Afsal þingmennsku

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 10:35:14 (4356)

1999-03-06 10:35:14# 123. lþ. 79.94 fundur 323#B afsal þingmennsku#, SvG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[10:35]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef komið nokkuð oft í þennan stól áður en flyt nú tiltölulega nýjan boðskap af minni hálfu eftir liðlega 20 ár í þessari stofnun. Ég hef í dag skrifað hæstv. forseta Alþingis svohljóðandi bréf:

,,Þar sem ég hef í dag verið skipaður sendiherra í utanríkisþjónustunni afsala ég mér þingmennsku.

Svavar Gestsson, 8. þm. Reykv.``

Í tilefni af þessu langar mig að þakka hæstv. forseta, hv. alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis öllum fyrir þennan langa tíma sem hefur að mörgu leyti verið býsna skemmtilegur og þýðingarmikill fyrir mig og vonandi að einhverju leyti fyrir aðra líka. Þegar ég hverf héðan kemur svo margt upp í hugann að þó að ég sé vanur því að standa hér lengi, þá tel ég ekki við hæfi að þessu sinni að rifja það upp sem mér kemur helst í hug. Ég mundi verða hér nokkuð langt fram eftir degi. Ég sé að dagskráin er löng og mikið að gera í þessari stofnun eins og gjarnan er þegar þinginu lýkur.

Ég vil þó láta koma fram að ég tel að starfsemi Alþingis hafi þróast í skynsamlega átt á undanförnum árum. Það er ekki hægt að neita því að oft er þingið gagnrýnt fyrir að vera of veikt andspænis framkvæmdarvaldinu. Um það geta menn margt sagt, en um það er of lítið talað að þingið hefur sjálft styrkst mjög verulega. Þingið er að mörgu leyti mun sterkara en það var fyrir þeim 20 árum sem liðin eru frá því að ég tók sæti í þessari stofnun, tvímælalaust. Ég tel að þingið sé að styrkjast og er sáttur við það að hafa átt aðild að því að skrifa niður ásamt ýmsum góðum mönnum --- ég leyfi mér að nefna hæstv. núv. fjmrh. --- dálítið af þeim textum sem nú liggja fyrir varðandi breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Ég tel að þessir hlutir séu í jákvæðri, skynsamlegri þróun í þá átt að styrkja þingræðið.

Þingræðið er undirstaða lýðræðisins í þessu landi. Allt of sjaldan er talað vel um stjórnmálaflokkana og það mikilvæga starf sem þeir vinna; m.a. er of sjaldan talað vel um stjórnmálaflokkana úr þessum ræðustól. Menn þurfa að sameinast um það í framtíðinni að venja sig á að tala eins vel og kostur er um stjórnmálaflokkana.

Hæstv. forseti. Með þessum orðum þakka ég fyrir ánægjulegt samstarf og afhendi þetta litla bréf.