Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 15:08:11 (4397)

1999-03-06 15:08:11# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þannig háttar til að ég á áheyrnaraðild að hv. utanrmn. auk þess að vera 1. flm. tillögunnar sem nú er á dagskrá. Ég á, eins og núverandi þingsköp eru úr garði gerð, ekki kost á því þar af leiðandi að skila nál. og hlýt ég að gera munnlega grein fyrir mínum viðhorfum og þeim rökstuðningi sem ég hef fyrir afstöðu minni eftir umfjöllun utanrmn. á þessari tillögu, en sú afstaða er óbreytt þeirri sem fram kemur í flutningi tillögunnar, að ég legg til að þessi tillaga verði samþykkt.

Ég fagna því í sjálfu sér að tillagan hefur hlotið afgreiðslu úr utanrmn. Allt of oft eru það örlög tillagna að fá ekki afgreiðslu þaðan eða úr öðrum hv. þingnefndum og það er vont og ekki síst þegar í hlut eiga grundvallarmál sem ástæða er til að Alþingi taki skýrt á. Ég fagna því afgreiðslu tillögunnar þó að ég hljóti auðvitað að lýsa hinu að mér eru að sjálfsögðu vonbrigði að hún skuli ekki fá stuðning. Ég get ekki sagt, herra forseti, að ég hafi verið þvílíkur bjartsýnismaður að ég hafi átt von á stuðningi stjórnarflokkanna eða Sjálfstfl. t.d. við þessari tillögu, en ég gerði mér satt best að segja vonir um að það tiltölulega hógværa sjónarmið, að fara fram á skipan þverpólitískrar nefndar til að ræða við bandarísk stjórnvöld um veru eða ekki veru ameríska herliðsins hér á landi, gæti hlotið nokkurn hljómgrunn, því í sjálfu sér felst nú ekki meira í tillögunni. Auðvitað hlýt ég, herra forseti, að lýsa sérstaklega nokkurri undrun á því að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í utanrmn., að formanni Alþb., hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, meðtöldum, skuli ekki treysta sér til að taka undir þessa tillögu, þessa, að mínu mati, tiltölulega hógværu nálgun í viðkvæmu deilumáli, að setja niður þverpólitíska nefnd til viðræðna um málið. Að vísu gefa forsendur tillögunnar eða tillögugreinin sjálf til kynna ákveðin markmið með þeim viðræðum, þ.e. markmiðin um brottför hersins, en það hefði að sjálfsögðu mátt ræða í nefndinni í tengslum við afgreiðslu málsins og þá spurningu hvort það væri ósanngjarnt eða óæskilegt fyrir þjóðina að þverpólitísk nefnd væri að störfum og tæki ásamt ráðherra og framkvæmdarvaldinu þátt í viðræðum við bandarísk stjórnvöld um framtíðina í þessum efnum.

Að sjálfsögðu hefði mátt búast við skiptum skoðunum í þessari nefnd en þær eru staðreynd í þjóðfélaginu í dag og hafa lengi verið og verða væntanlega svo lengi sem þessi her verður í landinu. Og allar vonir manna um annað, að þeir sem eru andvígir hernaðarhyggju og dvöl erlends herliðs í landinu láti af sannfæringu sinni, eru óraunhæfar. Þær eru það. Ég veit það. Sú von mun lifa með þjóðinni og í brjóstum miklu fleiri Íslendinga en margir þora að viðurkenna eða vilja viðurkenna.

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að lesa tillögugreinina með vísan til þessa rökstuðnings sem ég hef hér flutt og læt þess getið í leiðinni að flm. að tillögunni ásamt mér eru hv. þingmenn Kristín Halldórsdóttir og Ragnar Arnalds, sem nú mun gegna stöðu varaformanns þingflokks Samfylkingarinnar, og hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka undir forustu formanns, sem utanríkisráðherra skipar án tilnefningar, til að ganga til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Stefnt skal að niðurstöðu áður en gildandi samkomulag við bandarísk stjórnvöld um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli rennur út. Nefndin skal að undangenginni athugun og könnunarviðræðum við bandarísk stjórnvöld skila áfangaskýrslu til Alþingis eigi síðar en í árslok 1999 þannig að tími gefist til samninga um málið áður en uppsagnarákvæði núgildandi bókunar um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli verður virkt eða rennur út.``

Herra forseti. Það hvarflaði að mér að þeir sem sömdu nál. minni hluta utanrmn. hefðu aldrei lesið tillögugreinina þegar þeir settu sitt nál. saman. Mér er ljóst að þetta er djörf fullyrðing, svo ekki sé sagt ásökun. En svo undarlegt sem það er þá er ein aðalröksemd minni hlutans fyrir því að styðja ekki tillöguna eða leggjast gegn henni sú að það þurfi að fara fram könnun og úttekt á þessu sviði. En hvað stendur í tillögugreininni sem ég var að lesa upp áðan? Það er að hin þingkjörna eða þverpólitíska stjórnskipaða nefnd hefði það hlutverk m.a. að kanna allar aðstæður í málinu og fara í könnunarviðræður við bandarísk stjórnvöld. Er þá ekki að verulegu leyti komið til móts við það sjónarmið þeirra manna sem eru svo illa á vegi staddir hvað upplýsingar snertir í þessum efnum að þeir hafa ekki stöðu til að mynda sér skoðun? En það virðist vera meginniðurstaða Samfylkingarinnar að ekki liggi nægjanlegar upplýsingar fyrir hendi til þess að unnt sé að hafa skoðun á því hvort erlendur her eigi að vera í landinu eða ekki að vera í landinu.

