Skaðabótalög

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 11:41:46 (4364)

1999-03-06 11:41:46# 123. lþ. 79.5 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# (margfeldisstuðull við bótaútreikning o.fl.) frv. 37/1999, KH
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[11:41]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég get hafið mál mitt með því að endurtaka orð hv. síðasta ræðumanns. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál og miklar réttarbætur sem við vonumst til að fái eðlilegan framgang og verði samþykktar fyrir þinglok. Málið er vissulega stórt og nokkuð torskilið en það hefur fengið mikla og góða umfjöllun í hv. allshn. þótt ekki tækist að standa saman að nál. Ástæðuna hafa síðustu tveir hv. ræðumenn skýrt í máli sínu og er kannski ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum frekar um það.

Markmið frv. er að reyna með öllu móti að tryggja fullar bætur til þeirra sem verða fyrir skaða. Með það að leiðarljósi höfum við farið mjög ítarlega yfir málið. Eins og menn þekkja hafa nokkrar atrennur verið gerðar að þessu máli og þessi endurskoðun ætti að tryggja miklu betur en áður að fólk sem verður fyrir skaða fái fullar bætur. Ég vil ítreka að vilji minni hlutans jafnt og meiri hlutans er sá að frv. verði samþykkt nú fyrir þinglok.

Ég vil einnig leggja áherslu á að mikilvægt er að vel verði fylgst með framkvæmd laganna þannig að ekki fari á milli mála hvernig til hefur tekist. Þá er ég ekki síst að hugsa um það, ef svo illa fer, að Alþingi samþykki ekki þær brtt. sem minni hlutinn gerir við frv.

Við leggjum til tvær brtt. Hv. 17. þm. Reykv. og hv. 13. þm. Reykv. hafa nokkuð fjallað um þær, þ.e. tillögu sem lýtur að 4. gr. frv. þess efnis að draga skuli frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Við leggjum til að þessi setningarhluti falli niður.

[11:45]

Gagnrýni á þetta atriði hefur verið nokkuð hávær og komið frá nokkrum aðilum. Þeirri gagnrýni hefur m.a. verið svarað með því að hér sé um afar fá tilvik að ræða, þar sem þetta varði aðeins þá sem verði fyrir mestri örorku, 50% eða meira. Það hefur verið upplýst að aðeins sé um að ræða fimm til sex tilvik á ári. En, herra forseti, þess þá heldur hefði verið útlátalítið að mæta þessari gagnrýni og taka tillit til hennar, enda mundi það ekki skekkja dæmið að marki. Hér er einmitt um þá að ræða sem síst mega við slíku og fyrir hvern einstakling í þessum hópi eru afar miklir hagsmunir í húfi. Á fundum nefndarinnar var mikið rætt um þann vanda í sambandi við skaðabætur sem kallast ofbætur. Það minnti mig reyndar á það þegar aðsópsmikill framkvæmdastjóri kom að rekstri ónefnds sjúkrahúss og sá að til að spara í rekstrinum væri vænlegast að draga úr ræstingum þar sem spítalinn væri ofræstur, eins og hann orðaði það.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég hef ekki haft þungar áhyggjur af ofbótum. Raunar er varla hægt að tala um að þeir sem verða fyrir slysum séu ofbættir og þaðan af síður þegar slík slys leiða til örorku, 50% eða meira. Ég hef meiri áhyggjur af vanbótum í því efni. Ég tel mjög brýnt að fylgst verði vel með því hvernig þetta sérstaka ákvæði kemur út ef svo illa fer að brtt. okkar í minni hlutanum verður ekki samþykkt. Auðvitað vona ég sannarlega að hv. Alþingi sjái að þar er um réttlætismál að ræða.

Ég ætla ekki að fara frekar út í þetta en skýra aðeins þá tillögu sem er að finna á þskj. 974 og er brtt. við 13. gr. frv. sem er um breytingar á 26. gr. laganna. Við leggjum þar til að við þessa grein bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

,,Við mat á miskabótum vegna kynferðisofbeldis skal sérstaklega taka tillit til eðlis verknaðarins, hversu lengi misnotkunin varaði, hvort verknaðurinn var misnotkun á skyldleikasambandi eða umönnunarsambandi, hvort brotaþoli var háður geranda á einhvern hátt, eða hvort um misnotkun á trúnaðarsambandi var að ræða, og hvort verknaðurinn var framinn á sérlega sársaukafullan eða ærumeiðandi hátt.``

