Stefnumótun í málefnum langveikra barna

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:55:24 (4335)

1999-03-03 18:55:24# 123. lþ. 77.15 fundur 553. mál: #A stefnumótun í málefnum langveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:55]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Það er alveg ljóst að nefndin hefur haft mjög stuttan tíma til þess að fjalla um málið og þessa stefnumótun. Það ber auðvitað að harma að í hálft ár hafi dregist að skipa þessa nefnd sem Alþingi samþykkti í júní í fyrra að skyldi strax skipuð og átti hún að skila af sér um síðustu áramót. Það er því ekki fyrr en um það leyti sem hún á að fara að skila af sér að ráðherra skipar nefndina, og ég tel það ámælisvert.

Engu að síður er ég alveg sammála hæstv. ráðherra um að þessi nefnd er mjög vel skipuð og miðað við að hún hefur ekki haft lengri tíma til þess að fjalla um málið þá hefur hún örugglega unnið mjög gott verk. Málið tekur vissulega yfir mörg svið bæði félagsmála, heilbrigðismála, menntamála og tryggingarmála, og ég hefði kosið að ráðherrann hefði eytt einhverjum tíma í að skýra okkur frá því hvað væri á döfinni og hvað væri fram undan í þessum málum vegna þess að hæstv. ráðherra nefndi að tillögur nefndarinnar kölluðu á ýmsar lagabreytingar. Þannig að það segir okkur strax að sýnt er að þessi tillöguflutningur mun skila einhverjum árangri í því að bæta stöðu langveikra barna og það er auðvitað það sem skiptir mestu máli.

Herra forseti. Það hefði að vísu verið mjög æskilegt að ráðherrann hefði skipað nefndina fyrr þannig að við hefðum frá áramótum getað verið að fjalla um stefnumótun í málefnum þessara barna og þær lagabreytingar sem ráðherrann nefndi að lægju á borði nefndarinnar. En við því er ekkert að gera. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að nefndin hefur haft mjög stuttan tíma til að fjalla um málið. En auðvitað er mikilvægast að þegar niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir geti þingið fjallað um það eins fljótt eins og mögulegt er og að við sammælumst um að hraða því að koma á úrbótum í málefnum þessara barna.