Því vísa ég til tillögugreinarinnar og bendi á að það hefði verið hægur vandinn að víkja eitthvað til þessu orðalagi eða betrumbæta það þannig að forsendunni um upplýsingar og úttekt væri þarna fullnægt.

Herra forseti. Það hefur talsvert verið vitnað í greinargerð tillögunnar til rökstuðnings afstöðu manna þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þessa tillögu. Nú er það að sjálfsögðu að mörgu leyti eðlilegt að menn reyni að skyggnast inn í það hvað fyrir tillögumönnum vakir. Engu að síður er það staðreynd að það sem Alþingi afgreiðir með atkvæðagreiðslum sínum er lagatextinn sjálfur eða tillögugreinin sjálf en ekki greinargerðin. Í greinargerð með þessari tillögu koma fram skoðanir okkar flutningsmanna og mat okkar á aðstæðum og um leið framtíðarsýn okkar. Það er sú framtíðarsýn að ef herinn hyrfi úr landi þá skapaði það aðstæður fyrir sjálfstæðari og óháðari utanríkisstefnu Íslendinga en ella væri, og held ég að þurfi nú varla að rökstyðja það. En með því að samþykkja tillöguna um viðræðunefnd við bandarísk stjórnvöld eru menn í sjálfu sér ekki að samþykkja hitt. Það er skoðun okkar og við sem hana setjum fram í greinargerð berum ábyrgð á henni og þeir sem samþykkja nefndarskipan eða annað orðalag í tiltekinni tillögugrein þurfa ekki að bera neina pólitíska ábyrgð á greinargerðinni frekar en þeir kjósa. Og vilji menn sérstaklega þvo hendur sínar af slíku þá er það auðvelt í nál. eða ræðu.

[15:15]

Herra forseti. Ég leyfi mér að segja þetta vegna þess að menn hafa dálítið gripið til þess að rökstyðja afstöðu sína með vísan til greinargerðarinnar en ekki þess sem tillagan sjálf felur í sér. Ég hefði að mörgu leyti talið að þrátt fyrir allt hefði verið heppilegra að rökræðan færi meira fram á þeim grundvelli hvort menn væru sammála eða ósammála því að setja svona nefnd í þetta tiltekna verkefni, að ræða við bandarísk stjórnvöld um stöðu hersins í landinu.

Herra forseti. Það er mitt mat og okkar sem stöndum að þessari tillögu að allar aðstæður séu til þess að láta þennan draum rætast. Það var lengi draumur allra landsmanna að losna við erlendan her, þurfa ekki að hafa erlendan her í landi sínu. Ég vísa aftur til þess að lengi vel var það, a.m.k. í orði kveðnu, stefna allra íslenskra stjórnmálaflokka að hér skyldi ekki vera erlendur her á friðartímum. Hægt og hljótt virðist að vísu þessi áhersla hafa horfið úr stefnu a.m.k. tveggja og nú e.t.v. þriggja stjórnmálaflokka eða hreyfinga. Á ég þar við Sjálfstfl. fyrst. Við ræddum það fyrir nokkru síðan hvort hægt væri að tímsetja þetta skeið eða þessar breytingar á áherslum Sjálfstfl. sem urðu a.m.k. eftir tíð Ólafs heitins Thors, fyrrv. formaðnns flokksins sem var einn skeleggasti talsmaður þeirra sjónarmiða að hér ætti ekki að vera erlendur her á friðartímum og setti þau fram með þungum rökum á fimmta áratug aldarinnar, eins og ég veit að einhverjir muna eftir.

Seinna hefur það síðan gerst að því er virðist hjá Framsfl. A.m.k. er ljóst að í tíð núv. formanns, hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar, er verulega breyttur tónn í umfjöllun Framsfl. um þessi mál. Þar hef ég ekki heyrt lengi ítrekaða þá afstöðu flokksins sem áður var, að hér eigi ekki að sitja erlendur her á friðartímum. Þvert á móti hefur það gerst æ ofan í æ á seinni árum að núv. formaður Framsfl. hefur verið í fararbroddi meðal haukanna á Vesturlöndum þegar kemur að harðlínustefnu NATO eða Bandaríkjamanna í alþjóðamálum. Nægir að vitna þar t.d. til þess þegar hæstv. utanrrh., einn og óbeðinn, steig fram á völlinn og lýsti yfir sérstakri þörf fyrir að gera loftárásir á Írak og fleira í þeim dúr.

