Rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 13:52:12 (4386)

1999-03-06 13:52:12# 123. lþ. 79.17 fundur 341. mál: #A rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu# þál., Frsm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[13:52]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. umhvn. um þáltill. um rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu.

Flutningsmenn eru sá sem hér stendur og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon og Kristín Halldórsdóttir.

Þáltill. hljóðar svo: ,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera ítarlegar rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu með það að markmiði að stuðla að skynsamlegri nýtingu rjúpnastofnsins. Tilgangur rannsóknanna verði að kanna umfang og áhrif skotveiða á stofninn, viðkomu hans eftir svæðum, samhengi veiða og náttúrulegra affalla og að gera samanburð á rjúpnastofninum undir mismiklu veiðiálagi.``

Í grg. með þáltill. kemur fram að rjúpan er lykiltegund í íslensku vistkerfi og einn einkennisfugla íslenskrar náttúru. Hún er afkastamikill grasbítur en um leið er rjúpan líka mikilvæg í fæðu refa og ekki síst fálka en fálkastofninn hér á landi á allt sitt undir viðgangi rjúpunnar.

Þegar horft er til landsmanna skipar rjúpan að sjálfsögðu mikinn sess í hugum landsmanna vegna fegurðar og þeirra tilfinninga sem margir bera til þessa fugls, (Gripið fram í: Og skáldanna.) og skáldanna svo sannarlega eins og lesa má í ljóðum, og hún er jafnframt orðin fastur þáttur í jólahefð og jólahaldi landsmanna.

Skotveiðimenn sækja mjög í rjúpnastofninn eins og eðlilegt er og hafa sýnt ábyrga afstöðu með því að móta umgengnis- og siðareglur og með því að taka þátt í skipulagningu veiða og eftirliti með veiðum, þar á ég við Veiðikortasjóðinn, en eins og öllum er kunnugt þurfa menn nú að greiða ákveðið gjald fyrir veiðikort á hverju ári og skila inn skýrslum. Þessi lofsverða framganga skotveiðimanna hefur skilað sér annars vegar í öruggum heimildum um skotveiðar og sömuleiðis í fé sem nýtt hefur verið til rannsókna.

Hins vegar er á það að líta að svo mjög virðist vera sótt í rjúpnastofninn, sérstaklega í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, ef ég má kalla það Suðurland og Vesturland, að margt bendir til ofveiði á stofninum. Svo víst er það að náttúrulegar sveiflur í stofninum koma ekki fram á þessu svæði eins og öðrum svæðum landsins. Það kann því að fara svo að grípa verði til takmarkana með einhverjum hætti en þær takmarkanir krefjast tveggja grundvallaratriða. Annars vegar að fullt samkomulag sé á milli veiðimanna, landeiganda og rannsóknaraðila og hins vegar að rannsóknir séu gerðar á rjúpnastofninum við núverandi veiðiálag, þannig að ljóst sé hverju friðun kann að skila. Með hliðsjón af þessu er nauðsynlegt að efla rannsóknir á vetrarafföllum rjúpunnar. Það verður ekki eingöngu gert með því að láta Veiðikortasjóðinn greiða, heldur verður ríkið að sinna eðlilegum rannsóknarskyldum sínum og fjármögnun rannsóknanna með því að leggja fé til rannsókna á vetrarafföllum rjúpunnar eins og til annarra rannsókna, en láta ekki eingöngu Veiðikortasjóðinn standa undir þessu.

Nefndin var sammála um að standa að samþykkt þessarar þáltill. í vissu þess að ríkisvaldið og réttir aðilar geri þær ráðstafanir sem þáltill. mælir fyrir um.