Alþjóðleg viðskiptafélög

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 14:31:44 (4389)

1999-03-06 14:31:44# 123. lþ. 79.13 fundur 414. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# frv. 31/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það mál sem hefur hér verið rætt, alþjóðleg viðskiptafélög, var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti. Ég stend að meirihlutaáliti efh.- og viðskn. með fyrirvara. Ég vil gera grein fyrir þeim fyrirvara.

Eins og komið hefur fram fjallar frv. um að heimila að stofna alþjóðleg viðskiptafélög t.d. á sviði sjávarútvegs, með viðskipti á milli þriðju landa með sjávarafurðir. Hér er verið að fara inn á braut í lagasetningu sem þekkist víða erlendis og ég tel að við eigum að gera þá tilraun sem ég tel að felist í þessari lagasetningu, þ.e. að útbúa lagaumgjörð um slík félög eins og gert er ráð fyrir í frv. og veita þessum félögum skattaívilnanir eins og hér er gert ráð fyrir.

Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að með þessu er verið að setja upp ákveðnar sérreglur gagnvart tiltekinni atvinnustarfsemi. Þó að ég sé almennt talsmaður þess að reglur séu almennar þá eigum við vitaskuld að grípa til sértækra aðgerða ef við teljum það skynsamlegt. Ég tel í þessu tilviki að það sé hagkvæmt fyrir okkur að gefa mönnum tækifæri til að starfrækja slík félög og þá ekki hvað síst á sviði sjávarútvegs. Ég tel að þar getum við átt þátt í öflugri sókn á alþjóðlegum markaði. Það er svið sem við þekkjum vel til og þessi lagaumgjörð mundi hjálpa þar til.

Herra forseti. Þess vegna tel ég skynsamlegt að lögfesta þann ramma sem hér er til umræðu þó ég geri mér fulla grein fyrir því að hér er ekki um að ræða löggjöf í anda hinna almennu reglna sem mjög eru ræddar. Hins vegar erum við ekki að finna upp hjólið heldur er sambærileg löggjöf til víða erlendis.

Herra forseti. Ég tel að við eigum að láta reyna á þessi sóknarfæri og ég vil benda sérstaklega á brtt. sem er flutt af meiri hlutanum og kom m.a. inn fyrir forgöngu mína. Þar segir að ákvæði til bráðabirgða orðist svo, með leyfi forseta:

,,Viðskiptaráðherra skal fyrir árslok 2001 leggja fram skýrslu á Alþingi um áhrif laganna á íslenskt efnahagslíf.``

Þetta tel ég mjög mikilvægt, herra forseti. Þá er alveg augljós vilji Alþingis að þessi lagasetning skuli fá reynslu í tvö ár, hún verði endurmetin og skýrsla gefin hinu háa Alþingi. Það yrði þá Alþingi sem tæki aftur upp þessa löggjöf, mundi fella hana úr gildi ef hún hefði ekki reynst vel, betrumbæta hana eða hvernig sem menn kjósa. A.m.k. er tryggt með þessari útfærslu að málið komi aftur til kasta Alþingis, þ.e. að hið háa Alþingi fær tækifæri til að skoða áhrif þessarar lagasetningu.

Herra forseti. Ég tel því að í þessum búningi og með því að Alþingi fái tiltölulega fljótt niðurstöðu um áhrif þessarar lagasetningar að fullkomlega verjandi og skynsamlegt sé að gera lögin úr garði eins og kemur fram í brtt. meiri hluta efh.- og viðskn.