Herra forseti. Spurningin er hvort við erum einnig núna stödd frammi fyrir þeim veruleika að þriðja stjórnmálaaflið, þ.e. Samfylkingin, fylgi sömu stefnu, eða öllu heldur hafi ekki einu sinni þá stefnu --- ef talsmaður Samfylkingarinnar mætti vera að því að hlusta --- að meira að segja Samfylkingin hafi ekki einu sinni þá stefnu að það væri æskilegt að hér væri ekki erlendur her á friðartímum. En það er erfitt að ráða í það út frá því sem hér var flutt áðan og út frá þessu nál. hvort svo er eða ekki. Samfylkinguna vantar upplýsingar til að mynda sér skoðun á því hvort hér eigi að vera eða ekki vera erlendur her. Það er athyglisvert.

Ég held að aðstæður séu kjörnar til þess nú að semja um það að erlendur her hverfi brott af Íslandi. Ég enn svo óforbetranlegur bjartsýnismaður í þessum efnum að ég trúi því að innst inni þá vilji velflestir Íslendingar sjá það gerast. Ég trúi því að það sé þannig, að í hjörtum langflestra Íslendinga blundi sú von að hér þurfi ekki að vera erlendur her.

En það er hins vegar óskaplega auðvelt að hræða menn frá því að fylgja þeirri sannfæringu sinni með því að finna óvin og búa til grýlur eða benda á hættur, ef ekki í nálægum löndum þá í fjarlægum heimshlutum. Maður bíður eiginlega eftir því að það komi að því að hættur utan úr geimnum verði rök fyrir því að hér þurfi að vera erlendur her til að verja okkur fyrir slíku. Það er ekkert eftir nema það. Svo langt hafa menn seilst um hurð til lokunnar til að rökstyðja þessa hluti.

Þó er það þannig að jafnvel helstu gæslumenn hersetunnar viðurkenna að það sem áður var notað sem röksemd fyrir veru hersins hér, þ.e. aðsteðjandi ógn, og þá aðallega úr austri frá Rússum eða Sovétmönnum, sé meira og minna horfin. Það kemur skýrt fram í hinu fræga fylgiskjali með ræðu utanrrh. sem minni hlutinn hefur tekið meira ástfóstri við en eigin stefnuskrá, og er þá langt til jafnað, því að svo iðulega vitnar minni hlutinn, þ.e. Samfylkingin, í skýrslu embættismanna utanrrn. að ég hef aldrei séð einu plaggi gert jafnhátt undir höfði. Þetta er samantekt þriggja embættismanna í utanrrn. sem eru orðnir að þvílíkum hugsuðum og brautryðjendum í sínum störfum að Samfylkingin hefur bara ekki komist í aðra eins texta um dagana. Það var þá náttúrlega von til þess að tímamótin mundu birtast í skjali. Hverjir eru höfundar þess? Fastafulltrúi Íslands hjá NATO. Það var nú ekki von á öðru en að þaðan kæmi víðsýnið hvað varðar hlutverk NATO í heiminum. Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofunnar, þ.e. samskiptabatterísins við herinn. Það var nú annar frumlegur hugsuðurinn og líklegur til þess að hafa sjálfstæða og óháða skoðun á málinu og leggja Samfylkingunni lið í sinni málefnavinnu. Og þriðji maðurinn er skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofunnar. Ég veit auðvitað að það er ekki heiglum hent að finna breiðari skipan þriggja manna í starfshóp til að bera svona ný sjónarmið og breiða hugsun inn í umfjöllun um hlutverk NATO og hersins í landinu en fastafulltrúann hjá NATO, samskiptafulltrúa við NATO í utanrrn. og skrifstofustjórann yfir honum. Þetta er alveg fullkomnað. Og það er von að þessi óháða, faglega skipaða nefnd hafi vakið gleði Samfylkingarinnar með sínum niðurstöðum.

Þetta er nú svona, herra forseti. Ég held í öðru lagi að tíminn sé réttur til þess að taka þessi mál á dagskrá. Það stendur þannig á að núgildandi bókun um umsvifin á Keflavíkurflugvelli fellur úr gildi árið 2001 og hún er með endurskoðunarákvæðum miðað við apríl árið 2000. Þess vegna stöndum við væntanlega frammi fyrir einhverjum ákvörðunum eða hugsanlegum breytingum á umsvifum Bandaríkjahers í landinu og jafnvel veru hans hér að einhverju leyti. Einnig má benda á aldamótin. Því er auðvitað lag núna og ekki verri tími en hver annar til að fara yfir þessi mál og skoða þau.

Herra forseti. Til hvers eru þessar bókanir sem gerðar hafa verið við varnarsamninginn og Samfylkingin ruglaði saman við varnarsamninginn, hélt að þær væru hann sjálfur og gaf sér þar af leiðandi þá skrýtnu forsendu í haust að varnarsamningurinn væri tímabundinn og rynni út árið 2001? En það hefur verið leiðrétt. Til hvers eru þessar bókanir? Jú, þær eru vegna þess að Bandaríkjaher fór að draga saman á Íslandi þegar Sovétríkin hrundu og Varsjárbandalagið leystist upp í tengslum við þá afvopnun sem náðist í samningum stórveldanna á níunda áratugnum, samningunum um takmörkun á kjarnorkuvopnum og meðaldrægum vopnum o.s.frv.

