna í okkar samfélagi eins og í öðrum löndum. Vonandi er þetta minna hér en annars staðar. En því miður hef ég staðfest dæmi um að slíkt ofbeldi er til staðar.