Afsal þingmennsku

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 10:38:19 (4357)

1999-03-06 10:38:19# 123. lþ. 79.94 fundur 323#B afsal þingmennsku#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[10:38]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, hygðist afsala sér þingmennsku áður en þessu kjörtímabili lyki og taka við nýju starfi á erlendum vettvangi. Þingmennskuafsal Svavars Gestssonar eru merk tímamót í lífi hans og einnig tímamót í íslenskum stjórnmálum. Nú hverfur af þingi stjórnmálamaður sem verið hefur í forustuhlutverki á þriðja áratug. Svavar Gestsson hefði verið þingmaður Reykvíkinga síðan 1978, formaður Alþb. var hann 1980--1987 og ráðherrastörfum gegndi hann í tæp sjö ár. Hann hóf raunar þingferil sinn á ráðherrabekk.

Mestallt þetta kjörtímabil hefur Svavar Gestsson verið formaður þingflokks Alþb. Sem slíkur hefur hann átt náið samstarf við forseta og varaforseta Alþingis. Við þessi þáttaskil vil ég færa honum þakkir fyrir þau störf sem hann hefur unnið á vettvangi Alþingis og alveg sérstaklega fyrir ánægjulegt samstarf um skipulag og störf þingsins.

Svavar Gestsson fer héðan með góðar kveðjur frá okkur alþingismönnum og heillaóskir í nýtt starf í þágu íslensku þjóðarinnar á erlendum vettvangi.