Þá gerðist það að Íslandsmenn sumir fóru að verða órólegir. Og það kom í hlut þáv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar að fara ferð eftir ferð til Washington til að ræða við bandarísk stjórnvöld. Um hvað? Um þau umsvif sem Íslendingar báðu um að yrðu að lágmarki á Íslandi. Það er þannig. Það vita allir að það var erindi sendimanna Íslendinga vestur um haf í þetta sinn, ekki að finna Ameríku, eins og fyrir þúsund árum. Nei, að biðja um að umsvifin yrðu að lágmarki þetta, að hér yrðu a.m.k. fjórar eða átta herþotur, hér yrðu björgunarþyrlusveitir í tengslum við þær o.s.frv. Þetta var þannig og er þannig. Tvær slíkar ferðir hafa verið farnar eða öllu heldur hafa tvær slíkar bókanir verið gerðar.

Og af því hafa menn ráðið, og ekki svo sem bara giskað á það, að Bandaríkjaher hafi viljað draga meira úr umsvifum sínum heldur en þeim sem fóru með utanríkismál á Íslandi þótti gott. Það held ég að sé staðreynd. Ég bendi mönnum á heimildir í Bandaríkjunum í því sambandi. Það liggur t.d. fyrir að ákveðnar deildir innan Bandaríkjahers töldu ekki lengur þörf á orustuflugsveit á Íslandi og lögðu til að hún yrði annaðhvort staðsett í Skotlandi eða á meginlandi Bandaríkjanna, hún yrði ekki staðsett hér að staðaldri.

Herra forseti. Þetta er ákaflega dapurlegur veruleiki sem við stöndum frammi fyrir en hann er til marks um það að ef við sjálfir vildum þá er ekki ástæða til að ætla annað en að viðsemjandinn, þ.e. bandaríski herinn, mundi skoða það af fullri alvöru að draga meir úr sínum umsvifum og það væri ekki endilega mikið ágreiningsatriði við þá að þeir hyrfu héðan á brott. Ég hef að vísu miklar efasemdir um að bandaríski herinn muni fara af sjálfsdáðum að fullu og öllu þó að við Íslendingar hættum að biðja hann að vera, eða þeir Íslendingar sem það gera, og létum það afskiptalaust. Ég reikna með, þó ekki væri nema af pólitískum ástæðum, að Bandaríkjamenn mundu vilja hafa sinn stimpil hér á landakortinu með því að hafa hér einhvern tiltekinn viðbúnað, en hugsanlega talsvert minni en þann sem þeir hafa haft upp á síðakastið að beiðni íslenskra stjórnvalda.

Í þriðja lagi, herra forseti, ef menn vilja fara út í þá sálma, þá eru að ýmsu öðru leyti hagstæðar aðstæður fyrir okkur til að mæta þeim breytingum sem brottför hersins og þeim umsvifum sem honum hafa verið samfara, hefði í för með sér og mundi auðvitað leiða til nokkurra breytinga á okkar högum, sérstaklega íbúa á Suðurnesjum. Atvinnuástandið er allgott. Okkur Íslendingum hefur vegnað nokkuð vel í efnahagsmálum þannig að við stöndum bærilega að vígi til að taka á okkur þær breytingar sem þessu væru samfara og eru reyndar hlutfallslega mun minni nú en þær hefðu verið á árum áður. Það er ljóst að vegna minnkandi umsvifa hersins hér, mun minni framkvæmda og vaxandi þjóðartekna af öðrum toga, aukinna tekna af sjávarútvegi, ferðaþjónustu, hugbúnaðariðnaði og öðru slíku, þá vega þær tekjur sem af herliðinu koma mun minna en áður. Þar af leiðandi munar okkur minna um að verða af þeim eða mæta þeim breytingum sem brottför hersins yrði samfara.

Herra forseti. Í fjórða lagi nefni ég eina góða ástæðu til þess að losna við herinn, þ.e. umhverfismálin eða öllu heldur umhverfisspjöllin sem erlent herlið hefur valdið á Íslandi eins og herlið gera mjög víða eða hafa gert. Það er auðvitað ekki nokkur vafi á því og það liggur fyrir, að stórfelld umhverfisslys hafa orðið á Íslandi í tengslum við hersetuna. Þau hafa alls staðar fylgt hernaðarumsvifum. Erlendir herir eða þau ríki sem þá hafa gert út hafa verið að borga skaðabætur svo gífurlegum fjárhæðum nemur og/eða taka á sig kostnað við að hreinsa upp eftir sig. Það sama mundi að sjálfsögðu eiga við á Íslandi, gef ég mér, þó að íslensk stjórnvöld hafi að vísu gert alveg fáheyrða samninga við Bandaríkjaher um að undanþiggja hann ábyrgð á sinni eigin mengun, samanber samninga t.d. varnarmálaskrifstofunnar eða utanrrn. við herinn þegar hann hvarf af Heiðarfjalli og af fleiri svæðum.

En nýjar aðstæður í umhverfismálum, aukin meðvitund um þau mál og auknar kröfur sem menn gera í þeim efnum kalla á að einnig að þessu leyti tökum við á. Það er ömurlegt til þess að vita að árum saman liggja yfirgefin svæði sem Bandaríkjaher hefur mengað, afgirt og óhreinsuð, og enginn veit í raun og veru hversu alvarleg mengun eða mikil mengunarslys hafa orðið. Ég bendi mönnum á að líta til hægri ef þeir eiga leið suður með sjó og fara í flugstöðina í Keflavík og keyra þar upp á Miðnesheiðina. Þar er stórt afgirt svæði með húsarústum, grunnum og drasli sem, það ég best veit, hefur legið þannig um árabil vegna þess að það er þrælmengað og herinn hefur ekki skilað því af einhverjum ástæðum, væntanlega vegna þess að það er eitthvert reiptog eða ekki útkljáð mál hvernig með mengunarslysin eigi að fara.

Um leið og við losnuðum við hinn erlenda her og í tengslum við það væri að sjálfsögðu rétt að gera samninga um hvernig Bandaríkjamenn kostuðu hreinsun á þeim svæðum sem þeir yfirgæfu og öðrum sem þeir hafa þegar yfirgefið og bættu fyrir það tjón, þá mengun og þann umhverfisskaða sem þarna hefur sannarlega orðið. Ég sé ekki hvers vegna þeir ættu ekki að gera það hér á Íslandi eins og þeir hafa gert í Þýskalandi, Japan, á Filipseyjum og víðar þar sem þeir hafa yfirgefið herstöðvar. Það væri í takt við þá hugsun sem ég a.m.k. vil sjá í umhverfismálum að við tækjum okkur tak einnig að þessu leyti.

Ég nefni svo breytingar í alþjóðamálum almennt, herra forseti. Ég tel alveg tvímælalaust að breytingar í alþjóðamálum kalli á endurskoðun og þær aðstæður sem m.a. komið er inn á í skýrslu utanrrh. og fylgiskjalinu fræga, þar sem þó er viðurkennt að dregið hafi úr mikilvægi beinna hervarna og að hernaðarógnin við Ísland hafi minnkað, eins og þar segir. Reyndar er komist að þeirri furðulegu niðurstöðu að það kalli á að við yfirtökum aukið hlutverk í vörnum landsins í staðinn fyrir að menn geti þá bara ósköp einfaldlega dregið úr því sem slíku.

[15:30]

Þetta er þó til marks um að menn viðurkenna að þróunin í alþjóðastjórnmálum og öryggismálum er í þessa átt eða hefur verið og býður upp á að endurskoða hlutina og þar á meðal að hér sé þörf fyrir erlendan her sem ég tel að vísu að hafi aldrei verið. Ég fullyrði að við Íslendingar værum jafn vel settir og reyndar sennilega miklu betur þó að hann hefði aldrei stigið fæti sínum hingað. Reyndar held ég að ekkert í sögunni sýni að svo gæti ekki verið. Þvert á móti bjuggum við um áratuga skeið við miklu minna öryggi en ella vegna veru hans hér, vorum skotmark, sem við hefðum annars ekki verið.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að fara örfáum orðum um rökstuðning meiri hluta og minni hluta í nál. sínum en tímans vegna skal ég hafa það stutt. Um álit meiri hluta utanrmn. verð ég að segja að mér finnst fyrst og fremst eitt standa upp úr í því áliti. Það er frá þeim hv. þm. formanni utanrmn. og félögum. Það er þessi taumlausa NATO-mærð. Það allt í lagi og verður auðvitað að hafa sinn gang að sumir eru miklir stuðningsmenn NATO og hafa þá trú að við eigum að vera í NATO og NATO eigi að vera til o.s.frv. Ég er annarrar skoðunar og um það getum við verið ósammála eins og gengur. En mér finnst mega á milli vera hvort menn hafa trú á NATO, eru heldur hliðhollir eða vinveittir því og hinu að leggjast í þá taumlausu, væmnislegu mærð sem einkennir umfjöllun margra NATO-sinna á Íslandi um þessar mundir þannig að manni verður beinlínis óglatt, herra forseti. Það er þannig. Þetta er þvílík væmni og mærð að það er leitun að öðrum eins textum. Ég fullyrði að NATO-sinnum í öðrum löndum dettur ekki í hug að vera svona kaþólskir. Hér eru menn kaþólskari en páfinn. Menn hafa tekið trú á NATO. Það er bara eins og að sáttmáli NATO og pappírar hafi eiginlega komið í staðinn fyrir Biblíuna hjá þessum mönnum. Gagnrýnislaust er NATO tekið, því hampað, það er mært, það hefur haft 100% rétt fyrir sér, aðrir 100% rangt. Það hefur gert allt rétt, það er allt jákvætt og allt gott.

Mér finnst þetta satt best að segja mjög sérkennilegt. Þótt menn séu út af fyrir sig stuðningsmenn einhvers fyrirbæris gerist þeir svo gjörsamlega gagnrýnislausir og sanntrúaðir að ekkert annað komist að. Ekki vottar fyrir neinum efasemdum af einum eða neinum toga. Þetta er í raun og veru stórmerkilegt, herra forseti. Síðan hvenær fóru menn uppi á hinu litla Íslandi, sem stærði sig löngum af því að vera vopnlaus smáþjóð, friðelskandi, að verða svona trúaðir á þetta fyrirbæri, þetta hernaðarbandalag og allt sem því fylgir og fylgja því gjörsamlega gagnrýnislaust og af þvílíkri mærð?