Í skýrslu umboðsmanns barna frá 1997, Heggur sá er hlífa skyldi, sem fjallar um kynferðisafbrot gegn börnum og ungmennum, koma fram vel rökstuddar tillögur um lagabreytingar varðandi meðhöndlun kynferðisafbrotamála. Ekki sakar að minna á frv. sem ég hef þegar mælt fyrir hér á hv. Alþingi og flyt ásamt hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Það er hins vegar um aðra hlið þessara mála og fer ég ekki nánar út í það hér. Ein tillagan sem kom fram í skýrslu umboðsmanns barna er sú að breyta þurfi skaðabótalögunum í þá veru að lögin kveði á um hvaða atriði skuli höfð að leiðarljósi við ákvörðun bótafjárhæðar til barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Í 26. gr. skaðabótalaganna er ekki tilgreint hvaða atriði skuli lögð til grundvallar við ákvörðun skaðabóta. Það hefur því verið háð persónulegu mati dómara hvaða atriði skuli hafa áhrif á upphæð bótafjárhæðar, án þess að þeir hafi haft lagaákvæði að styðjast við. Í rökstuðningi umboðsmanns er m.a. vitnað í hæstaréttardóm nr. 83/1996. Í því máli var kveðinn upp dómur yfir manni sem misnotaði dóttur sína í nokkur ár. Héraðsdómur hafði dæmt barninu 2 millj. kr. í miskabætur en Hæstiréttur lækkaði bæturnar í 1 millj. og rökstuðningurinn var m.a. eftirfarandi:

,,Við ákvörðun skaðabóta úr hendi ákærða ber að taka tillit til skyldleika aðilanna ásamt því að hann mun eftir sem áður bera framfærsluskyldu gagnvart dóttur sinni. Brot ákærða voru alvarleg og til þess fallin að valda mikilli röskun á tilfinningalífi og högum telpunnar, sem vandi er úr að bæta. Hins vegar liggur ekki fyrir að svo komnu í hvaða mæli þær kunni að verða varanlegar fyrir telpuna eða hvort ráða megi bót á þeim.`` Þetta var tilvitnun í rökstuðning með dómi Hæstaréttar.

Í þessu tilfelli hafa dómarar látið það virka til lækkunar bóta að um skyldleika aðila var að ræða og að ákærði bar framfærsluskyldu gagnvart dóttur sinni. Slíkt mat er í algerri mótsögn við það sem vitað er um skaðsemi kynferðisofbeldis fyrir börn. Í frv. um breytingu á skaðabótalögum sem við erum hér að ræða er í athugasemdum við einstakar greinar frv. gerð grein fyrir því hvað hafa beri í huga við mat á miskabótum. Það er út af fyrir sig ágætt. Það er til bóta, en mun tryggara er að setja það atriði inn í sjálfan lagatextann.

Í máli hv. formanns allshn., þegar hún mælti fyrir nál. meiri hlutans, var nokkur umfjöllun um þetta atriði vegna þess að ég lagði þessa brtt. fram fyrir nokkrum vikum. Henni var í sjálfu sér mjög vel tekið en engu að síður treysti meiri hlutinn sér ekki til að styðja brtt. Það þykir mér mjög miður. Ég hafði vænst þess að meiri hlutinn mundi sjá sér fært að gera það, þar sem mér fannst vera samúð með þessu sjónarmiði og skilningur. Því miður varð ekki af því.

Umboðsmaður barna lét bera saman lagatexta hinna Norðurlandanna og hefur mælt með lagabreytingu í stíl við norsku skaðabótalögin. Brtt. sem hér er lögð fram er samhljóða norska textanum. Þau atriði sem áhrif skulu hafa á miskabætur eru í samræmi við niðurstöður umfangsmikilla rannsókna á áhrifum kynferðisofbeldis á börn.

Ég ætla að leyfa mér að segja hér aðeins frá opinberri norskri skýrslu sem ber heitið ,,Seksuelle overgrep mot barn -- Straff og erstatning``. Þar er í viðauka greint frá úttekt sálfræðingsins Anne Paulsen á sálrænum og félagslegum afleiðingum kynferðisofbeldis gegn börnum. Paulsen lýsir hvaða þættir við kynferðislegt ofbeldi hafi þýðingu fyrir umfang og alvarleika skaða á börnum. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að erfitt sé að meta skaðsemi kynferðisofbeldis í smáatriðum og nákvæmlega vegna þess að hvert tilfelli sé einstakt.

Rannsóknir eru tiltölulega nýhafnar á þessu fyrirbrigði og þeim ber ekki alltaf saman. Það er því bæði eðli verknaðarins og rannsóknaraðstæður sem gera það erfitt að draga miklar ályktanir um einstök atriði. Þó má segja að þegar hafi verið komist að ákveðnum niðurstöðum, m.a. þeirri að mesti skaðinn verði þegar um gróft ofbeldi er að ræða, einnig að greinileg tengsl séu á milli skaða og þess hversu náið sambandið er milli barnsins og ofbeldismannsins. Þeim mun nánari sem tengslin eru, því meiri er skaðinn. Aðrir þættir sem skipta máli eru hversu gróft ofbeldi er um að ræða og hvort ofbeldismenn eru fleiri en einn. Gróft ofbeldi gagnvart mjög ungum börnum virðist mjög skaðlegt.

