Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 16:09:09 (4400)

1999-03-06 16:09:09# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Frsm. meiri hluta TIO
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[16:09]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á nokkur atriði sem drepið hefur verið á í umræðunni og mér þykja nokkuð athyglisverð og vil fara nokkrum orðum um málflutning minni hlutans.

Fyrir það fyrsta langar mig til að víkja að því sem hefur gerst hér í tvígang, að fulltrúar Samfylkingarinnar hafa kastað sér í mikilli gleði yfir fskj. með ræðu utanrrh. um utanríkismál á Alþingi og gert úr því plaggi nánast stefnuskrá sína. Það sem eiginlega er skemmtilegast við þetta er að komið hefur í ljós í þessari umræðu í hvílíkri örvæntingu samfylkingarmenn voru í utanríkismálum.

Ef farið er nákvæmlega yfir fskj. með ræðu utanrrh. má segja að þar sé staðfest sú stefna að í engu sé vikið frá grundvallarforsendum öryggis- og varnarstefnu Íslendinga sem hafa legið til grundvallar í áratugi. Það er staðfest mjög skýrt. En einnig er rætt um það í skýrslunni að Íslendingar eigi að taka meiri þátt í vörnum landsins.

Og hver skyldi það nú vera hér á Alþingi sem hefur einna skýrast og skeleggast farið fram á það að Íslendingar tækju meiri þátt í vörnum landsins? Það var hv. þm. Björn Bjarnason sem gerði þetta uppskátt fyrir nokkrum árum, tveimur árum sennilega, að Íslendingar ættu að taka meiri þátt í vörnum landsins. Hann uppskar nú ekki mikinn fögnuð þá. Sennilega hafa fulltrúar Samfylkingarinnar ekki verið reiðubúnir, ekki andlega reiðubúnir til að fara með sinn fagnaðarkór hér þegar Björn Bjarnason kom fram með þessar hugmyndir. Og það verður að segjast eins og er að þeim hugmyndum var heldur ekki tekið vel að öllu leyti í samstarfsflokki okkar í ríkisstjórninni.

Nú hefur það hins vegar gerst á þessum stutta tíma að menn eru allt í einu orðnir mjög jákvæðir fyrir hugmyndum hv. þm. og hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar um að Íslendingar taki meiri þátt í vörnum landsins. (ÖS: Hann vildi heimavarnarlið.) Það er hinn mesti misskilningur og útúrsnúningur þannig að hv. þm. hefur sínar upplýsingar úr teiknimyndasögum eða einhverju öðru. Björn Bjarnason vildi efla þátttöku Íslendinga í vörnum landsins og hefur sett hugmyndir sínar fram um það á mjög skeleggan hátt.

Ég vil taka fram að auðvitað er það eðlilegt að þegar hin beina ógnun við landið minnkar og þörfin fyrir varnarliðið minnkar þá tökum við aukinn þátt í varnarsamstarfinu hér. En í raun og veru snýst deilumálið um það hvort við eigum að hafa hér lágmarksvarnir eða ekki.

Það kom mjög skýrt fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hann er enn sömu skoðunar og hann hefur alltaf verið. Hann hefur aldrei talið hafa verið þörf fyrir varnarlið á Íslandi og hann er þeirrar skoðunar að sú aðstaða hafi ekki breyst neitt. Það sé enn ekki þörf á varnarliði. Hann hefur ekki breytt tóninum að því leyti til að hann talar enn um að Ísland sé hersetið land, sem er athyglisvert því að fyrir hvern einasta mann sem leggur eðlilegan skilning í orðið hersetu þá liggur ljóst fyrir að Ísland er ekki hersetið land. Ísland var hersetið á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar af Bretum. Eftir að við gerðum varnarsamninginn við Bandaríkjamenn hefur Ísland ekki verið hersetið land og ómögulegt er að nota hugtakið hersetið land um Ísland.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór nokkrum orðum um það sem hann kallaði NATO-mærð þeirra þingmanna sem hér höfðu talað og teldust vera stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins. Hann sagði að ekki væri alveg laust við að sér væri óglatt yfir þessari mærð. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi verið frekar óheppinn þegar hann vitnaði í Váslav Havel sérstaklega til þess að segja frá því að sá góði maður, sem hefði ýtt undir að land hans fengi inngöngu í NATO, hefði þó gagnrýnt NATO á sama tíma.

Ég held að ég hafi ekki heyrt meiri lofræðu um Atlantshafsbandalagið en einmitt af vörum Havels sem sagði að í Atlantshafsbandalaginu hefði verið vonarneistinn sem þeir hefðu horft til á meðan þeir voru í svartnættinu innan valdasviðs Sovétríkjanna. Er það að undra að menn hafi farið hlýjum orðum um Atlantshafsbandalagið? Gera menn sér grein fyrir því hve örlög þeirra þjóða hafa orðið sem urðu að þola að lenda innan vébanda Sovétríkjanna, þurftu að þola áratugum saman að efnahagur þeirra þróaðist ekki eðlilega, mannréttindi þróuðust ekki eðlilega og þær drógust aftur úr öllum öðrum þjóðum í Evrópu? Fyrir svo utan hitt að þær urðu að þola með vissu millibili innrás herja Varsjárbandalagsins, eins og kom fyrir Ungverjaland og Tékkóslóvakíu.

