Löggæslumenn í Kópavogi

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:05:28 (4339)

1999-03-03 19:05:28# 123. lþ. 77.16 fundur 506. mál: #A löggæslumenn í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MagnM
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:05]

Fyrirspyrjandi (Magnús Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör. Ég skildi hann á þá leið að fyrir dyrum væri allsherjaruppstokkun á löggæslumálum á Stór-Reykjavíkursvæðinu þar sem stefnt yrði að meiri samnýtingu lögregluliðsins en hingað til hefur verið.

Við verðum að skoða þetta í samhengi við ástandið eins og það er í dag. Kópavogur er annað stærsta sveitarfélag landsins og hefur vaxið gríðarlega hratt á síðasta áratug og kannski eðlilegt að menn hafi ekki náð að halda alveg í við þann mikla vöxt. Það er annað sem einkennir Kópavog nú, sem svæði sem byggst hefur mjög hratt upp á undanförnum árum, að þar er mikið af ungu fólki og reynslan hefur sýnt okkur að á slíkum svæðum er oft hætta á meiri erfiðleikum en ella og jafnvel þörf á meiri afskiptum lögreglu og meira lögregluliði.

Síðan er náttúrlega heimspekileg spurning sem þarf að velta fyrir sér: Hver er rétt íbúatala að baki hverjum lögreglumanni? Það er spurning hvort ,,optimal-talan``, ef ég má nota það orð, er í kringum 400, eins og gefið er í skyn í umsögn ríkislögreglustjóra. En ég veit að yfirvöld á þessu svæði hafa áhyggjur af málinu og ég tel rétt að brugðist sé við þeim áhyggjum og vona að þetta svar hæstv. dómsmrh. í dag gefi fyrirheit um betri tíð.