Samstarf mennta- og sjúkrastofnana til að bæta úr læknaskorti

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:40:53 (4353)

1999-03-03 19:40:53# 123. lþ. 77.18 fundur 530. mál: #A samstarf mennta- og sjúkrastofnana til að bæta úr læknaskorti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi TIO
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:40]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir jákvæðar undirtektir við þetta mál og er ánægður með að það er komið á hreyfingu. Ég vil taka það sérstaklega fram að það hefur að sjálfsögðu ýmislegt verið gert til þess að bæta stöðu lækna í dreifbýli. Á það kannski sérstaklega við um sérstakar launaaðstæður þeirra. Hins vegar er alveg ljóst að það þarf að gera starf dreifbýlislæknanna betra. Það þarf að gera því hærra undir höfði, hefja það til vegs og virðingar og gefa þeim möguleika á að stunda jafnvel framhaldsnám frá þeim stöðum þar sem þeir starfa. Ég held einmitt að sá fjarvinnslu- og fjarkennslubúnaður sem nú er að ryðja sér mjög til rúms á Íslandi --- ríkisstjórnin hefur staðið vel að því starfi --- geti orðið mjög mikilvægur í þeirri viðleitni að hefja starf heimilislæknanna almennt, en ekki síst í dreifbýlinu, til vegs og virðingar.

Ég vil einnig þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir hennar góðu ábendingar og stuðning við málið.