Það er ekki að undra þó að mörgum í Evrópu sé hlýtt til Atlantshafsbandalagsins og ég dreg enga dul á það að ég tel að við eigum Atlantshafsbandalaginu mikið að þakka.

[16:15]

Eitt af því sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og kom mér mjög á óvart var að hann taldi að við sýndum dramb í garð Rússa vegna efnahagserfiðleika þeirra. Þetta kemur mér mjög á óvart. (Gripið fram í: Í ræðu þinni.) Það er afskaplega undarleg fullyrðing vegna þess að ég hef leitast við að varpa ljósi á það hversu erfitt efnahagsástandið er í Rússlandi, hversu alvarlegt það er fyrir friðinn í Evrópu og hve brýn ástæða er til að við tökum þátt í að bæta stöðu þeirra. Ekki kom á nokkurn hátt fram dramb af minni hálfu í garð Rússa. Ég býst við að sá sem hér stendur hafi tekið meiri þátt í því á alþjóðlegum vettvangi að ná sambandi við Rússa í sambandi við efnahagsmál og vinna með þeim að margvíslegum verkefnum en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert. Ég hef átt samvinnu við Rússa, m.a. við rússneska þingið um efnahagsmál og horfur í orkumálum. Það hefur skilað mér meiri þekkingu á þessum málum en ég hafði. Ég hef myndað náin tengsl við marga ágæta stjórnmálamenn í Rússlandi af þessum sökum.

Spurt var hvort við værum talsmenn afvopnunar. Að sjálfsögðu erum við talsmenn afvopnunar. NATO er talsmaður afvopnunar og hefur alltaf verið en Atlantshafsbandalagið hefur aldrei verið talsmaður einhliða afvopnunar. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Sovétríkin gömlu ráku áróðursmaskínu í Evrópu sem hét friðarhreyfing. Sú áróðursmaskína átti marga stuðningsmenn á Vesturlöndum og þessir stuðningsmenn gerðu það að hugsjón sinni að Vestur-Evrópa afvopnaðist einhliða. NATO varð aldrei fórnarlamb þessa áróðursleiks Sovétríkjanna á sínum tíma, enda var engin ástæða til þess.

Einnig var spurt hvort ekki hafi verið rétt að Ólafur Thors hefði viljað standa utan hernaðarbandalaga. Ég hygg að það hafi verið hugsjón flestra Íslendinga á millistríðsárunum að Íslendingar stæðu utan hernaðarbandalaga og það var fullkomlega eðlilegt. Reynslan af upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar sýndi hins vegar fram á að í hlutleysinu væri ekki vörn. Hvert ríkið á fætur öðru varð að þola hersetu, Danmörk, Noregur, Benelúx-löndin og urðu fyrir ótrúlegum hremmingum og hörmungum vegna þess að þau gátu ekki varið sjálfstæði sitt. Niðurstaðan varð því sú eftir stríðið, við þær aðstæður sem þá sköpuðust í heimsmálum, að meiri hluti skapaðist fyrir því á Íslandi að við tryggðum varnir okkar og svo hefur verið síðan.

Ég vil því taka fram að ég tel skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að taka aukinn þátt í vörnum landsins en við eigum jafnframt að tryggja að hér verði lágmarksvarnarviðbúnaður. Í því felast langtímahagsmunir okkar í varnarmálum.

Að lokum vil ég taka fram að innan vébanda Samfylkingarinnar hafa málin þróast mjög hratt. Það verður spennandi að sjá hvernig hv. þm. Margrét Frímannsdóttir mun greiða atkvæði í þessu máli. Hún lýsti því yfir við fyrri umr. um þessa þáltill. að hún væri hlynnt málinu. Ég er með það fyrir framan mig og þar segir hv. þm. Margrét Frímannsdóttir:

,,... ég tel að sú tillaga sem hér er lögð fram sé spor í þá átt og þess vegna er ég henni hlynnt.``

(ÖS: Í hvaða átt? Til að fá umræður?) Að sjálfsögðu er maður annaðhvort hlynntur tillögunni eða á móti henni. Ef þetta hefur ekki verið það sem hv. þm. ætlaði sér að segja, þá á hún að sjálfsögðu fullan rétt á því að leiðrétta það. Svona stendur þetta hins vegar í þingræðu hennar. Auðvitað er eðlilegt að hún geri sjálf grein fyrir máli sínu og ekkert sjálfsagðara en að svona afstaða sé leiðrétt.

Ég held því að við verðum að sætta okkur við að afstaða Samfylkingarinnar til Atlantshafsbandalagsins er enn þá óljós. Það er óljóst hvort þeir stefna að því að ganga úr Atlantshafsbandalaginu eða ekki eftir fjögur ár. Við það verður Samfylkingin að lifa og við það verðum við, stjórnarflokkarnir á þinginu, einnig að lifa eins og bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu.