Löggæslumenn í Kópavogi

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:59:11 (4337)

1999-03-03 18:59:11# 123. lþ. 77.16 fundur 506. mál: #A löggæslumenn í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MagnM
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:59]

Fyrirspyrjandi (Magnús Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég hef hér undir höndum upplýsingar frá lögreglunni í Kópavogi frá 4. febrúar á þessu ári. Þar kemur fram að málafjöldi hjá þeirri stofnun var á árinu 1998 samkvæmt skrá lögreglunnar 4.917 mál, sem er að meðaltali 13,4 á dag. Í Kópavogi er ástandið þannig að fjöldi íbúa á hvern lögreglumann er nú 855 en fjöldi íbúa á hvern lögreglumann samkvæmt landsmeðaltali er nú 493, og eru þá taldir með þeir lögreglumenn sem starfa hjá sýslumannsembættunum og lögreglustjóraembættinu í Reykjavík.

Kostnaður við rekstur lögreglunnar í Kópavogi er um 4.815 kr. á íbúa en samkvæmt landsmeðaltali er kostnaður á íbúa talsvert hærri eða milli 8 og 9 þús. kr. Íbúafjöldi í Kópavogi var 1. des. 1998 21.376 en í lögregluliði Kópavogs starfa nú 25 lögreglumenn.

Við fjárlagagerð undanfarinna ára hefur verið farið fram á fjölgun lögreglumanna en ekki hefur fengist samþykkt fyrir því. Því var það svo að bæjarráð Kópavogs sendi frá fundi sínum 4. febr. 1999 eftirfarandi bókun, með leyfi forseta:

,,Bæjarráð samþykkir að beina þeirri áskorun til dómsmálaráðherra að fjölga löggæslumönnum í Kópavogsbæ. Í dag eru 855 íbúar á hvern starfandi löggæslumann í bæjarfélaginu, en landsmeðaltal er 493 íbúar á hvern löggæslumann. Fjöldi stöðugilda hjá sýslumannsembættinu hefur haldist óbreyttur í nær tíu ár á meðan íbúum bæjarins hefur fjölgað um sex þúsund manns.``

Því beini ég fyrirspurn minni, í framhaldi af þessu sem vakti athygli mína, til dómsmrh. um löggæslumenn í Kópavogi:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við áskorun bæjaryfirvalda í Kópavogi um fjölgun löggæslumanna þar í bæ og þeirri staðreynd að fjöldi þeirra hefur staðið í stað síðasta áratuginn á meðan íbúum bæjarins hefur fjölgað um fjörutíu af hundraði?