Til að hindra að hæstaréttardómur nr. 83/1996 hafi fordæmisgildi og tryggja að lögin endurspegli þá þekkingu sem fyrir hendi er um afleiðingar kynferðisofbeldis fyrir börn er nauðsynlegt að sjálfur lagatextinn kveði skýrt á um hvaða atriði skuli hafa áhrif við ákvörðun bóta.

Þess ber einnig að geta að umboðsmaður barna sendi umsögn til hv. allshn. sem mér finnst rétt að vitna til. Sú umsögn styður í einu og öllu þessa brtt. og mál mitt um hana. Í þeirri umsögn sem er dags. 10. febr. sl. segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem mér er kunnugt um að á Alþingi hefur verið lagt fram frv. til nýrra skaðabótalaga og sömuleiðis að allshn. hefur nú fengið frv. þetta til meðferðar vil ég leyfa mér að vekja sérstaka athygli hv. allshn. á álitsgerð minni til dómsmrh., dagsettri 16. janúar 1997, þar sem ég legg til breytingar á 26. gr. núgildandi skaðabótalaga, nr. 50/1993.

Í niðurlagi álitsgerðar minnar segir orðrétt:

Með vísan til ofangreinds, sbr. og b-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 83/1994, um umboðsmann barna, beini ég þeirri áskorun til dómsmrh. að við heildarendurskoðun skaðabótalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1996, um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, verði 26. gr. laganna breytt á þann veg að í ákvæðinu verði tilgreind þau atriði sem sérstök áhrif skulu hafa við ákvörðun bótafjárhæðar til barna sem fórnarlamba kynferðisbrota. Einkum er þar um að ræða atriði sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að almennt séu fallin til að hafa áhrif á hversu alvarlegar afleiðingar brot hefur fyrir brotaþola, svo sem eðli verknaðarins, hversu lengi misnotkun hefur varað og ekki síst hvort um sé að ræða misnotkun ættartengsla eða trúnaðartengsla. Slík upptalning ætti að vera til leiðbeiningar fyrir dómstóla en hins vegar ekki tæmandi, þannig að dómstólar hefðu áfram nokkurt svigrúm til einstaklingsbundins mats. Varðandi lagasetninguna tel ég eðlilegt að skoða einnig atriði eins og það hvort taka beri tillit til efnahags tjónvalds og annarra aðstæðna hans.

Bréf þetta ásamt ofangreindri álitsgerð óskast kynnt fyrir allshn. eins fljótt og verða má. Virðingarfyllst, Þórhildur Líndal``.

Út af fyrir sig mætti fara ítarlega í þessa álitsgerð umboðsmanns barna sem vitnað er til hér. Hún minnir m.a. á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem Ísland er aðili að. Þar kemur fram að aðildarríki skuldbinda sig til að vernda börn fyrir hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðislegum tilgangi. Samkvæmt 39. gr. samningsins skulu aðildarríki gera allar viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að því að barn sem sætt hefur vanrækslu, notkun eða misnotkun af nokkru tagi, pyndingum eða annars konar ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða er fórnarlamb vopnaátaka, hljóti líkamlegan og sálrænan bata og aðlagist samfélaginu á ný.

Enn fremur er í ítarlegra máli rökstudd sú skoðun umboðsmanns barna að orða beri lagatextann þannig að þau atriði sem taka beri tillit til þegar dæmt er um slík mál fari ekki á milli mála.

Herra forseti. Mér þykir mjög miður að ekki skyldi nást samstaða í nefndinni um að taka tillit til þessarar brtt. Hún kom nokkuð snemma fram á því tímabili sem við höfum fjallað um lögin. Ég reyndi að rökstyðja hana í allítarlegu máli, koma henni á framfæri til allra nefndarmanna og fá umræðu um hana í nefndinni. Það eru mér því mjög mikil vonbrigði að meiri hlutinn skyldi ekki taka hana til greina. Ég hefði talið það miklu betra ef við hefðum öll getað staðið að þessari brtt. Því miður er það nú oftar en ekki þannig að meiri hluti Alþingis horfir aðeins á það sem kemur frá meiri hluta nefndar og setur sig ekki nægilega vel inn í þann rökstuðning sem minni hlutinn hefur uppi um einstök mál. En ég hef gert mitt til þess að reyna að koma þessum rökstuðningi á framfæri við hv. Alþingi.