Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 14:53:39 (4392)

1999-03-06 14:53:39# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Frsm. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram mæli ég fyrir nál. minni hluta utanrmn. um till. til þál. um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

Herra forseti. Eftir að Íslendingar vörpuðu fyrir róða upprunalegri hlutleysisstefnu sinni, sem landið hafði fylgt frá stofnun fullveldisins 1918, fyrst með inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar 1946 og síðan undir lok sama áratugar þegar landið gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, má heita að seinni hluti aldarinnar hafi einkennst hér á landi af ágreiningi um öryggis- og varnarmál sem klauf þjóðina sannarlega í andstæðar fylkingar. Af þeim ágreiningi leifir enn víða í samfélaginu, hann hefur náð inn í flestar þeirra stjórnmálahreyfinga sem hafa átt fulltrúa á Íslandi og mismunandi viðhorf til þessara lykilmála er að finna jafnt meðal þingmanna stjórnarandstöðunnar og þingmanna ríkisstjórnarinnar.

Lok kalda stríðsins og gerbreyttar aðstæður í heiminum hafa skapað nýjar og breyttar forsendur sem gera ekki aðeins kleift að fjalla um þessi mál með nýjum hætti heldur kalla beinlínis á það. Hlutverk NATO hefur gerbreyst og það er enn að breytast. Hernaðarógnin er allt önnur og minni. Að því er okkur Íslendinga varðar var hún fyrr á árum í sumum fjölmiðlum oft metin á heimatilbúnum kvarða þar sem mælieiningin var heimsóknir sovéskra flugvéla upp að landinu. Til dæmis um breytinguna á þessu sviði má nefna að fyrir átta árum flugu orustuvélar af Keflavíkurflugvelli í veg fyrir 26 sovéskar herflugvélar á tólf mánaða tímabili. En síðan þá, síðan fyrir átta árum, hefur ekki ein einasta herflugvél Rússa komið í námunda við landið.

Í kjölfar þessara breytinga á alþjóðavettvangi hafa auðvitað orðið verulegar breytingar á viðbúnaði stöðvarinnar í Keflavík. Hermönnum hefur fækkað um rúmlega þriðjung, kafbátaleitarflugvélum um meira en helming, ratsjárflugvélar hafa horfið á braut og herþotum fækkað úr átján í fjórar. Þátttaka Íslendinga í vörnum landsins hefur nú þegar stóraukist. Daglegur rekstur og viðhald ratsjárloftvarnakerfisins er nú komið í hendur landsmanna sjálfra.

Mikilvægt er að menn skilji að þessir breyttu tímar kalla á að við skilgreinum hugtök á borð við öryggi og varnir upp á nýtt. Vígbúnaðarkapphlaupið, milli austurs og vesturs sem var fylgifiskur kalda stríðsins, gerði það að verkum að öryggishugtakið hafði fyrst og fremst hernaðarlega merkingu og beinar landvarnir voru sá þáttur varnarmála sem mestu skipti meðan á kalda stríðinu stóð. Í dag, herra forseti, má segja að varnir almennt feli í sér viðbúnað til að tryggja tilveru, til að tryggja fullveldi ríkja meðan öryggishugtakið einskorðast ekki við grundvallarforsendur af því tagi. Öryggishugtakið tekur líka yfir aðgerðir sem miða að því að tryggja sjálfstæði og jafnvel menningu einstakra ríkja. Þetta speglast t.d. í þeim breytingum sem hafa orðið á öryggismálasamstarfinu sem hv. þm. rakti í framsögu sinni áðan þar sem markmiðið hefur ekki einvörðungu verið friðhelgi landamæra heldur líka að treysta undirstöður menningararfleifðar eins og hún birtist í leikreglum réttarríkis, lýðræðislegum hefðum og mannréttindum.

Með þeirri dvínandi hernaðarógn, sem gerð er rækilega að umtalsefni í skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur dreift á þinginu um öryggis- og varnarmál í lok 20. aldar, eru því gerð góð skil hvernig þessi breyting, þessi dvínandi hernaðarógn, hefur leitt til þess að við höfum séð á sjónarröndinni annars konar nýjar og margslungnari hættur sem hafa skapast og geta orðið sérlega hættulegar smáþjóðum sem búa yfir takmörkuðum eða engum hernaðarmætti. Hættan vegna hryðjuverkastarfsemi er þannig vaxandi vandamál í vestrænum ríkjum og vopnaðir öfgahópar gætu t.d. í framtíðinni gert smáþjóðir með lítinn viðbúnað að skotmarki sínu til að leggja áherslu á kröfur sínar.

