Samstarf mennta- og sjúkrastofnana til að bæta úr læknaskorti

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:39:29 (4352)

1999-03-03 19:39:29# 123. lþ. 77.18 fundur 530. mál: #A samstarf mennta- og sjúkrastofnana til að bæta úr læknaskorti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:39]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Starf lækna í dreifbýli hefur um margt sérstöðu og þess vegna tek ég undir þessa fyrirspurn hv. þm. Tómasar Inga Olrichs um mikilvægi þess að efla kennslu í heimilislækningum með þá lækna í huga sem vilja starfa úti á landi. Í yfirstandi viðræðum sem Félag ísl. heimilislækna á við heilbr.- og trn. er einmitt verið að fjalla um þetta atriði, enda er nýliðun í heimilislækningum eitt helsta verkefni félagsins um þessar mundir. Koma Rogers Strassers var þungt lóð á vogarskálarnar í þessu sambandi.

Fyrirspurn hv. þm. rímar vel við fyrirspurn mína til hæstv. heilbr.- og trmrh. og þess vegna hef ég fylgst með þessum umræðum af áhuga. Ég vil hvetja til þess að að undirbúningnum komi líka þeir fulltrúar sem stofnað hafa með sér Félag dreifbýlislækna því að þeir hafa ýmislegt að segja sem getur gagnast við undirbúning málsins.

Að lokum vil ég segja að reyndar eru hátt í tíu læknar að ljúka eða eru í námi í heimilislækningum núna og allmargir eru starfandi á erlendri grund þannig að þó að málið sé vandasamt, þá eru fleiri en tveir í þessu námi.