Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 14:43:54 (4391)

1999-03-06 14:43:54# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Frsm. meiri hluta TIO
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

Frá hruni Sovétríkjanna hafa orðið meiri breytingar á varnar- og öryggismálum í Evrópu en nokkurn hafði órað fyrir. Ríki Mið- og Austur-Evrópu voru drepin úr dróma yfirdrottnunar og tóku þá til við að endurreisa lýðræðið sem fært hafði verið í fjötra þegar þessi ríki komust undir járnhæl kommúnismans. Þegar hin gamla valdastétt hraktist frá völdum og lýðræðissinnar tóku við stjórnartaumum, t.d. eins og í Tékkóslóvakíu, varð það eitt fyrsta verk þeirra að viðurkenna að tilvera NATO hefði verið þeim ljós í myrkrinu. Sú skuggalega mynd sem áróðursvél Sovétríkjanna hafði áratugum saman dregið upp af varnarbandalagi hinna lýðfrjálsu þjóða og hampað hafði verið af andstæðingum Atlantshafsbandalagsins hér á landi hrundi í einu vetfangi þegar þjóðir Mið- og Austur-Evrópu fengu aftur frelsi til að tjá sig um málið.

Frá þessum mikilvægu tímamótum hafa mörg þeirra ríkja sem áður lutu oki Sovétríkjanna opinberlega viðurkennt mikilvægi Norður-Atlantshafsbandalagsins sem friðar- og öryggisbandalags þótt enn séu þeir aðilar til hér á landi sem dragi framlag þess til friðarins í efa.

[14:45]

Einhugur er um það meðal aðildarríkja NATO og annarra lýðræðisríkja í Evrópu að bandalagið sé framtíðarvettvangur varnar- og öryggismála í álfunni. Jafnframt hefur ríkt víðtækt samkomulag um það frá 1989 að laga bandalagið að nýjum aðstæðum. Sú aðlögun hefur verið hröð enda helst hún í hendur við viljann til að stækka bandalagið. Tólf nýfrjáls lýðræðisríki Mið-Evrópu sækjast eftir aðild að bandalaginu. Í vor munu fyrstu þrjú ríkin hljóta inngöngu en það eru Pólland, Tékkland og Ungverjaland. Þessar þjóðir hafa unnið mikið starf við að laga sig að þeim kröfum sem bandalagið setur um varnir og viðbúnað. Þær munu verða virkir þátttakendur og leggja bandalaginu til herstyrk.

Samtals 27 ríki, sem eiga ekki aðild að NATO, hafa tekið þátt í vettvangi sem bandalagið hafði forgöngu um að koma á og gengur undir nafninu Félagsskapur í þágu friðar. Þeirra á meðal eru Svíþjóð og Finnland. NATO hefur gert sérstakan samstarfssamning við Rússland og Úkraínu. 44 ríki eiga aðild að Evró-Atlantshafssamvinnuráðinu sem fjallar m.a. um almannavarnir, varnar- og öryggismál, efnahagsmál og vísinda- og umhverfismál. Í samstarfi við aðrar alþjóðlegar stofnanir hefur bandalagið gegnt forustuhlutverki í friðargæslu á Balkanskaga og hefur tryggt vopnahlé í Bosníu. Þannig hefur bandalagið í raun fært út kvíarnar á ýmsan hátt og leitast við að víkka það svæði öryggis og friðar sem var áður takmarkað við aðildarríkin.

Þessi viðleitni hefur borið mikinn árangur, ekki síst gagnvart Rússlandi og Úkraínu. Rússar taka nú þátt í viðamiklu samráðsferli sem er til þess gert að draga úr tortryggni og efla samstarfsanda og samstarfsvilja. Innan hernaðargeirans hefur þetta gengið vel og tvímælalaust haft mjög jákvæð áhrif.

Meginerfiðleikar í bættu samstarfi við Austur-Evrópuríkin eins og Úkraínu og þó einkum og sér í lagi Rússland eru fólgnir í því að efnahagserfiðleikar í þessum heimshluta, og einkum og sér í lagi í Rússlandi, eru þvílíkir að þeir hefta alla framþróun samfélagsins og standa í vegi fyrir lýðræðisþróun í ríki þar sem grundvallarsjónarmið lýðræðis og mannréttinda hafa enn ekki fest fyllilega rætur.

Ekki er vafi á því að mikill vilji er fyrir því í Rússlandi að festa lýðræðið í sessi. Efnahagserfiðleikar Rússlands hafa hins vegar grafið verulega undan möguleikum þjóðarinnar til að takast á við vandamál sín og því má segja með sanni að efnahagsþróun í Austur-Evrópu nú um stundir sé ein alvarlegasta ógnin sem steðjar að friði og öryggi í Evrópu.

