Opinberar eftirlitsreglur

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:33:18 (4373)

1999-03-06 12:33:18# 123. lþ. 79.9 fundur 199. mál: #A opinberar eftirlitsreglur# frv. 27/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:33]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. hv. efh.- og viðskn. En það er ekki þar með sagt að ég sé alveg sáttur við þær breytingar sem hv. nefnd gerir. Það er langt í frá. Undir þeim þrýstingi að málið færi í mikla umræðu og vegna þess hve stutt lifir þings þá féllst ég á að skrifa undir nál. en ég tel að þær breytingar sem gerðar hafa verið taki allan brodd úr frv. og svipti það þeim tilgangi að leggja fjárhagslegt mat á gildi eftirlitsins.

Í frv. stóð að meta skyldi hvort ávinningur þjóðfélagsins sé meiri en kostnaðurinn af ákveðnu eftirliti. Enn fremur skyldi meta hvort gildi eftirlitsstarfseminnar sé meiri en kostnaður þjóðfélagsins vegna hennar. Það átti sem sagt að meta gildi eftirlitsstarfseminnar með peningum, þ.e. til fjár, og það er nýlundan í frv. Þetta er búið að taka út í meðförum hv. efh.- og viðskn. Þetta er það sem menn kalla að ná víðtækri sátt um frv. Núna á að meta þjóðhagslegt gildi eftirlitsins, hvað sem það nú þýðir.

Við höfum lent í því á undanförnum árum að menn hafa blásið út eftirlitsiðnaðinn og heilbrigðiskerfið og marga aðra þætti vegna þess að ekki hefur mátt leggja fjárhagslegt mat á þessa þætti. Þætti sem þó eru greiddir með peningum, með peningum allra skattgreiðenda og lesta atvinnulífið regluverki á þann máta að sumir segja að eftirlitsiðnaðurinn skilji eftir sig sviðna jörð, að þeir komi í heimsókn og skilji eftir sig himinháa reikninga. Atvinnulífið er látið borga þetta bæði með miklum vandræðum við að uppfylla þær kröfur, oft á tíðum óraunsæjar kröfur, sem gerðar eru til þess, og eins með því að útfylla alls konar skýrslur, skýrslugjörð, og borga svo reikninginn fyrir allt saman.

Til þess að vinna bug á þessu var þetta frv. lagt fram og þar átti að reikna út hvort gildi þessara eftirlitsreglna væri meira en kostnaðurinn. En það er sem sagt búið að taka út. Nú á bara að meta gildið. Og þar kemur ýmislegt til. Hvernig metum við hreint loft? Hvernig metum við manngildið o.s.frv.? Það er ekki nokkur einasti vegur. Og því höfum við líka horft upp á sífellda aukningu á kostnaði bæði við eftirlitskerfin og við heilbrigðisþjónustuna, gjörsamlega án nokkurra takmarkana eða bremsa, nema bara það sem skattgreiðandinn þolir. Það er því ekki með glöðu geði sem ég skrifa undir nál. og án fyrirvara. En það var lagt hart að mér að gera það vegna þess að annars yrðu of miklar umræður um frv. og næðist ekki einhugur um það og það næðist ekki fram. Þetta er sem sagt þessi viðtekna hótun minni hlutans við þinglok sem kemur aftur og aftur fram og m.a. gagnvart þessu frv. Minni hlutinn, 22 þingmenn, eru eins og ég segi, að beita meiri hlutann þrýstingi, 41 þingmann sem kjósendur hafa kosið til forustu á hv. Alþingi.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi þá skrifaði ég undir nál. án fyrirvara og geri ekki tillögur um breytingar á þessu. En ég vildi geta þess að það er búið að taka, að mínu mati, mestallan brodd úr frv.