Mér finnst þetta, herra forseti, minna mig dálítið á og vera skylt þeim hroka sem hefur oft einkennt umfjöllun á Vesturlöndum um þjóðskipulag okkar, efnahagskerfi og annað því um líkt, t.d. þegar rætt er um hrunið í Austur-Evrópu. Ég segi: Dramb er falli næst. Það að gerast algjörlega gagnrýnislaus á sjálfan sig og sanntrúaður á eigið ágæti án efasemda þótt einhverjum öðrum farnist illa, er ekki skynsamlegt.

Ég held að þetta sé m.a. til marks um það sem ber feigð NATO í sér. Ef þetta á að vera boðskapurinn og málflutningurinn er ekki von á góðu. Ef menn eru svona öruggir um sjálfa sig, svona 100% vissir um að þeir hafi algjörlega rétt fyrir sér, án nokkurra efasemda um eigið ágæti og framgang, er það sjaldan til velfarnaðar. Önnur og stórmannlegri var þó nálgum Václav Havels, forseta Tékklands, sama manns og var að sækja um aðild um NATO fyrir þjóð sína, og menn á Vesturlöndum hafa hneigst til að túlka sem algjöra sönnun ágætis NATO þó að Austur-Evrópuþjóðirnar reyni að flýta sér sem mest þær mega undir kjarnorkuvopnahlíf NATO og allir skilja hvers vegna er. En Václav Havel var maður til þess að gagnrýna NATO og vara um leið við þeim hættum sem væru samfara ýmsu í uppbyggingu og eðli NATO. Hann varaði við því að NATO mætti ekki daga uppi sem klúbbur gamalla herforingja, íhaldssamra, gamalla hauka sem sæju ekkert nema vígbúnað í anda kalda stríðsins og vígbúnaðarkapphlaupsins og kæmu engri nýrri hugsun inn í kollinn á sér um að e.t.v. væri hægt að gæta öryggis í heiminum með öðrum hætti. Samtímis því að Václav Havel var að sækja um inngöngu í NATO fyrir hönd Tékklands, var hann og er talsmaður afvopnunar. Það er nálgun sem ég virði og skil, en ekki þessi botnlausa mærð, þessi NATO-dýrkun, þessi NATO-trúarbrögð, eins og að það geti verið trúarbrögð í sjálfu sér að heimurinn þurfi og eigi að byggja öryggisskipan sína á hernaðarbandalögum, einhverjum klúbbum hernaðarþjóða eða velmegandi þjóða eins og NATO auðvitað er og ekkert annað.

Um minni hlutann, herra forseti, væri kannski hyggilegast að fara fáum orðum. Ég veit satt best að segja ekki hvað ég á að hætta mér mikið út á það jarðsprengjusvæði að tjá mig um rökstuðning minni hlutans en ég hlýt þó að leyfa mér að gera það að einhverju leyti af því að þar er komist að gagnstæðri niðurstöðu við þá sem ég legg til við þingið, að það samþykki tillöguna.

Í fyrsta lagi vekur athygli, herra forseti, sú mikla ást sem minni hlutinn hefur fengið á skýrslu embættismannanna og ég fór aðeins yfir áðan. Í öðru lagi sá skortur á upplýsingum eða úttekt sem veldur því að minni hlutinn getur ekki stutt og/eða ætlar beinlínis að leggjast gegn tillögunni. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að það er alveg nýtt fyrir mér í umræðum um utanríkismál eða öryggismál að gagnvart grundvallarþætti í þeim efnum, eins og spurningin um veru erlends hers í landinu er, vanti menn upplýsingar til að mynda sér skoðun. Ég hef aldrei lent í því áður í þessum rökræðum og hef ég þó tekið þátt í þeim í býsna langan tíma. Ætli það séu ekki að verða 25 ár frá því að ég reifst fyrst um þetta, nokkuð ungur maður þá, á kappræðufundum Æskulýðsfylkingar Alþb. og Heimdallar hérna forðum og blessuð sé nú minning þeirra átaka allra saman og var reyndar oft gaman. En aldrei í gegnum þessi 20, 25 ár hef ég lent í því að málsmetandi menn í umræðum um þessi efni bæru fyrir sig skort á upplýsingum þegar kæmi að því að svara spurningunni: Er ég með eða á móti hernum eða með eða á móti aðild að NATO? Það er algjört nýnæmi fyrir mér að svo sé komið. Og að það skuli vera fólk sem lengi hefur fylgst með utanríkismálum, situr í utanrmn., á aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þar liggja fyrir, er í raun og veru enn kostulegra.

Ég tel, herra forseti, að við séum komin að grundvallarspurningum, og það eigi í raun og veru ekki að þurfa að flækja þá hluti mjög mikið fyrir sér. Ég nálgast spurninguna um veru erlends hers í landinu og kemst að niðurstöðu minni um að ég vilji hana ekki út frá mjög sambærilegum grundvallarsjónarmiðum og ég nálgast spurninguna um sjálfstæði þjóðarinnar, fullveldi og forræði í eigin málum og svo grundvallarfriðarhugsjónum mínum og grundvallarviðhorfum þegar kemur að samskiptum þjóða og friðsamlegri lausn deilumála.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að sú niðurstaða minni hlutans sem fram kemur í síðustu málsgrein nál., að vegna þess að í nál. hafi verið lýst nauðsyn þess eins og þar er sagt, ,,að marka stefnu um framtíðarskipan öryggis- og varnarmála í samræmi við gjörbreyttar aðstæður í heiminum``, sé tillaga okkar þremenninganna um nefndarskipan til að ræða við bandarísk stjórnvöld ekki í samræmi við þessi sjónarmið. Ég tel þetta algjöra rökleysu. Ég tel einmitt að nefndarskipan af þessu tagi gæti prýðilega verið hluti af nálgun af því tagi að menn vildu fara í viðræður um málin og afla sér upplýsinga til að undirbyggja ákvarðanir um framhaldið ef pólitískur vilji væri fyrir hendi í þeim efnum.

Ég held þar af leiðandi, herra forseti, að verið sé að fela, dulbúa með orðalagi hluti sem menn þora ekki að segja upphátt og kjósa að klæða í þennan búning. Þá er erfitt að eiga við hlutina, herra forseti, þegar ekki er hægt að tala um grundvallaratriðin með sæmilega skýru orðalagi.

Að lokum, herra forseti, vil ég aðeins koma að öryggismálunum almennt og þeirri spurningu hvort hægt sé að færa fram einhver trúverðug efnisleg rök, með vísan í ástandið í heiminum, fyrir því að hér þurfi að vera erlendur her. Eins og ég sagði áðan viðurkenna menn, bæði í nál. minni hlutans, í skýrslu utanrrh. og í ræðu utanrrh. á dögunum, að hernaðarógnin sem að Íslandi steðji sé minni eða hún sé nánast engin. Þannig vitnaði hv. þm. Össur Skarphéðinsson í að ekki hefðu sést hér rússneskar herflugvélar í átta ár. Það liggur fyrir að það er engum vopnum lengur beint að Íslandi. Það hafa hvergi á byggðu bóli fyrirfundist nein vopn sem miðuðu að því að sprengja eða skjóta á Ísland. Samt komast menn að þessari sérkennilegu niðurstöðu eða öllu heldur ekki niðurstöðu eins og á við í tilviki Samfylkingarinnar.

En þá gerist annað gamalkunnugt. Með alveg sama hætti og menn sóttu sér rök fyrir hersetunni á umliðnum áratugum, jafnvel í átök í fjarlægum heimshlutum eins og í Kóreu, grípa menn til þess að finna sér nýja óvini, nýja ógn í staðinn fyrir þá sem er horfin. Það var sagt á sínum tíma, þegar Varsjárbandalagið leið undir lok og rússnesku eða sovésku vopnin voru tekin úr skotstöðu að Atlantshafsbandalagið hefði misst besta vin sinn. Hinn helmingurinn af fyrirkomulagi kaldastríðsáranna væri horfinn og enginn hefði orðið fyrir eins miklu áfalli og NATO og hernaðarhaukarnir og hernaðarhagsmunirnir og hergagnaiðnaðurinn á Vesturlöndum og má til sanns vegar færa. Enda stóð ekki á því að þar brugðust klókir menn við og fóru að leita sér að nýjum tilgangi og nýjum óvini. Um það hefur þetta snúist síðan. Að NATO og hernaðarhagsmunirnir og efnahagshagsmunirnir, sem það er í raun og veru gríman fyrir, fóru á fulla ferð að leita sér að nýjum tilgangi og fór að koma sér upp nýjum óvinum. Og hefur gengið þokkalega. Saddam Hussein tók t.d. við af ýmsum öðrum ónefndum mönnum að vera mesta ógnun við heimsfriðinn og mestur glæpahrappur í heimi, og sannarlega er hann hábölvaður, ekki dreg ég úr því. En að hann hafi í sjálfu sér verið ógnun við heimsfriðinn út fyrir Miðausturlönd held ég að sé ofsagt.

Bandarískur forseti, eða kannski var það utanrrh., herra forseti, gekk svo langt á einum tíma, þegar örvæntingin stóð sem hæst yfir þessum skorti á óvini að hann tók allan hinn múslimska heim og sagði: Þetta er orðin mesta hættan fyrir Vesturlönd. Svo sáu menn að þetta var kannski ekki alveg heppilegt, Tyrkir voru með í NATO og menn drógu dálítið í land með þetta. En þá varð að finna eitthvað annað. Þeir leynast víða, Husseinarnir og Gaddafiarnir og skæruliðahóparnir og aðrir slíkir sem hægt er að hafa not af í þessu sambandi.

Það er dapurlegt, herra forseti, að verða vitni að því að meira að segja utanrrh. Íslands leggst svo lágt að taka þátt í þessum skrípaleik. Í ræðu sinni á dögunum kemur hæstv. utanrrh. inn á þetta mál, í raun og veru með svofelldum orðum, hafandi talað um að dregið hafi úr hernaðarógninni og allt þetta, með leyfi forseta:

,,Hugmyndafræðilegar forsendur kalda stríðsins eru brostnar og þau ríki eða ríkjabandalög, sem hugsanlega gætu boðið sameinuðum Vesturlöndum byrginn, hernaðarlega, efnahagslega og pólitískt, hafa hvorki burði né vilja til þess þegar til skemmri tíma er litið.`` --- Nú, er þetta þá ekki í lagi eða hvað? --- ,,Breytt hættumat hefur haft í för með sér umtalsverðan niðurskurð til varnarmála í okkar heimshluta og því ber að fagna.`` --- Nú? Já gott, því bera að fagna, en svo kemur þetta: ,,Engu að síður standa ríki heims nú frammi fyrir hættum sem ógnarjafnvægi risaveldanna hélt í sumum tilfellum í skefjum.`` --- Nú, það var þá ekki svo bölvað eftir allt saman. --- ,,Má þar nefna aukinn aðgang útlagaríkja`` --- ég endurtek, herra forseti, útlagaríkja --- ,,og öfgasamtaka að gereyðingarvopnum og hátæknihergögnum, átök þjóðarbrota, trúarvíg, flóttamannastraum, ólöglega fólksflutninga, alþjóðlega glæpastarfsemi, alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi og hrun ríkisvalds í mörgum heimshlutum.`` --- Minna má nú gagn gera. Þetta er ekki fallegt.

[15:45]

Þarna finnst mér, herra forseti, utanrrh. Íslendinga vera fallinn ofan í þá gryfju að vera á fullri ferð í leit að nýjum óvinum og nýjum tilgangi til að hernaðarhugsunin og hernaðarbandalagið og vígbúnaðurinn og hergagnaiðnaðurinn geti mallað áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hann varð að vísu fyrir þessu óhappi, þessu áfalli, að Sovétríkin hrundu, Varsjárbandalagið leystist upp. En bisness er bisness og lífið verður að halda áfram og þá er gott að geta gripið til þess að benda á ýmsa hryðjuverkahópa, skæruliða, trúarátök, hvað það nú er, og jafnvel útlagaríki, herra forseti, jafnvel útlagaríki. Ef svo vel bæri í veiði að hæstv. utanrrh. væri einhvers staðar nálægur og mætti heyra mál mitt eða þó síðar væri, hefði ég áhuga á því að heyra skilgreiningu á þessu hugtaki. Hvað þýðir orðið ,,útlagaríki`` í munni utanrrh. Íslands? Er það þannig að í huga hans --- kannski samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar --- séu einhver tiltekin ríki útlæg úr samfélagi þjóðanna? Hver ákveður það þá? Hvaða ógn stafar okkur á Íslandi af þessum útlagaríkjum og eru þau kannski aðalröksemdin fyrir því að hér eigi að vera erlendur her?

Nei, herra forseti, þetta finnst mér vera dapurlega hliðin á málinu. Það er skollaleikurinn í kringum þetta á þessum nótum. Í staðinn fyrir að vera sjálfum sér samkvæmir, sem þeir sem réttlættu veru hersins með ógninni á kaldastríðstímanum ættu að vera og segja þá núna: Gott, nú getur hann farið, þá fara menn út í þetta: Að leita sér að, búa sér til ef ekki vill betur, nýjan óvin til að halda áfram að réttlæta þetta eins og ekkert hafi í skorist þannig að ekkert breytist.

Auðvitað er eitthvað annað á bak við sem ekki má segja. Kannski var hæstv. utanrrh. þrátt fyrir allt hreinskilinn á sinn hátt þegar hann réðst á mig í fyrri umræðu um málið og spurði: Er þá tillögumaður að leggja til að Íslendingar fari að borga allan rekstrarkostnað Keflavíkurflugvallar? Er það það sem tillögumaður er að leggja til?

Ég spurði auðvitað á móti: Já, en er þá rekstrarkostnaður Keflavíkurflugvallar orðinn rökin fyrir því að herinn eigi að vera hér? Erum við þá komin þangað? Erum við þá komin þangað í aldarlok í umræðu um þessi mál að það sé aronskan sem eftir standi þegar hitt hafi verið síað frá? Er það það? Ja, það er von að spurt sé.

Herra forseti. Ég legg til að tillagan verði samþykkt og ég geri það með mjög góðri samvisku. Ég tel að það væri gæfuspor fyrir íslensku þjóðina ef hún næði að ná betur saman í þessum málum. Þrátt fyrir allt hafa deilurnar sem tengst hafa utanríkismálum og veru erlends hers í landinu og aðild okkar að hernaðarbandalagi verið þjóðinni oft og tíðum erfiðar. Þær hafa valdið átökum og ágreiningi sem ella hefði á köflum mátt komast hjá. Ég hygg að enginn geti móti því mælt ef hann lítur til baka, þó ekki sé nú alla tíð aftur til upphafsins fyrir 50 árum, hljóti menn að þurfa að viðurkenna að þetta hafi verið eitt af erfiðari deilumálum í íslensku samfélagi á sínum tíma og það er það enn. Það verður á meðan erlendur her verður í landinu. Það verður hann að vísu ekki um aldur og ævi, það er algjörlega ljóst í mínum huga, fyrr eða síðar mun hann hverfa. Spurningin er ekki hvort heldur hvenær.