Ísland hefur raunar ekki að öllu leyti farið varhluta af því á síðustu áratugum. Ég vek sérstaka athygli á því, herra forseti, að í þeirri skýrslu utanrrn., sem ég drap á hér áðan, er m.a. vikið að því að færi svo að Ísland næði þeim áfanga að setjast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gæti það beint sjónum slíkra hópa að Íslandi. Aðrar hættur geta að sjálfsögðu einnig ógnað þjóðum og sér í lagi smáþjóðum. Ég nefni þar sérstaklega útbreiðslu skipulagðrar glæpastarfsemi sem hefur af hálfu utanrrn. einmitt verið skilgreind sem ein þeirra ógna sem kynnu að steðja að smáþjóðum.

Í fylgiskjalinu með ræðu utanrrh., sem ég hef aðeins drepið á, ræðu utanrrh. um utanríkismál sem fór fram 25. febr., er vakin athygli á þessari nýju þíðu sem hefur átt sér stað sl. áratug í alþjóðamálum og bent á að hún hefur dregið úr mikilvægi beinna hervarna og, eins og ég hef hér rakið, leitt til þess að hugtakið ,,öryggi`` hefur fengið margþættari og dýpri merkingu. Verndun öryggis ríkja er í vaxandi mæli samþætt utanríkismálum. Samstarf um frið, samstarf um stöðugleika er í vaxandi mæli nauðsynlegt til að komast fyrir rætur ófriðar. Efnahagsmál og viðskipti, mannréttindi, afvopnun, stjórnar- og tæknisamstarf eru nú stór þáttur öryggismála. Þess vegna hefur virk þátttaka ríkja í störfum fjölþjóðlegra og alþjóðlegra stofnana fengið meira vægi en áður.

[15:00]

Í umræddu fylgiskjali segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Síðast en ekki síst gefur dvínandi hernaðarógn við landið Íslendingum færi á að takast á hendur stærra hlutverk í vörnum landsins en áður.``

Við þrír þingmenn Samfylkingarinnar sem stöndum að þessu áliti teljum nauðsynlegt að fram fari ítarleg og hreinskiptin umræða um stöðu Íslands hvað varðar öryggis- og friðarmál. Við teljum ekki rétt að breytingar verði gerðar á aðild Íslands að NATO á næsta kjörtímabili en viljum stuðla að þeirri þróun, að bandalagið eigi sem mesta samleið með stofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum og ÖSE.

Þau viðhorf sem ég hef hér verið að lýsa eru í samræmi við þann farveg sem umræða og aðgerðir hafa verið í. Nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar, sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich gerði grein fyrir, er hins vegar af talsvert öðrum toga. Þar eru kaldastríðsviðhorfin enn þá efst á baugi og engu líkara en umræðan fari fram eins og litlar breytingar hafi orðið í heiminum frá sjötta og sjöunda áratugnum.

Herra forseti. Ég legg áherslu á það að um dvöl varnarliðsins og um framtíð herstöðvarinnar er ágreiningur sem teygir sig inn í alla stjórnmálaflokka. Það á líka við um þá aðila sem standa að Samfylkingunni. Sami ágreiningur teygir sig líka inn í þingmannalið ríkisstjórnarinnar. Höfum það alveg á hreinu, herra forseti.

Áður en viðræður verða teknar upp við Bandaríkjastjórn árið 2000 um framkvæmd varnarsamningsins, en bókun þar að lútandi fellur úr gildi árið 2001, teljum við brýnt að fram fari ítarleg úttekt á öryggismálum landsins og framtíð alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Samfylkingin telur að slíkt eigi að gera í samvinnu ríkisstjórnar og Alþingis og mun beita sér fyrir því að svo verði. Þá fyrst þegar úttekt þessi hefur farið fram er tímabært að marka framtíðarstefnu um tilhögun öryggismála hér á landi, eins og segir í skýrslu utanríkisráðherra um öryggis- og varnarmál Íslands um næstu aldamót. Í skýrslunni kemur fram ný sýn sem kallar á að samstarfið verði metið í nýju ljósi.

Herra forseti. Í framsögu minni hef ég verið að lýsa fyrir okkar hönd nauðsyn þess að marka stefnu um framtíðarskipan öryggis- og varnarmála í samræmi við gerbreyttar aðstæður í heiminum. Tillaga sú um brottför hersins sem hér liggur fyrir er ekki í samræmi við þau sjónarmið og við þrír þingmenn Samfylkingarinnar, sem skrifum undir nál., munum þess vegna ekki styðja hana. Þessir þrír þingmenn eru, fyrir utan þann sem hér stendur: Hv. þingmenn Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson, sem eru fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn.