Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 16:26:38 (4404)

1999-03-06 16:26:38# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Frsm. meiri hluta TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[16:26]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að full samstaða var meðal stjórnarflokkanna um málið í utanrmn. Þar skrifuðu allir undir og enginn var með sérstöðu í því máli. Enginn þingmaður Framsfl. hefur lýst yfir samstöðu við þá þáltill. sem hér er til umræðu, ekki nokkur maður. Það er afar mikilvægt að fram komi að svo er ekki.

Það sem vekur athygli mína í þessari umræðu, herra forseti, er að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur gert mikið úr því að hér fari fulltrúar meiri hlutans með kaldastríðsraus í nefndaráliti sínu. Hann hefur hins vegar hvergi bent á það í nefndarálitinu, hvar það eigi sér stað. Þar er farið rækilega yfir það hvernig Atlantshafsbandalagið hefur lagað sig að breyttum aðstæðum og hvernig við höfum tekið þátt í því starfi. Þar er hvergi að finna nokkuð sem með nokkru réttlæti væri hægt að kalla kaldastríðsraus. En það er aðeins aðferðin sem hv. þm. notar. Hann notar ekki rök, hann bendir ekki á upplýsingar heldur notar hann yfirlýsingar.