Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 15:06:49 (4396)

1999-03-06 15:06:49# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. rembist eins og rjúpa við staurinn. Það er búið að stela af honum glæpnum. Hv. þm. ætlaði að reyna að gera mikið mál úr þessari tillögu og meintri ósamstöðu innan Samfylkingarinnar um þetta mál.

Nú er það svo að Samfylkinginn hefur orðið til á síðustu tveimur mánuðum ef svo má segja. Hún hefur náð sér á flug núna á síðustu þremur, fjórum vikum eins og ítrekað kemur fram í skoðanakönnunum sem væntanlega hafa orðið til þess að hv. þm. hefur stundum fengið skjálfta í hnén. Miðað við það hvernig þær liggja þá hefur hann fyllstu ástæðu til þess.

Samfylkingin hefur einungis gert verkefnaskrá til næstu fjögurra ára. Það gildir ekki bara um utanríkismálin. Það gildir um öll önnur mál líka. Við höfum til að mynda lagt fram ákveðna verkefnaskrá um hvað við viljum gera í heilbrigðismálum á næstu fjórum árum. Það er ekki hægt að draga þá ályktun af því, herra forseti, að vegna þess að við höfum ekki sagt hvað gerist á árunum sem þar koma á eftir að við ætlum að leggja til að heilbrigðiskerfið verði lagt niður.

Hv. þm. verður því að varast að falla í þessa gryfju sem hann er um það bil að detta ofan í, sýnist mér.