Áfengiskaupaaldur

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:10:58 (4342)

1999-03-03 19:10:58# 123. lþ. 77.17 fundur 552. mál: #A áfengiskaupaaldur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:10]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Því miður fór það svo að það dróst um nokkurra mánaða skeið að leita eftir tilnefningum og skipa nefndina og því hefur dregist að hún kæmi með niðurstöður. En nefndin er að störfum og vinnur að tillögum um það efni sem henni var falið að kanna. En niðurstöður liggja ekki enn fyrir.

Ljóst er að álitaefni það sem hér um ræðir hefur margar hliðar sem þarf að skoða mjög nákvæmlega eins og hv. fyrirspyrjandi gat um þegar vitnað var til þeirra forsendna og forskriftar sem nefndinni var falið af Alþingi á liðnu vori. Málið er þess vegna nokkuð flókið úrlausnarefni.

Það er einsýnt að mínu mati að þá verður ekki hrapað að niðurstöðu og með hliðsjón af þeirri staðreynd hefur nefndin aflað gagna mjög víða, bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Verið er að kanna erlenda löggjöf um áfengismál og áfengiskaupaaldur, sérstaklega þó löggjöf í nágrannaríkjum okkar. Það er líka mikilvægt að mati nefndarinnar að draga lærdóm af þeirri reynslu sem fengist hefur hjá öðrum þjóðum.

Þá hefur nefndin snúið sér til Ingu Dóru Sigfúsdóttur hjá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála en hún vinnur um þessar mundir að samantekt rannsókna sem gerðar hafa verið um áfengisneyslu og drykkjuvenjur íslenskra ungmenna. Það er mat nefndarinnar að mikilvægt sé að fá niðurstöður úr þessari samantekt þannig að þær liggi fyrir áður en nefndin kemst að niðurstöðu og skilar skýrslu og tillögum um þetta efni. Ég vænti þess að nefndarstarfinu verði hraðað svo sem föng eru á en tek undir að mikilvægt er að þessar kannanir verði gerðar og samantekt á þeim könnunum sem fyrir liggja sé ljós þannig að nefndin geti byggt niðurstöður sínar á efnislegum staðreyndum og dregið lærdóm af þeirri vitneskju sem fyrir liggur og af þeirri reynslu sem nágrannaþjóðir okkar hafa fengið í þessum efnum.