Ef þróun Norður-Atlantshafsbandalagsins frá hruni Sovétríkjanna er dregin saman í lokaniðurstöðu má segja að bandalagið hafi lagað sig ótrúlega hratt að breyttum aðstæðum, eflst til muna og orðið í augum Evrópuríkjanna allra burðarásinn í þróun öryggismála álfunnar. Ísland hefur tekið, sem eitt af aðildarríkjum bandalagsins, fullan þátt í viðræðum um innri aðlögum NATO að breyttum aðstæðum.

Það er því hafið yfir allan vafa að ein af meginstaðreyndum í evrópskum öryggismálum er að hlutverk NATO hefur vaxið og framlag þess til öryggis og friðarmála hefur orðið æ þyngra á vogarskálunum og mikilvægara í öllu tilliti. Með því að hvika í engu frá sameiginlegri varnarstefnu og trúverðugum varnarviðbúnaði, en jafnframt laga sig að nýjum aðstæðum, hefur bandalagið orðið í senn kjölfesta öryggismála og farvegur fyrir aðlögun og nýsköpun í öryggismálum.

Í Evrópu hafa öryggismálin breytt um eðli og orðið flóknari og samofin ýmsum öðrum málaflokkum eins og efnahagsmálum og umhverfismálum. Engu að síður er staðreynd að mikil óvissa ríkir um stjórnmálaþróun og efnahagsþróun í Austur-Evrópu og Suðaustur-Evrópu. Meðal annars af þessum sökum hefur ekkert ríkja álfunnar afsalað sér rétti til landvarna og hlutleysisstefna hefur ekki fengið byr í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa á öryggismálum álfunnar. Auk þessa hefur alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi orðið alþjóðlegt vandamál. Nánast er ómögulegt að reikna hvar hryðjuverkastarfsemi kemur niður. Okkur, sem og öðrum þjóðum, ber að bregðast við þessum vanda.

Herra forseti. Ekki standa nein efni til að veikja varnir Norður-Atlantshafsbandalagsins eða viðbúnað varnarliðsins hér á landi. Íslendingar verða á hverjum tíma að leggja sjálfstætt mat á eigin öryggishagsmuni og tengja þá hagsmunum þeirra þjóða sem við eigum samleið með í varnar- og öryggismálum.

Þáltill. sú sem er til umfjöllunar kveður á um skipan nefndar til að ganga til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með samkomulagi um brottför varnarliðsins skapist aðstæður til að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu, eins og það er orðað í þáltill., stefnu sem grundvallaðist á vopnleysi, friðlýsingu og sjálfstæði, óháðri stöðu landsins utan hernaðarbandalaga. Brottför varnarliðsins er því hugsuð sem liður í úrsögn úr NATO, úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og það skilgreint sem sjálfstæð utanríkis- og friðarstefna að rjúfa þá samstöðu lýðræðisríkjanna sem myndast hefur um NATO sem varnarbandalag og kjölfestu í öryggis- og friðarmálum álfunnar.

Íslendingar hafa mótað utanríkisstefnu sína og valið að stuðla að friði og öryggi í Evrópu með samstarfi við önnur lýðræðisríki innan NATO og þau fjölmörgu ríki sem vilja eiga samstarf við NATO-ríkin og sækjast eftir inngöngu í bandalagið. Skilaboð til samstarfsríkja þeirra sem sótt hafa um NATO-aðild verða að vera mjög skýr. Skilaboð okkar til aðildarríkja bandalagsins verða einnig að vera mjög skýr. Með úrsögn úr NATO er grafið undan samstöðu og öryggismálum aðildarþjóða Norður-Atlantshafsbandalagsins. Því er afar mikilvægt að Alþingi taki afstöðu til efnis tillögunnar og þeirra markmiða með flutningi hennar sem sett eru fram í greinargerð. Þau markmið ganga gegn öryggishagsmunum Íslendinga og þau brjóta í bága við þá farsælu stefnu í utanríkismálum sem þjóðin hefur fylgt og hefur tryggt samstöðu okkar með aðildarþjóðum Norður-Atlantshafsbandalagsins.

Herra forseti. Með vísan til framangreindra orða leggur meiri hlutinn til að tillagan verði felld.

Undir nál. skrifa Tómas Ingi Olrich, Gunnlaugur Sigmundsson, Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason, Siv Friðleifsdóttir og Lára Margrét Ragnarsdóttir.